Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 404/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 11. gr. A-liður  

Tryggingakostnaður

Málavextir voru þeir, að skattstjóri lækkaði gjaldfærðan tryggingakostnað (verkfræðingatryggingu) á rekstrarreikningi um kr. 38.574 eða úr kr. 74.000 í kr. 35.426. Þann hluta kostnaðarins, er taldist vera þóknun vegna innheimtu iðgjalda og nam kr. 2.849 mat skattstjóri ófrádráttarbært og felldi niður. Þann hluta kostnaðarins, er taldist vera iðgjald vegna hóplíftryggingar og nam kr. 35.725 viðurkenndi skattstjóri ekki sem rekstrarkostnað, en færði til frádráttar í frádráttarhlið skattframtals. Hér var um að ræða tryggingarkostnað kæranda sjálfs, er rak sjálfstæðan „praxis“.

Kærandi krafðist þess, að gjaldfærð „verkfræðingatrygging“ yrði að fullu viðurkennd sem rekstrarkostnaður, enda hefði tryggingin verið keypt til þess að tryggja kæranda gagnvart slysum, veikindum og örorku og væri trygging þessi eina tryggingin, sem unnt væri að kaupa í þessum tilgangi. Væri kærandi með líftryggingu fyrir. Ekki væri unnt að líta öðru vísi á tryggingu þessa en rekstrarkostnað, enda ekki eðlismunur á henni og öðrum tryggingum, sem fyrirtæki kaupi vegna starfsfólks, hvort heldur þær eru frjálsar, samningsbundnar eða lögbundnar.

Ríkisskattanefnd taldi bera að staðfesta úrskurð skattstjóra með vísun til 3. málsl. A-liðar 11. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, þó með þeirri breytingu, að fallist var á, að nefndur innheimtukostnaður kr. 2.849 vegna umræddra trygginga kæmi til frádráttar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja