Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 116/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður  

Frestun á skattlagningu söluhagnaðar - Sönnun

Málavextir voru þeir, að skattstjóri synjaði kæranda um heimild til frestunar á skattlagningu hagnaðar að fjárhæð kr. 6.655.883 af sölu fiskverkunarhúss, er hann átti í smíðum. Skattstjóri áleit, að kærandi hefði byggt húsið í því augnamiði að selja það og bæri því að telja mismun á söluverði og kostnaðarverði tekjur af atvinnurekstri. Kærandi mótmælti þessari málsmeðferð skattstjóra og krafðist þess, að skattlagningu söluhagnaðarins yrði frestað, þar sem hann hefði áform um að byggja annað atvinnurekstrarhúsnæði.

Ríkisskattstjóri krafðist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með svofelldum rökum:

„Eins og mál þetta liggur fyrir verður ekki annað séð en að sala byggingar þeirrar sem hinn skattlagði hagnaður stafar af falli undir upphafsákvæði 9. mgr. E-liðar 1. mgr. 7. gr. skattalaganna sem er til fyllingar upphafsákvæðum þeirrar greinar og í þessu tilviki skal vísað til fordæma í úrskurðum ríkisskattanefndar nr. 796 og 797 frá árinu 1978.“

Ríkisskattanefnd taldi ósannað í málinu, að sala á fiskverkunarstöð þeirri, er málið snérist um, félli undir atvinnurekstur kæranda. Tók ríkisskattanefnd því kröfu hans um frestun á skattlagningu söluágóðans til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja