Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 269/1980

Ár 1979

Lög nr. 10/1960  

Söluskattsskylda — Snjómokstur

Kærður er til niðurfellingar álagður söluskattur jan.-mars 1979 að fjárhæð 416 650 kr. og viðurlög til og með 15. maí 1979 að fjárhæð 83 330 kr.

Málavextir eru þeir að skattstjóri áætlaði kæranda (K) söluskatt vegna snjómoksturs, er kærandi annaðist fyrir Vegagerð ríkisins. Til verksins notaði kærandi vörubifreið í eigu hans, en verkkaupi útvegaði tönn á bifreiðina vegna þessa verkefnis. Akstursgjald var miðað við útgefinn taxta á leigugjaldi fyrir vörubifreiðar 10—13 tonn án söluskatts, samkvæmt taxta Landssambands vörubifreiðastjóra. Samkvæmt vottorði útibús Vegagerðarinnar á Selfossi, dags. þann 5. júní 1979, og fylgdi kæru, nam greiðsla til kæranda fyrir akstur vörubifreiðarinnar með snjótönn vegagerðarinnar tímabilið 1. janúar—30. mars 1979 4 231 994 kr. eftir fyrrnefndum taxta.

Skattstjóri taldi snjómokstur þennan söluskattsskyldan sem aðra vélavinnu og áleit að notkun bifreiðar til þess konar verks breytti engu þar um, þar sem ekki væru um akstur eða flutning að ræða.

Kærandi krefst aðallega niðurfellingar álagðs söluskatts og viðurlaga en til vara lækkunar m.t.t. lausaaksturs við verkið. Nánar segir svo í kæru:

„Samkvæmt meðfylgjandi yfirlýsingu Vegagerðar ríkisins hefur K fengið greitt frá Vegagerðinni fyrir vörubílinn samkvæmt taxta Landssambands vörubifreiðastjóra án söluskatts. Þar af leiðir að K hefur aldrei fengið greiddan söluskatt sem honum ber að skila.

Tönnin sem notuð er til snjómoksturs er eign Vegagerðar ríkisins og hefur K engar tekjur af henni. Vegagerð ríkisins sér algjörlega um útreikninga á vinnu þeirri sem K framkvæmdi, hann lagði inn vinnunótur og Vegagerðin skrifaði reikninga samkvæmt töxtum.

Til vara fer K fram á það að heildarupphæðin verði ekki lögð til grundvallar söluskattsálagningu þar sem um 40% af greiddum launum er vegna lausakeyrslu, þ.e.a.s. að fara á þá staði sem snjómoksturs er þörf. Getur verið um langar vegalengdir að ræða.“

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Röksemdir:

Enda þótt hugsanlegt sé að fallast megi á röksemdir sem fram koma í varakröfu í kærunni, verður ekki séð að málsgögn, skjöl og upplýsingar veiti sundurliðaða og tölulega rökstudda greinargerð um akstur og verðmæti aksturs hjá kæranda á umræddu tímabili. Með vísan til þessa og að öðru leyti til forsendna hins kærða úrskurðar þykir bera að gera kröfu um staðfestingu á ákvörðun hins kærða sölugjalds.“

Svo sem mál þetta liggur fyrir þykir eigi nægilega örugg lagaheimild til álagningar sölugjalds. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja