Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 614/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 94/1976, 17. gr.   Reglugerð nr. 406/1978, 8. gr.   Lög nr. 112/1978, 1. gr., 3. gr., 4. gr.  

Sérstakur eignarskattur — Fasteignamatsverð — Kvaðir — Frávísun

Kærð er til niðurfellingar álagning sérstaks skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði samkvæmt lögum nr. 112/1978, um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði.

Málavextir eru þeir, að við álagningu samkvæmt skattskrá árið 1979 var lagður á kæranda sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði samkvæmt ofannefndum lögum að fjárhæð 591 000 kr. Var skattur þessi álagður vegna eignarhluta (50%) eiginkonu kæranda í húseigninni X, Reykjavík. Fasteignamat húss og lóðar nam 84 490 000 kr. eða að hlut eiginkonu kæranda 42 245 000 kr. Ekki fylgdi skattframtali kæranda árið 1979 sérstök skrá yfir eign þessa, sbr. 5. gr. laga nr. 112/1978, enda hefur fram komið í máli þessu af hálfu kæranda, að hann telur, að eigi sé um skattskyldu að ræða eftir lögum þessum.

Með kæru, dags. 7. ágúst 1979, til skattstjóra krafðist kærandi niðurfellingar á skatti þessum, einkum með vísan til þess, að ráðstöfunarréttur eigenda X um eign þessa hefði verið skertur með opinberum aðgerðum vegna varðveislusjónarmiða sökum byggingarlistsögulegs minjagildis. Hafi þetta valdið eigendum miklu fjárhagstjóni. Sé eigendum óheimilt að selja eignina eða reisa nýtt hús í stað hennar á lóðinni, en núverandi hús sé að stofni til talið vera frá 1792. Skattlagning við þessar aðstæður hefði í för með sér misrétti og væri óheimil að lögum. Þá vék kærandi að nýtingu lóðar að X með samanburði við nýtingu aðliggjandi lóðar, þar sem nýtt hús hafi verið reist. Sé nýting síðarnefndu lóðarinnar níu sinnum meiri en lóðar kæranda. Þar sem hið háa matsverð lóðarinnar sé aðalskattstofninn, væri um óréttlætanlega mismunun að ræða. Þá hafi engin lán hvílt á X á undanförnum árum, þegar verðbólga hefur geisað, og því ekki um neinn þann „verðbólgugróða“ að ræða, er tilgangur laga nr. 112/1978 hafi verið að skattleggja.

Með úrskurði, dags. 29. október 1979, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum, að í lögum nr. 112/1978 væri ekki að finna nein ákvæði, er heimiluðu skattstjóra að lækka þennan skatt með tilliti til afbrigðilegra eða óvenjulegra aðstæðna svo sem kærandi bæri fyrir sig, enda ekki annað vitað að skatturinn væri rétt álagður miðað við gildandi fasteignamat.

Með kæru, dags. 15. nóvember 1979, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og ítrekar fyrri kröfur um niðurfellingu hins álagða skatts með þeim sömu rökum og fyrr eru greind. Að auki víkur kærandi að tilgangi löggjafans með skattlagningu þeirri, sem hér um ræðir og vísar í þeim efnum til þess er fram kom í ræðu þáverandi fjármálaráðherra við umræður um frumvarp til laga um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði 18. og 21. des. 1978 svo og ræðu framsögumanns fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar Ed. 21. des. 1978. Komi í ræðum þessum glöggt fram, að markmiðið með lagasetningunni hafi verið að ná til „verðbólgugróða“ með skattlagningu þessari, þ.e.a.s. fjárfestingar í skrifstofu- og verslunarhúsnæði fyrir lánsfé á undanförnum verðbólguárum. Málum hafi ekki verið þannig háttað að því er X snertir. Máli sínu til stuðnings lætur kærandi fylgja staðfest endurrit, dags. 14. nóvember 1979, úr fasteignaregistri Borgarfógetaembættisins í Reykjavík, er sýni að engin lán hafi hvílt á X á umliðnum verðbólguárum. Þá bendir kærandi á, að álagning skatts þessa á árinu 1979 hafi farið 85% fram úr því, er áætlað hafi verið við setningu laganna sem tekjur af skattinum.

Með bréfi, dags. 15. janúar 1980, gerir kærandi grein fyrir varðveisluskipan hússins og forsögu þeirra aðgerða. Þá gerir kærandi grein fyrir bráðabirgðaskipan borgaryfirvalda, þar til frambúðarlausn fengist en samkomulag um þetta var gert á árinu 1970. Bréfi kæranda fylgdi ljósrit af bréfi borgarstjórans í Reykjavík, dags. 30. september 1970, varðandi þetta efni.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 16. október 1980:

„Af kæranda hálfu virðist ekki hafa verið skilað framtali til sérstaks eignarskatts, sbr. ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 112/1978. Ekki er umdeilanlegt að öll eignin X fellur til stofns samkvæmt 1. mgr. 3. gr., sbr. 1. gr. greindra laga. Með vísan til þessa og að öðru leyti til gagna málsins er gerð krafa um að hin kærða álagning verði staðfest.“

Í máli þessu er eigi ágreiningur um það, að fasteign sú sem hér um ræðir, hafi í árslok 1978 alfarið verið nýtt til skrifstofu- og verslunarrekstrar, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 4. gr. laga nr. 112/1978. Myndar fasteignin því stofn til álagningar hins sérstaka skatts eftir fyrrgreindum lögum við fasteignamatsverði húss og lóðar, er eigendum skal gert að greiða, sbr. 1. gr. laganna. Undanþágu frá skattskyldu er eigi að finna í lögum þessum utan þá, er greinir í 2. mgr. 4. gr. laganna, er ekki á við í tilviki kæranda. Kærandi hefur gert grein fyrir skerðingu eignarréttarlegra heimilda sinna að húseign þeirri, er hér um ræðir og takmörkun á hagnýtingu lóðar af þeim sökum, en hömlur þessar eiga rætur að rekja til friðunaraðgerða borgaryfirvalda í Reykjavík. Þá liggur fyrir að lóðarverð er meginhluti af heildarfasteignamatsverði húss og lóðar. í gögnum málsins kemur eigi fram, hvort við ákvörðun fasteignamatsverðs eignar þessarar hafi verið tekið tillit til þeirra atvika, er að framan er lýst, sbr. einkum ákvæði 17. gr. laga nr. 94/1976, um skráningu og mat fasteigna og 8. gr. reglugerðar nr. 406/1978, um fasteignaskráningu og fasteignamat, sbr. einkum 3. tl. greinarinnar. Að svo vöxnu þykir rétt að vísa kærumáli þessu frá að svo stöddu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja