Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 328/1979

Gjaldár 1972, 1973, 1974

Lög nr. 68/1971, 40. gr., 41. gr. 1. mgr., 42. gr. 4. mgr.  

Kærufrestur - Kæruúrskurður - Viðtakandi úrskurðar

Málavextir voru þeir, að ríkisskattstjóri tók álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 1972, 1973 og 1974 til endurákvörðunar að undangenginni rannsókn rannsóknardeildar ríkisskattstjóra á bókhaldi og skattframtölum kæranda. Kærandi kærði endurákvörðunina til ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri tók kæruna til úrskurðar þann 19. október 1976 og ákvað, að álögð gjöld skyldu óbreytt standa.

Með kæru, dags. 25. nóvember 1976, til ríkisskattanefndar, er barst skrifstofu nefndarinnar degi síðar, var þess krafist, að úrskurði ríkisskattstjóra yrði hrundið og að byggt yrði á framtölum kæranda með því að ekkert hefði komið fram, er tilefni gæti gefið til þess að bera brigður á þau.

Af hálfu ríkisskattstjóra var gerð krafa um frávísun kærunnar, þar sem hún væri of seint fram komin.

Málavextir, er lutu að frávísunarþætti málsins voru sem hér segir:

Úrskurður ríkisskattstjóra, dagsettur 19. október 1976, var sendur umboðsmanni kæranda í ábyrgðarbréfi. Þegar þess bréfs var eigi vitjað var kæranda sjálfum sendur umræddur úrskurður þann 18. nóvember 1976 í ábyrgðarbréfi. Vitjaði kærandi þess bréfs þann 19. nóvember 1976.

Umboðsmaður kæranda kvaðst eigi hafa fengið tilkynningu um umrætt bréf, en hann gerði sér að reglu að sækja þau ábyrgðarbréf, er til hans væru send, eftir tilkynningum. Hefði hann fyrst fengið vitneskju um umrætt bréf hjá kæranda og hefði því þá strax verið svarað. Fór umboðsmaður kæranda þess á leit, að það yrði ekki látið valda missi kæruréttar kæranda, að tilkynning um ábyrgðarbréf hefði ekki borist honum sem umboðsmanni kæranda.

Ríkisskattanefnd komst að svofelldri niðurstöðu varðandi frávísunarþátt málsins:

„Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt er kærufrestur til ríkisskattanefndar 21 dagur frá uppkvaðningu úrskurðar skattstjóra. Hinn kærði úrskurður, sem er dagsettur þann 19. október 1976, var sendur umboðsmanni kæranda, en eigi kæranda sjálfum, fyrr en þann 18. nóvember 1976. Kæran barst ríkisskattanefnd þann 26. nóvember 1976. Með skírskotun til 3. málsl. 1. málsgr. 40. gr. laga nr. 68/1971, sem telja verður að taki til álagningar samkvæmt 4. mgr. 42. gr. s.l., þykir bera að taka kröfu kæranda til greina. Fram kominni frávísunarkröfu er hrundið og málið tekið til efnisúrlausnar fyrir ríkisskattanefnd.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja