Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 422/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl.   Lög nr. 90/1990 — 35. gr. 1. mgr.  

Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstofn — Aðstöðugjaldsgreinargerð — Rekstrarkostnaður — Auglýsingastofa — Auglýsingar — Auglýsingar, greiðsluháttur fyrir birtingu — Tvísköttun

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1991. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1991 sætti kærandi því áætlun skattstofna. Skattstjóra hafði borist skattframtal kæranda árið 1991 hinn 12. júlí 1991 samkvæmt áritun hans á það um móttöku þess. Framtalinu fylgdi m.a. greinargerð um aðstöðugjaldsstofn, þar sem stofn þessi var talinn 27.619.338 kr. Skattstjóri tók skattframtalið sem kæru, sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og kvað upp kæruúrskurð hinn 2. desember 1991, þar sem hann féllst á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1991 með svofelldri breytingu varðandi aðstöðugjaldsstofn:

„Leiðrétting hefur verið gerð á ranglega útfylltri greinargerð um aðstöðugjald. Til tekna á aðstöðugjaldsgreinargerð færast kr. 24.964.271, þ.e.v. auglýsingabirtinga og sem gjöld á greinargerðina færist sama fjárhæð v. greiðslu f. auglýsingabirtingar. Samkvæmt 35. gr. laga nr. 90/1990 um tekjustofna sveitarfélaga skal aðstöðugjaldsstofn vera sá rekstrarkostnaður sem um ræðir í 1. tl. 31. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Kostnaður v. auglýsingabirtinga fellur undir framangreinda skilgreiningu og ber því að telja með í aðstöðugjaldsstofni. Í tilfelli kæranda reiknast aðstöðugjald þó af tekjum þ. s. tekjur eru hærri en gjöld.“

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 27. desember 1991, og er þess krafist, að breytingu þeirri verði hnekkt, sem skattstjóri gerði á aðstöðugjaldsstofni. Segir svo í kærunni:

„Í úrskurði skattstjóra segir að leiðrétting hafi verið gerð á ranglega útfylltri greinargerð um aðstöðugjaldsstofn þar sem auglýsingabirtingar að fjárhæð kr. 24.964.271 hafi verið færðar til hækkunar tekna og gjalda á greinargerðinni. Rök skattstjóra fyrir þessari breytingu eru þau, að kostnaður vegna auglýsingabirtinga sé rekstrarkostnaður skv. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 og því beri að telja hann með í aðstöðugjaldsstofni. Þessu vil ég leyfa mér að mótmæla.

Greiðslur auglýsingastofa fyrir auglýsingabirtingar viðskiptavina sinna getur vart talist rekstrarkostnaður auglýsingastofunnar. Auglýsendur láta auglýsingabirtingar sínar fara í gegnum auglýsingastofur á því skyni að njóta allt að 30% magnafsláttar, sem auglýsingastofum er veittur fyrir mikil viðskipti við auglýsingamiðla. Þegar reikningur berst frá auglýsingamiðli fyrir birtingu er skrifaður út reikningur á auglýsandann fyrir sömu fjárhæð að viðbættri 15% dreifingarþóknun ásamt virðisaukaskatti. Heildarreikningur auglýsingastofunnar myndar þannig aðstöðugjaldsstofn hjá auglýsandanum, því sannarlega er auglýsingabirtingin rekstrarkostnaður hans, en tekjuskráningin skiptist á auglýsingamiðilinn annars vegar og auglýsingastofuna hins vegar. Ekki má líta á auglýsingabirtingar viðskiptavina sem rekstrarkostnað auglýsingastofunnar, því slíkt er eðli þeirra alls ekki. Þessi þáttur í starfsemi auglýsingastofa felur einungis í sér tekjuöflun í formi dreifingarþóknunar gegn magnafslætti, sem auglýsandinn nýtur í staðinn.

Fram til þessa hafa skattyfirvöld viðurkennt að auglýsingabirtingar myndi ekki stofn til aðstöðugjalds hjá auglýsingastofum, og þeirri túlkun til staðfestingar hefur verið bent á farseðlaútgáfu ferðaskrifstofa. Ljóst er að úrskurður skattstjórans í Reykjavík kollvarpar fyrri túlkun og leiðir óhjákvæmilega til tvísköttunar að því er varðar álagningu aðstöðugjalds, þ.e. reikningur vegna einnar auglýsingabirtingar myndar aðstöðugjaldsstofn hjá tveimur aðilum.

Samkvæmt framangreindu vil ég leyfa mér að kæra áðurnefndan úrskurð skattstjórans í Reykjavík. Vil ég óska eftir að aðstöðugjaldsstofn umbjóðanda míns gjaldárið 1991 verði lækkaður um kr. 24.964.271 á þeirri forsendu, að auglýsingabirtingar viðskiptavina umbjóðanda míns teljist ekki rekstrarkostnaður hjá honum skv. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, heldur sé þar um að ræða rekstrarkostnað auglýsendanna sjálfra.“

Með bréfi, dags. 20. mars 1992, fellst ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjenda á kröfu kæranda í máli þessu.

Að því virtu, sem fram kemur í kæru til ríkisskattanefndar, og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra í málinu er krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja