Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 403/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður  

Söluhagnaður, frestun/Eignasala - Atvinnurekstur

Í málinu reyndi á, hvort ákvæði 11. mgr. E-liðs 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, um heimild til frestunar á skattlagningu skattskylds hluta söluhagnaðar, gætu átt við eins og á stóð.

Málavextir voru þeir að kærandi, sem var hlutafélag, taldi ekki fram til skatts á réttum tíma viðkomandi gjaldár. Með kæru til ríkisskattanefndar barst skattframtal hans og þess farið á leit, að það yrði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra.

Af hálfu ríkisskattstjóra var á það fallist, að innsent framtal yrði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra með þeirri breytingu, að hagnaður af sölu húsa og húshluta yrði allur skattlagður, þ.e.a.s. synjað yrði um frestun á skattlagningu hagnaðarins á grundvelli 11. mgr. E-liðs 1. mgr. 7. gr. skattalaga. Rök ríkisskattstjóra voru þau, að ekki yrði annað ráðið af gögnum málsins, en eignasala kæranda væri í atvinnuskyni gerð og félli undir atvinnurekstur hans sem slík. Ályktun þessa mætti draga af þeim ársreikningum kæranda, er fyrir lægju í málinu, að því leyti, sem þeir snertu byggingastarfsemi. Þá var til þess vísað, að skv. upplýsingum hlutafélagaskrár væri tilgangur kæranda skv. samþykktum hans að „kaupa, byggja og selja fasteignir. Verslun, lánastarfsemi og annar skyldur atvinnurekstur“. Af þessum ástæðum yrði að líta svo á, að frestunarákvæði 7. gr. skattalaga ættu ekki við eins og á stæði. Jafnframt því að krefjast tekjufærslu söluhagnaðar krafðist ríkisskattstjóri einnig að aðstöðugjald yrði lagt á kostnaðarverð bygginganna svo og iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjald.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo m.a.:

„Samkvæmt framtalsgögnum kæranda 1978 kemur fram, að kærandi seldi iðnaðarhúsnæði við X-götu í Reykjavík, þann 2. maí 1977 og var söluverð kr. 9.472.000. Kostnaðarverð að viðbættum gatnagerðargjöldum var tilgreint kr. 8.694.305. Kærandi skráði frestun skattlagningar skattskylds söluhagnaðar að fjárhæð kr. 777.695 skv. 11. mgr. E-liðs 1. mgr. 7. gr. skattalaga. Þá seldi kærandi þann 4. október 1977 jarðhæð iðnaðarhúsnæðis við Y-götu í Kópavogi, en framkvæmdir við byggingu þess húss hófust árið 1976. Eignarhlutdeild kæranda er 50%. Söluverð eignarinnar var kr. 11.700.000, en kostnaðarverð kr. 4.780.058. Hluti kæranda í söluhagnaði nam því kr. 3.459.971. Af fjárhæð söluhagnaðar færði kærandi til tekna kr. 800.000, en skráði frestun á óráðstöfuðum hluta söluhagnaðar að frádregnu tapi vegna sölu bifreiðar kr. 258.750, eða samtals kr. 2.401.221 á grundvelli 11. mgr. E-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971. Innsent framtal er lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra, þó að gerðri þeirri breytingu með skírskotun til fyrirliggjandi upplýsinga um starfsemi kæranda og tilgangs svo sem hann er greindur í samþykktum kæranda, að telja ber til tekna að fullu á söluári skattskyldan hagnað af sölu húseigna, sbr. 9. mgr. E-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971 með því að eigi verður lítið svo á, að heimildarákvæði 11. mgr. E-liðar 1. mgr. 7. gr. sömu laga eigi hér við, enda hafi eigi komið fram af hendi kæranda svör eða skýringar, er leitt geti til annarrar niðurstöðu. Þá þykir bera í samræmi við ofangreinda niðurstöðu að taka til greina kröfu ríkisskattstjóra um álagningu aðstöðugjalds, iðnlánasjóðsgjalds og iðnaðarmálagjalds á kostnaðarverð umræddra húseigna. Samkvæmt 7. mgr. 47. gr. laga nr. 68/1971 ber að beita 25% viðurlögum á gjaldstofna.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja