Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 605/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður  

Skattskyldur söluágóði - Frestun skattlagningar söluágóða

Málavextir voru þeir, að skattstjóri hækkaði tekjur kæranda á skattframtali 1978 um kr. 5.114.414, er var söluágóði íbúðarhúss, er kærandi seldi á árinu 1977.

Kærandi fór fram á, að skattlagningu þessa söluhagnaðar yrði frestað með hliðsjón af því, að hann hefði í hyggju að afla sér eigna, sem heimilt væri að fyrna á móti söluhagnaðinum, sbr. heimild í E-lið 7. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu ríkisskattstjóra voru gerðar svofelldar kröfur í málinu:

„Með vísan til fyrirliggjandi upplýsinga, svo og úrskurða ríkisskattanefndar í sambærilegum málum, er fallist á að kæranda sé heimilt að fresta skattlagningu skattskylds hluta söluhagnaðarins skv. reglum þeim sem settar eru í tilvitnaðri 11. mgr. E-liðar 1. mgr. 7. gr. skattalaganna.“

Ríkisskattanefnd tók kröfu kæranda til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja