Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 603/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 8/1972, 36. gr., 37. gr.  

Aðstöðugjald - Umsýslusala

Deila reis um aðstöðugjald smásöluverslunar með matvörur og var ágreiningsefnið til komið vegna mjólkursölu verslunarinnar.

Málavextir voru þeir, að skattstjóri gerði kæranda að greiða aðstöðugjald að fjárhæð kr. 794.900 gjaldárið 1978. Ákvað skattstjóri stofn til álagningar gjaldsins kr. 158.988.025, en gjaldstigi var 0,5%.

Í skýringum með ársreikningi kæranda fyrir árið 1977 hafði innkaupsverð mjólkurvara að fjárhæð kr. 27.484.939 verið dregið frá heildarútgjöldum ársins Við ákvörðun álagningarstofns aðstöðugjalds af hálfu kæranda. Var og krafa kæranda sú, að innkaupsverð mjólkurvara yrði þannig dregið frá aðstöðugjaldsstofni og álagt aðstöðugjald lækkað hlutfallslega á þeim forsendum, að vörur þessar væru seldar á umboðssölugrundvelli gegn sölulaunum úr hendi Mjólkursamsölunnar í Reykjavík.

Í kæru til skattstjóra var af hálfu kæranda byggt á þeirri málsástæðu, að ekki hefði verið lagt aðstöðugjald á innkaupsverð mjólkurvara hjá útsölubúðum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík. Ekki féllst skattstjóri á, að undanþáguákvæði það, er greinir í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga, og undanskilur mjólkurbú álagningu aðstöðugjalds, tæki til kæranda.

Af hálfu ríkisskattstjóra var krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með því að telja yrði af skýringum fengnum frá Mjólkursamsölunni að kærandi hefði mjólkurvörur ekki í umboðssölu og ekki væri unnt að líta svo á, að sala mjólkurvara í smásöluverslun væri þáttur í rekstri mjólkurbús.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Á það sjónarmið skattstjóra er fallist, að undanþáguákvæði 2. mgr. 36. gr. laga nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga, taki ekki til kæranda að því er snertir verslun hans með vörur þær, er hér um ræðir. Á það ber einkum að líta í máli þessu, að Mjólkursamsalan skuldar kæranda fyrir smásöluverði mjólkurvaranna, en reiknar honum síðan til tekna umsamda söluþóknun. Einnig fylgir skilaheimild að því er tekur til umræddra vara eftir vissum reglum, á viðskiptin er litið sem umboðsviðskipti af hálfu Samsölunnar og er það staðfest af hennar hálfu. Þegar þetta er virt þykir fremur eiga að líta á kæranda sem umsýsluaðila í þessu sambandi en sjálfstæðan kaupmann. Af því leiðir að taka ber kröfu hans til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja