Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1392/1979

Gjaldár 1976

Lög nr. 10/1960  

Söluskattur - Steypusala

Málavextir voru þeir, að ríkisskattstjóri krafði kæranda skýringa á misræmi milli heildarveltu skv. rekstrarreikningi fyrir árið 1976 og heildarveltu skv. innsendum söluskattsskýrslum. Nam heildarvelta skv. rekstrarreikningi kr. 10.549.843 en skv. söluskattsskýrslum kr. 1.022.987 og mismunur var kr. 9.526.856. í svari sínu taldi kærandi frádrátt nema alls kr. 8.469.928, sem var annars vegar vörur og þjónusta keypt með söluskatti kr. 1.634.003 og hins vegar sala söluskattsfrjálsrar vöru og þjónustu að fjárhæð kr. 6.835.925. Að mati kæranda var söluskattsskyld velta því kr. 2.079.915. Vörur og þjónustu keypt með söluskatti sundurgreindi kærandi svo: Keypt vélavinna (mokstur í síló) kr. 422.349, steypubifreið með manni tekin á leigu kr. 255.530 og sement kr. 956.124. Til frádráttar sem söluskattsfrjálsar vörur og þjónusta taldi kærandi að ætti að koma: Malarakstursþáttur í steypusölu kr. 1.288.674, seld vinna á byggingarstað kr. 3.467.337 og 50% af tekjum steypubifreiðar (akstursþáttur) kr. 2.079.914.

Í úrskurði sínum féllst ríkisskattstjóri á skýringar kæranda varðandi selda vinnu á byggingarstað. Ríkisskattstjóri mat frádrátt frá söluskattsskyldri veltu vegna aksturs á steypu 30%. Taldi ríkisskattstjóri söluskattsskylda veltu skv. þessu nema kr. 4.957.754. Með því að búið væri að gera kæranda að greiða sölugjald að fjárhæð kr. 266.900 af söluskattsskyldri veltu að fjárhæð kr. 1.601.467 var vantalin velta ákveðin kr. 3.356.287 og viðbótarsölugjald kr. 559.358 og viðurlög reiknuð frá miðju ári 1976 til 16. apríl 1979 kr. 412.527.

Kröfur kæranda fyrir ríkisskattanefnd voru þessar: Keypt sement bæri að draga frá söluskattsskyldri veltu, enda hefði það verið keypt með söluskatti svo sem einingarverð og fram lögð staðfesting seljanda sýndi. Aðkeypta vélavinnu með söluskatti vegna moksturs í síló bæri að draga frá. Malarakstursþáttur yrði frádreginn og í því sambandi bent á, að flutningur þessi væri verulegur hluti í heildarkostnaði hinnar útseldu þjónustu vegna langrar flutningsleiðar. Akstursþáttur steypubifreiðar yrði metinn 50% með vísan til staðhátta.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Kærandi þykir hafa fært sönnur á, að sölugjald hafi verið greitt af því sementi, er hann notaði. Er því á þá kröfu hans fallist, að kr. 956.126 komi til frádráttar þeirri sölugjaldsskyldu veltu, er ríkisskattstjóri ákvarðaði. Að öðru leyti þykja gögn málsins eigi gefa tilefni til breytinga á úrskurði ríkisskattstjóra. Vantalin sölugjaldsskyld velta verður kr. 2.400.161. Hækkun sölugjalds verður kr. 400.011 og viðurlög kr. 295.008.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja