Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 513/1980

Gjaldár 1978

Sala fasteigna — Atvinnurekstur — Rekstrarkostnaður — Sérstök fyrning — Kröfugerð

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1978. Kæruatriði eru sem hér segir:

1. Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að synja kæranda um gjaldfærslu sérstakrar fyrningar samkvæmt 5. mgr. D-liðar 15. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, að fjárhæð 31 727 984 kr. á móti ágóða af sölu fasteignarinnar B 102, Reykjavík, sömu fjárhæðar. Vísaði skattstjóri til þess, að tilgangur kæranda væri samkvæmt upplýsingum úr Firmaskrá Reykjavíkur byggingarstarfsemi og annar skyldur atvinnurekstur. Væri hér því um tekjur af atvinnurekstri að ræða, er féllu undir ákvæði A-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971 og væri því hin sérstaka gjaldfærða fyrning óheimil eins og málum væri háttað.

Af hálfu kæranda er þess krafist, að ákvörðun skattstjóra verði hrundið og hin sérstaka gjaldfærða fyrning látin óbreytt standa. Af hálfu umboðsmanns kæranda kemur fram svofelldur rökstuðningur fyrir kæru:

„Viðbótarálagning skattstjóra er á því byggð, að kæranda sé óheimilt að afskrifa húseignina M 13—15 um söluhagnað af B 102 eins og gert er í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1977, en hagnaður nam samtals 31 727 984 kr. Er úrskurður skattstjóra á því byggður að þar sem tilgangur félagsins samkvæmt skráningu Firmaskrár Reykjavíkur sé byggingarstarfsemi og annar skyldur atvinnurekstur sé um að ræða tekjur sem falli undir A-lið 1. mgr. 7. gr. skattalaga.

Kærandi hefur um nokkur ár, eins og sést á rekstrarreikningum hans, leigt út hluta af því húsnæði, er hann hefur byggt og hefur verið ætlun hans að eiga og leigja út í framtíðinni það húsnæði sem hann á að B 102 og M 13—15. Er það í samræmi við tilgang félagsins, sbr. „annan skyldan atvinnurekstur.“

Engin deila var um það að söluhagnaður af B 102 var skattskyldur, sbr. 9. mgr. E-liðar 7. gr. laga nr. 68/1971, enda færður til tekna á rekstrarreikning kæranda. Kærandi telur hins vegar að honum sé heimilt að afskrifa þennan söluhagnað með sérstakri afskrift samkvæmt heimild í 5. mgr. B-liðar 15. gr. laganna enda sé þar vísað til E-liðar 7. gr.“

2. Kærð er sú breyting skattstjóra á framtali kæranda árið 1978 að lækka gjaldfærðan risnukostnað um 40 000 kr., eða úr 93 095 kr. í 53 095 kr., vegna ófullnægjandi sundurliðunar og skýringa, er þó virtust benda til þess að kostnaður þessi væri vegna ótilgreindra gjafa. Af hálfu kæranda er þess krafist að gjaldfærður risnukostnaður verði að fullu tekinn til greina. í gögnum málsins kemur fram svofelld sundurliðun þessa kostnaðar: 2 895 kr. vegna afmælis starfsmanns, 11 400 kr. vegna fundar, 78 800 kr. gjafir til starfsmanns og viðskiptamanna.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Röksemdir:

Þar sem um hagnað af sölu B-eignanna virðist ekki fara eftir E-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971, með síðari breytingum, verður ekki séð að kæranda sé heimil sérstök fyrning samsvarandi hagnaðinum samkvæmt 5. mgr. B-liðar 15. gr. sömu laga. Vegna orða umboðsmanns kæranda í kæru til ríkisskattanefndar þess efnis að ekki sé umdeilt að um skattskyldu sölugróða fari eftir 9. mgr. E-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971 skal bent á að í úrskurði vísar skattstjóri beinlínis til upphafs greindrar 7. gr. en þar er vikið að almenna tekjuhugtakinu. Hugsanlegt er að nákvæmar hefði verið að vísa til 1. mgr. A-liðar greinarinnar en varla verður séð að tilvísunin skipti máli sem slík.“

Um 1. tl. Þegar höfð er hliðsjón af skráðum tilgangi með starfsemi kæranda svo og byggingu, notkun og sölu þeirra eigna, er um ræðir í málinu, þykir sala þeirra hafa verið sá þáttur í starfseminni að hún teljist til skattskyldra tekna samkvæmt A-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971, sbr. og upphafsákvæði greinarinnar. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er hann staðfestur að því er þetta kæruatriði varðar.

Um 2. tl. Með því að sýnt er að hinn umþrætti gjaldaliður er að einhverju leyti fólginn í ófrádráttarbærum kostnaði og að öðru leyti eigi svo sundurliðaður að fullnægjandi geti talist, þykja eigi efni til breytinga á úrskurði skattstjóra. Er því úrskurður skattstjóra varðandi þetta kæruatriði einnig staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja