Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1138/1978

Gjaldár 1977

Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður  

Söluhagnaður íbúðarhúsnæðis/sönnun

Málavextir voru þeir, að kærandi lét af hendi íbúð við X-götu í Reykjavík sem hluta af andvirði þriggja samliggjandi fasteigna við Y-götu í Reykjavík. Eignir þessar keypti kærandi í félagi með öðrum manni. Andvirði eignanna var innt af hendi með íbúðinni við X-götu auk annarrar tilgreindrar eignar í Reykjavík og mismun á yfirtöku skulda, er á eignunum hvíldu. Íbúðina við X-götu hafði kærandi eignast við makaskipti og var eignarhaldstími skemmri en þrjú ár. Skattstjóri taldi, að þær upplýsingar, sem kærandi lét í té varðandi þessi eignaskipti væru ekki fullnægjandi og áætlaði skattskyldan hagnað af sölu íbúðarinnar við X-götu kr. 1.000.000,-.

Kærandi krafðist þess, að teknaáætlun skattstjóra yrði felld niður. Taldi kærandi, að íbúðarhúsnæði það, sem hann lét af hendi, væri minna en íbúðarhúsnæði það, er hann fékk í staðinn og væri því ekki um skattskyldan söluágóða að ræða. Kærandi upplýsti með gögnum frá byggingarfulltrúa í Reykjavík, að hinar keyptu eignir hefðu upphaflega að verulegu leyti verið byggðar sem íbúðarhúsnæði og væru að hluta enn nýttar sem slíkar. Þá kvað kærandi fyrirhugað að lagfæra eignirnar og taka þær til íbúðar frekar en verið hefði.

Af hálfu ríkisskattstjóra var krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Í skrá Fasteignamats ríkisins eru fasteignirnar nr. 16 og 18 við Y-götu flokkaðar sem iðnaðarhúsnæði, verslunarhúsnæði og íbúðarhúsnæði. Að virtum þeim málavöxtum, sem að framan eru raktir, þykir tekjuáætlun skattstjóra eigi nægum rökum studd og krafa kæranda því tekin til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja