Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1255/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 11. gr. B-liður  

Rekstrartöp, frádráttarbærni - Yfirfæranleiki - Sjálfstæður skattaðili.

Málavextir voru þeir, að skattstjóri færði kæranda til tekna gjaldárið 1978 vanframtalda greiðslu frá Aflatryggingasjóði kr. 1.910.635 svo og 20% viðurlög kr. 382.127. Kærandi gerði út fiskiskip í félagi Við annan mann. Var eignarhlutdeild jöfn og skiptust tekjur samkvæmt því. Við breytingu skattstjóra varð hagnaður af rekstri að fjárhæð kr. 1.933.222 í stað taps áður að fjárhæð kr. 259.540. Kæranda voru samkvæmt þessu færðar til tekna sem hreinar tekjur af þessum atvinnurekstri kr. 966.611 í stað áður tilfærðs taps til frádráttar að fjárhæð kr. 179.770.

Af hálfu kæranda var þess krafist, að heimilað yrði að viðbótartekjum þeim, er að framan greinir, yrði mætt með rekstrartapi fyrri ára. Tap þetta væri kr. 4.556.057 rekstrarárið 1973, kr. 1.384,902 rekstrarárið 1974, kr. 3.264.154 rekstrarárið 1975 og kr. 329.032 rekstrarárið 1976 eða samtals kr. 9.534.145.

Í úrskurði ríkisskattanefndar er tekið fram, að fyrir því rekstrartapi, sem að ofan greinir, rekstrarárin 1973-1975 að báðum árum meðtöldum, hafi verið gerð grein á skattframtölum tilgreinds sameignarfélags 1974-1976. Félag þetta hafi verið sameignarfélag kæranda og sameiganda hans um útgerð skipsins. Hafi félagið verið sjálfstæður skattaðili fram til 1. júní 1976, er tilkynnt hafi verið til viðkomandi firmaskrár, að félagið væri ekki lengur sjálfstæður skattaðili. Þá er tekið fram, að helmingur taps rekstrarárið 1976 kr. 164.516 hafi verið færður til frádráttar á skattframtali kæranda árið 1977. Þá segir svo í úrskurðinum: „Að virtum gögnum máls þessa og með vísan til B-liðar 11. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir mega fallast á, að kæranda beri réttur til að draga eftirstöðvar rekstrartapa fyrri ára kr. 3.099.438 frá skattskyldum tekjum sínum gjaldárið 1978.“ Var fjárhæð frádráttarbærs taps fyrri ára þannig fundin, að frá helmingi heildartaps að frádregnu tapi rekstrarárið 1976, en fjárhæð þessi nam kr. 4.602.556, voru dregnar nettótekjur kæranda samkvæmt skattframtali árið 1977 kr. 1.503.118.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja