Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 380/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 10. gr. H-liður  

Alþjóðastofnun - Skattfrelsi tekna - Lögheimili

Málavextir voru þeir, að skattstjóri hækkaði tekjur kæranda um kr. 500.000 að viðbættum 25% viðurlögum kr. 125.000 með því að fyrirspurnarbréfi skattstjóra um tekjur kæranda erlendis hefði ekki verið svarað. Taldi skattstjóri, að kæranda hefði borið að telja fram allar tekjur sínar á framtali gjaldárið 1978 án tillits til hvaðan þeirra væri aflað, þar sem kærandi hefði átt lögheimili hérlendis á umræddum tíma.

Af hálfu kæranda var þess krafist, að teknaviðbót skattstjóra ásamt viðurlögum yrði niður felld, þar sem tekjur kæranda erlendis væru ekki skattskyldar á Íslandi. Hefði kærandi unnið 8 mánuði á árinu 1977 við störf í Kenya á vegum Norræna samvinnuverkefnisins (The Nordic Cooperative Project) og væru launatekjur, sem aflað væri á vegum þeirrar stofnunar, ekki skattskyldar skv. sérstöku samkomulagi milli ríkisstjórna Norðurlandanna. Hefði það verið viðtekin venja, að starfsmenn í þjónustu íslenska ríkisins erlendis eða í þjónustu tiltekinna alþjóðlegra stofnana, hefðu ekki tíundað tekjur sínar á framtali til íslenskra skattyfirvalda, þótt lögheimili þeirra væri hér á landi.

Fyrir lá í málinu vottorð Aðstoðar Íslands við þróunar-löndin, dags. 28. sept. 1978, um að kærandi hefði starfað í Kenya á vegum Norræna samvinnuverkefnisins frá 1. maí 1977 - 31. ágúst 1978.

Af hálfu ríkisskattstjóra voru gerðar svofelldar kröfur og athugasemdir:

„Með vísan til bréfs Hagstofu íslands, dags. 26. mars 1979, þar sem fram kemur að kærandi flutti lögheimili héðan af landi 1. maí 1977 er fallist á að um skattákvörðun á kæranda verði farið eftir lögum nr. 22/1956 hvað varðar þær tekjur sem hann hafði hér á landi frá 1. janúar 1977 fram til 1. maí 1977 og frádrætti þeim tengdum, en eftir ákvæðum 2. gr. laga nr. 68/1971 um tekjur frá 1. maí til 31. des. 1977 og frádrætti þeim tengdum og eign í árslok 1977.“

Ríkisskattanefnd komst að svofelldri niðurstöðu í málinu:

„Með vísan til 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/1960, um lögheimili, sbr. 1. gr. laga nr. 42/1966, um breyting á þeim lögum, þykir eigi verða á því byggt, að kærandi hafi brugðið lögheimili sínu á Íslandi vegna dvalar sinnar í Kenya við umrædd störf.

Kærandi starfaði í Kenya á grundvelli samkomulags milli ríkisstjórna Norðurlanda og ríkisstjórnar Kenya um aðstoð á sviði samvinnumála frá 20. mars 1972 og 15. júlí 1977, sbr. auglýsingar nr. 21, 15. október 1976 og nr. 14, 8. ágúst 1977 um umrædd samkomulög og aðild Íslands að þeim, er birtar eru í C-deild Stjórnartíðinda. Samkomulög þessi eru birt sem fylgiskjöl með auglýsingunum. Starfsemi þá, sem grundvölluð er á ofangreindum milliríkjasamningum, sem Ísland hefur með formlegum hætti gerst aðili að, þykir mega telja til alþjóðastofnunar í skilningi H-liðar 10. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Með því að skilyrði þessa stafliðar eru að öðru leyti uppfyllt eftir gögnum málsins í tilviki því, sem hér um ræðir, þykir bera að taka kröfu kæranda um niðurfellingu teknaviðbótar að fjárhæð kr. 500.000 og viðurlaga að fjárhæð kr. 125.000 til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja