Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 336/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 37. gr.  

Skattframtal tortryggilegt - Vefenging skattframtals - Meðalálagning

Málavextir voru þeir, að skattstjóri vefengdi skattframtal kæranda árið 1978 og taldi, að meðalálagning í söluskála, er kærandi rak ásamt annarri starfsemi, fengi ekki staðist. Meðalálagning samkvæmt reikningum nam 14,27%. Með því að fullnægjandi svar barst ekki að mati skattstjóra vék hann skattframtalinu til hliðar og áætlaði tekjur og eign gjaldárið 1978.

Í kæru til ríkisskattanefndar var áætlun skattstjóra mótmælt sem of hárri. Kærandi krafðist þess, að teknaáætlun skattstjóra yrði lækkuð um kr. 1.958.822 eða úr kr. 3.449.063 í kr. 1.490.241. Kæru sína byggði kærandi á þeirri skiptingu milli álagningarflokka, sem væri á vörusölu söluskálans og fram kæmi í kæru hans.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Miðað við gefnar upplýsingar um skiptingu vörumagns í álagningarflokka er ljóst að sú meðalálagning, sem fram kemur í reikningum félagsins, fær ekki staðist án sérstakra skýringa.

Kærandi hefur ekki gert grein fyrir þessu verulega fráviki né að öðru leyti skýrt rekstrarútkomu söluskálans. Framtal kæranda er því ekki nægilega traust til þess að það verði lagt til grundvallar álagningu gjaldárið 1978.

Með tilliti til kröfugerðar kæranda og annarra gagna málsins þykir þó mega lækka teknaáætlun skattstjóra um kr. 1.900.000.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja