Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 135/1979

Gjaldár 1977

Söluskattur 1977

Lög nr. 10/1960, 7. gr. 1. mgr. 1. tl.  

Söluskattur

Kærð var sú ákvörðun skattstjóra að gera kæranda að greiða sölugjald af tekjum af túnþökuskurði kr. 118.854 svo og viðurlög kr. 31.496 eða samtals kr. 150.350. Samkvæmt rekstrarreikningi fyrir árið 1977 voru tekjur kæranda af umræddri starfsemi kr. 713.155 og voru þær tekjur lagðar til grundvallar sem stofn sölugjaldsins.

Af hálfu kæranda var krafist niðurfellingar álagðs sölugjalds og viðurlaga á þeim forsendum, að umrædd starfsemi væri ekki sölugjaldsskyld, þar sem um væri að ræða lagfæringu lóða, er félli undir undanþáguákvæði 1. tl. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt. Ennfremur að vinna sú, er hér um ræddi, væri að langmestu leyti unnin með handafli einu saman og eina vélavinnan fælist í torfristu, og væri torfristukostnaðurinn innan við 5% af heildarkostnaði.

Af hálfu ríkisskattstjóra voru gerðar svofelldar kröfur og athugasemdir:

„Krafist er að staðfest verði ákvörðun skattstjóra um að standa beri skil á sölugjaldi af seldum túnþökum, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 1. gr. laga nr. 10/1960 með síðari breytingum.

Áætla verður þann gjaldstofn þar sem ekki liggur fyrir sundurliðun á umræddri sölu í ársreikningum eða með skýringum kæranda, sbr. 7. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1960 með síðari breytingum og 8. gr. sömu laga.

Fallist er á að vinna við niðurlagningu á þökum og lagningu gangstétta verði felld undan söluskattsálagningu með heimild í 1. tl. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 10/1960 með síðari breytingum.“

Ríkisskattanefnd komst að svofelldri niðurstöðu:

„Fallist er á, að undanþága 1. tl. 1. mgr. 7. gr. 1. nr. 10/1960 um söluskatt taki til tilviks þess, er í málinu greinir. Er krafa kæranda tekin til greina.

Álagður söluskattur 1977 kr. 118.854 og viðurlög kr. 31.496 alls kr. 150.350 falli niður.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja