Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 665/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 3. gr. 3. mgr.  

Tekjur eiginkonu/Verksamningur/Sjálfstæð starfsemi

Kærð var sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda, gjaldárið 1978, að lækka tilfærðan frádrátt vegna tekna eiginkonu um kr. 717.356 eða úr kr. 1.032.856 í kr. 315.500.

Reisti skattstjóri ákvörðun sína á því, að meginhluti tekna eiginkonu kæranda væri vegna sjálfstæðrar starfsemi hennar við ræstingu en ekki launatekjur, enda lægi fyrir, að eiginkonan greiddi laun vegna starfsemi þessarar og væri henni gert að greiða launatengd gjöld.

Af hálfu kæranda var á það bent, að kona hans hefði stundað atvinnu þessa í nokkur ár og hefði skattstjóri þar til nú farið með tekjur hennar af þessari starfsemi sem launatekjur og heimilað 50% tekna þessara til frádráttar. Kærandi lýsti störfum og starfssambandi eiginkonunnar svo, að um væri að ræða ræstingastarf í þágu X h/f, er unnið væri að staðaldri, og laun fyrir þetta starf væru þegin á grundvelli launataxta Verkakvennafélagsins Framsóknar, er væri ákveðin fjárhæð á hvern fermetra gólfflatar. Svo hefði um samist milli X h/f og eiginkonu kæranda, að X h/f tæki ekki að sér að greiða launatengd gjöld. Slíkt samningsatriði gæti ekki leitt til þess, að líta bæri á starfið sem sjálfstæða atvinnustarfsemi, enda ætti X h/f að réttu lagi að greiða launaskatt og launatengd gjöld af launum eiginkonunnar. Greidd laun af hendi eiginkonunnar skýrði kærandi þannig, að um væri að ræða launagreiðslur vegna afleysinga og væri hér ekki um annað að ræða en þann algenga hátt, að launþegi greiddi staðgengli af sínum launum. Í samræmi við þetta krafðist kærandi þess, að tilfærður 50% frádráttur af launum eiginkonu yrði látinn óbreyttur standa.

Samkvæmt tilmælum ríkisskattanefndar lagði umboðsmaður kæranda fram samning þann, sem var grundvöllur starfssambandsins. Voru umrædd ræstingastörf nefnd verksala í samningnum. Skyldi verksali leggja sjálfur til vélar, tæki og ræstimeðul öll til verksins. Veikindaforföll, slysatrygging, lífeyrissjóður og annað, sem ekki var fram tekið í samningnum, skyldi samkvæmt ákvæðum hans vera félaginu að kostnaðarlausu. Um þóknun fyrir verkið var svofellt ákvæði í samningnum:

„Þóknun fyrir framangreint verk ákveðst kr. 6.300.oo pr. mánuð, að viðbættu orlofi á launahluta (77,7% eða kr. 4.895.10 pr. mánuð). Verði almenn launahækkun á meðan samningur þessi gildir, skal verksali fá sömu hækkun samkvæmt hækkun kaupgjaldsvísitölu á launahluta.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Af nefndum samningi má sjá, að greiðslur renna eigi alfarið til eiginkonu kæranda sem þóknun fyrir vinnu heldur jafnframt til greiðslu kostnaðar. Þykir því verða að líta svo á, að eigi sé um að ræða tekjur fyrir beina vinnusölu samkvæmt vinnusamningi, heldur tekjur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi. Þar sem eigi er einvörðungu um að ræða sölu á vinnu, en 2. mgr. 3. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 7/1972, telst aðeins taka til seldrar vinnu samkvæmt vinnusamningi, enda um undanþágureglu að tefla, þá er frádrátturinn réttilega ákvarðaður af skattstjóra eftir 3. mgr. áðurnefndrar 3. gr. laganna. Þótt þessi niðurstaða kunni að leiða til mismununar eftir því, hvort konan stundar sjálfstæða atvinnu (starfsemi) eða vinnur sem launþegi í annarra þjónustu, þá telur ríkisskattanefnd eigi heimild til að víkja frá hinni fortakslausu reglu um hámark frádráttarins í 3. mgr. greinarinnar.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja