Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 652/1980

Gjaldár 1979

Reglugerð nr. 257/1974, 2. gr.   Reglugerð nr. 245/1963, 25. gr.  

Viðhaldskostnaður — Byggingargalli

Málavextir eru þeir, að skattstjóri lækkaði gjaldfærðan viðhaldskostnað við íbúðarhúsnæði kæranda um 150 000 kr. eða úr 418 878 kr. í 268 878 kr. vegna endurbóta og byggingargalla. Í fylgiskjali með skattframtali kæranda árið 1979 er gerð grein fyrir viðhaldsframkvæmdum þessum. Voru framkvæmdirnar fólgnar í því að ráða bót á leka í þaki hússins. Var kostnaður kæranda einkum fólginn í kaupum á þakjárni, einangrunarefni og þakpappa.

Af hálfu kæranda er þess krafist, að allur gjaldfærður viðhaldskostnaður á framtali verði að fullu tekinn til greina. Kærandi kveður umrædda húseign byggða samkvæmt teikningum frá Húsnæðismálastofnun ríkisins. Komið hafi í ljós, að þakhalli samkvæmt þessum teikningum sé ónógur, þannig að krapaelgur hafi valdið leka. Í framkvæmdirnar hafi verið ráðist til þess að ráða bót á þessum ágalla. Ekki séu efni til að telja að um endurbætur að neinu leyti hafi verið að ræða, enda útliti og byggingarlagi að engu breytt.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 22. október 1980:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur enda telst umræddur kostnaður á framkvæmdum við húseign kæranda hafa verið vegna endurbóta og eignarauka.“

Fyrir liggur í máli þessu, að í umræddar viðhaldsframkvæmdir hafi verið ráðist í því skyni að ráða bót á byggingargalla, er á húsinu hafi verið er kærandi eignaðist það. Viðhaldsfrádráttur, slíkur sem um ræðir í þessu máli, er heimilaður á grundvelli 2. gr. reglugerðar nr. 257/1974, sbr. þau meginsjónarmið, er fram komu í 25. gr. reglugerðar nr. 245/1963. í 1. mgr. þeirrar greinar er frádráttarbært viðhald m. a. skýrt svo: „Viðhald telst það, sem gera þarf til þess að halda eignunum eða einstökum hlutum þeirra í svipuðu ástandi og þær voru í þegar aðili eignaðist þær, hvort heldur þær voru þá gamlar eða nýjar.“ Með tilvísan til framanritaðs þykja eigi vera efni til breytinga á úrskurði skattstjóra og er hann því staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja