Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 501/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 37. gr., 38. gr.  

Vefenging skattframtals — Framfærslueyrir — Endurákvörðun

Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1979 að hækka tekjur hans um 500 000 kr. vegna lágs lífeyris.

Samkvæmt gögnum málsins byggði skattstjóri hina umdeildu tekjuviðbót á því einu að lífeyrir kæranda væri að hans mati óeðlilega lágur þegar tekið væri tillit til útreikninga Hagstofu Íslands sem byggðir eru á grundvelli vísitölu framfærslukostnaðar. Ekki verður á það fallist í þessu tilviki að þetta atriði eitt út af fyrir sig réttlæti hina umdeildu tekjuviðbót. Einnig er á það að líta að við álagningu opinberra gjalda á kæranda í skattskrá árið 1979 var engin athugasemd gerð um lífeyri kæranda. Þykir 1. mgr. 38. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, samkvæmt þessu eigi hafa veitt skattstjóra heimild til þeirrar hækkunar á tekjum kæranda, sem í máli þessu greinir. Þar sem tekjuhækkunin er þannig ekki lögmæt undirstaða undir gjaldahækkanir, sem kærðar eru, er krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja