Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 408/1992

Gjaldár 1988-1989

Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 5. tl. — 4. gr. 6. tl. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 106. gr. 2. mgr.   Lög nr. 88/1987 — 1. gr. — 2. gr. — 3. gr. — 4. gr. — 5. gr. — 6. gr. — 7. gr.   Lög nr. 100/1988 — 1. gr. — 2. gr. — 3. gr. — 4. gr. — 5. gr. — 7. gr.  

Áætlun — Áætlun skattstofna — Sérstakur eignarskattur — Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði — Skrifstofuhúsnæði — Skrifstofuhald — Fasteign — Notkun húsnæðis — Skrá til sérstaks eignarskatts — Fasteignamat ríkisins — Fasteignamatsverð — Skattskylda — Lögaðili — Félag — Útgáfufélag — Skattskylda félags — Skattfrelsi — Skattfrjáls lögaðili — Lögaðili, skattfrjáls — Atvinnurekstur — Blaðaútgáfa — Stjórnmálastarfsemi — Stjórnmálaflokkur — Sköttunarheimild — Álag — Álag vegna vantalins skattstofns — Frávísun — Vanreifun — Frávísun vegna vanreifunar — Endurákvörðun — Endurákvörðun skattstjóra — HRD 1946:433 — RIS 1983.534 — RIS 1983.435 — Fordæmisgildi stjórnvaldsákvörðunar — Dómur — Fordæmi

I.

Málavextir eru þeir, að skattstjóri hefur í framtalsfresti hvors gjaldárs móttekið undirritaða ársreikninga kæranda rekstraráranna 1987 og 1988 eftir því, sem málsgögn bera með sér. Við frumálagningu opinberra gjalda hvors gjaldárs voru lögð á kæranda launatengd gjöld samkvæmt fyrirliggjandi launaframtölum en engin önnur gjöld. Með bréfi, dags. 4. desember 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að gera svofelldar breytingar á skattframtölum hans 1988 og 1989:

„Leggja á félagið sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, skv. lögum nr. 100/1988.

En yfirlit yfir fasteignir samkv. fasteignamati er félagið skráður eigandi að skrifstofuhúsnæði að X.

Gefst yður því kostur á að skila skrá vegna þessa skatts á meðfylgjandi eyðublöðum.

Beitt mun 25% álagi á skattstofna skv. heimild í 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem ekki var gerð grein fyrir þessum stofni með skattframtali.“

Í svari, dags. 18. desember 1989, andmælti umboðsmaður kæranda boðaðri álagningu með svofelldum hætti:

„Umbj. okkar er útgáfufélag sem gefur út dagblaðið Y og er það eina starfsemin sem félagið hefur með höndum.

Lög um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði hafa ekki að geyma skilgreiningu á því hvað telst vera skrifstofuhúsnæði í skilningi laganna, en umbj. okkar lítur svo á að starfsemi hans sé með þeim hætti að hún falli ekki undir skrifstofuhald í skilningi þessara laga, sbr. úrsk. ríkisskattanefndar nr. 534/1983.“

Með úrskurði, dags. 23. febrúar 1990, tók skattstjóri álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 1988 og 1989 til endurákvörðunar með þeim breytingum, að lagður var á kæranda sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði á grundvelli áætlaðra skattstofna, þ.e. 5.125.000 kr. vegna gjaldársins 1988 og 18.375.000 kr. vegna gjaldársins 1989. Í úrskurði skattstjóra greindi svo um forsendur endurákvörðunar:

„Samkvæmt skrá Fasteignamats ríkisins er húsnæði félagsins að X skráð sem skrifstofuhúsnæði að hluta skv. fasteignaskrá 01.12.1987, og öll eignin skv. fasteignaskrá 01.12.1988. Telja verður að ákvörðun skattstofns nái til hvers konar skrifstofu- og verslunarstarfsemi, og ekki er fallist á það með umboðsmanni félagsins að undanþága sú er fram kemur í tilvitnuðum úrskurði ríkisskattanefndar eigi hér við, þar sem ekki er um sambærilega starfsemi að ræða, og telja verður að a.m.k. stór hluti þeirrar starfsemi sem hér um ræðir megi flokkast undir skrifstofustörf.

Þar sem ekki var gerð nein grein fyrir skattstofni, er beitt 25% álagi skv. ákvæðum 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, á hina áætluðu stofna.“

Umboðsmaður kæranda kærði til skattstjóra endurákvörðun hans með bréfi, dags. 21. mars 1990, og boðaði, að nánari greinargerð yrði send síðar. Með kæruúrskurði, dags. 27. apríl 1990, vísaði skattstjóri kærunni frá sem vanreifaðri, þar sem boðuð greinargerð hefði ekki borist.

II.

Umboðsmaður kæranda hefur með kæru, dags. 24. maí 1990, skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og í framhaldi hennar lagt fram kröfugerð með bréfi, dags. 12. júní 1990. Er álagning hins kærða skatts gjaldárið 1988 kærð til niðurfellingar með svofelldum rökstuðningi:

„Umbj. okkar er útgáfufélag sem gefur út dagblaðið Y og er það eina starfsemi félagsins. Á árinu 1987 var starfsemin til húsa í X í félagi við prentsmiðjuna A.

Hús þetta er 163.5 fermetrar að stærð og fasteignamat þess var í árslok 1987 kr. 3.881.000 og fasteignamat lóðar kr. 220.000. Eina skrifstofuaðstaðan sem útgáfufélagið hafði í þessu húsi var eitt herbergi sem var um 10,5 fermetrar að stærð eða sem svarar til 6.4% af húseigninni, kr. 248.300 af fasteignamati hússins og kr. 8.800 af fasteignamati lóðar að frádregnu afgjaldskvaðarverðmæti. Samtals yrði þá stofn til skatts kr. 257.100 og 1,5% skattur kr. 3.850 sem fellur niður skv. ákvæðum 6. gr. laganna.“

Vegna álagningar hins kærða skatts gjaldárið 1989 er aðalkrafa umboðsmanns, að hinn kærði skattur „ásamt álagi samkvæmt 106. gr. laga nr. 75/1981“ verði felldur niður með svofelldum rökstuðningi:

„Á árinu 1988 var starfsemin flutt í nýtt hús sem stendur við X.

Þetta hús er 3 hæðir. Efsta hæðin er enn ófrágengin og hefur ekki verið tekin í notkun. Á annarri hæðinni er aðsetur blaðamanna og ritstjóra og aðstaða fyrir ljósmyndara ofl. Á neðstu hæðinni er afgreiðsla og móttaka auglýsinga aðstaða fyrir dreifingu og skrifstofur framkvæmdastjóra, auglýsingastjóra og bókhald, sjá nánar á meðf. teiknin (sic).

Það er skoðun umbj. okkar að útgáfustarfsemi teljist ekki verslunar- eða skrifstofustarfsemi í skilningi laga um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og er þar m.a. vísað til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 534/1983.“

Varakrafa umboðsmanns er sett fram með svofelldum hætti:

„Varakrafa hans er sú að ef litið verður svo á að skattskyld starfsemi í skilningi áðurgreindra laga fari fram í húsinu, þá takmarkist skattskyldan við þann hluta hússins þar sem fram fer raunveruleg skrifstofustarfsemi. Sú starfsemi telur hann að takmarkist við skrifstofur framkvæmdastjóra og auglýsingastjóra, skrifstofu fyrir bókhald og launavinnslu og síma sem allt er á neðstu hæð hússins. Ef stærðir þessara herbergja eru lagðar saman og bætt við hluta anddyris og sameiginlegs rýmis er stærð þessa rýmis alls um 85 fermetrar sem er 12,53% af flatarmáli (sic) hússins alls, sem er 678,2 fermetrar. Fasteignamat hússins er kr. 14.260.000 og lóðar að frádregnu afgjaldskvaðarverðmæti, kr. 253.750 eða samtals kr. 14.513.750 og hinn skattskyldi hluti 12.53% kr. 1.818.573, sem yrði þá stofn til álagningar skattsins 1989.“

III.

Með bréfi, dags. 14. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að þeim hluta kærunnar sem varðar skatt vegna ársins 1988 verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn til stuðnings kröfugerð sinni.

Varðandi skatt vegna ársins 1989 telur ríkisskattstjóri að ekki sé hægt að fallast á aðalkröfu kæranda þar sem hluti húsnæðisins er nýttur til skrifstofuhalds, í skilningi 1. gr. laga nr. 100/1988. Að þessu virtu og með vísan til 4. gr. laga nr. 100/1988, telur ríkisskattstjóri rétt að fallast á varakröfu kæranda, þó með þeirri viðbót að krafist er að skatturinn verði reiknaður af allri fyrstu hæð húsnæðis Y.

Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu skattstjóra, með vísan til forsendna hans.“

IV.

Samkvæmt ákvæðum 2. gr. laga nr. 88/1987 og 2. gr. laga nr. 100/1988, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, hvílir skyldan til greiðslu nefnds skatts á aðilum, sem skattskyldir eru samkvæmt ákvæðum I. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og auk þess bönkum, sparisjóðum og innlánsstofnunum. Kærandi er undanþeginn skattskyldu til tekjuskatts og eignarskatts á grundvelli ákvæðis 6. tl. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. t.d. úrskurði ríkisskattanefndar nr. 434 og 435 frá árinu 1983. Að þessu virtu er hin kærða álagning felld niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja