Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 400/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 41. gr.  

Kærufrestur - Viðurlög - Óviðráðanleg atvik

Málavextir voru þeir, að kæru til ríkisskattanefndar fylgdi skattframtal kæranda fyrir árið 1978 með kröfu um, að skattframtalið yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda í stað áætlunar. Umboðsmaður kæranda tók fram, að dráttur sá, er orðið hefði á skilum skattframtals, hefði stafað af sjúkleika kæranda, er hefði verið að heiman langtímum saman vegna veikinda.

Ríkisskattstjóri krafðist þess að kærunni yrði vísað frá, þar sem hún virtist of seint fram komin.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Með hliðsjón af þeim upplýsingum, sem fyrir liggja má ætla, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað kæranda að skila framtali sínu á réttum tíma og dráttur á kæru til ríkisskattanefndar sé af sama toga.

Með tilvísan til ofanritaðs þykir mega fella efnisúrskurð í máli þessu. Krafa umboðsmanns kæranda er tekin til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja