Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 522/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. — 41. gr. — 96. gr. 1. og 3. mgr.   Lög nr. 19/1989 — 1. gr.  

Eignarleiga — Kaupleiga — Kaupleigugreiðslur — Eignarleigugreiðslur — Rekstrarkostnaður — Kaupréttur samkvæmt kaupleigusamningi — Kaupverð samkvæmt kaupleigusamningi — Áætlun — Áætlun tekjuviðbótar — Tekjuviðbót áætluð — Fyrnanleg eign — Fyrnanlegt lausafé — Gjaldfærsla kostnaðarverðs eigna og eignasamstæðna á kaupári án tillits til endingartíma — Svarfrestur — Svarbréf — Síðbúið svarbréf er tekið sem kæra — Svar við fyrirspurn

I.

Málavextir eru þeir, að á rekstrarreikningi fyrir árið 1990 gjaldfærði kærandi kaupleigugreiðslur 173.468 kr. Með bréfi, dags. 10. maí 1991, krafði skattstjóri kæranda um ýmis fylgiskjöl skattframtals svo og um gögn vegna gjaldfærðra kaupleigugreiðslna 173.468 kr. Ekki barst svar innan svarfrests og með bréfi, dags. 17. júlí 1991 tilkynnti skattstjóri kæranda, að rekstrarreikningi hefði verið hafnað og honum áætlaðar tekjur af rekstri. Svarbréf kæranda hafði borist að svarfresti liðnum og er það dagsett 5. júní 1991. Í því bréfi og kæru dags. 28. júlí 1991 gerði kærandi grein fyrir sjónarmiðum sínum. Í kærunni mótmælti kærandi höfnun rekstrarreikningsins og taldi framlögð gögn og skýringar ekki hafa fengið rökstudda úrlausn af hendi skattstjóra. Með kæruúrskurði, dags. 25. október 1991, felldi skattstjóri áður ákveðna áætlun niður og féllst á að byggja á rekstrarreikningi kæranda að því undanskildu, að hann féllst ekki á gjaldfærslu kaupleigugreiðslna 173.468 kr. á þeim forsendum, að gögn hefðu ekki borist.

II.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 24. nóvember 1991. Krefst kærandi þess, að fyrrgreind gjaldfærsla kaupleigugreiðslna verði samþykkt. Kærunni fylgdu ljósrit greiðslukvittana svo og afsals fyrir viðkomandi eign í lok leigutíma, dags. 31. júlí 1990.

III.

Með bréfi, dags. 13. febrúar 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum er fallist á kröfu kæranda.“

IV.

Vegna athugasemda kæranda við meðferð málsins af hendi skattstjóra er rétt að taka fram, að svarbréf kæranda, dags. 5. júní 1991, barst ekki, fyrr en liðinn var svarfrestur. Bar skattstjóra því að áætla tekjur eins og fyrir er mælt í 1. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og tilkynna kæranda skriflega um þá áætlun, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Hið síðbúna svar kæranda bar skattstjóra að taka sem kæru og fjalla um það með rökstuddum hætti í kæruúrskurði. Með vísan til þessa verður ekki talið, að málsmeðferð skattstjóra hafi verið áfátt. Með skírskotun til þeirra gagna, er fylgdu kæru, er fallist á gjaldfærslu kaupleigugreiðslna að fjárhæð 150.314 kr. Tekið skal fram, að kærandi hefur með kaupleigugreiðslum gjaldfært 23.133 kr. sem er kaupverð þess tækis, er kærandi hafði á kaupleigu samkvæmt ljósriti afsals, er fylgdi kæru, en kærandi neytti réttar síns til þess að eignast tækið í lok leigutímans, sbr. m.a. það, sem fram kemur um samningsréttarsamband þetta í 1. gr. laga nr. 19/1989, um eignarleigustarfsemi. Verður kaupverð þetta ekki gjaldfært sem kaupleigugreiðsla. Krafa kæranda lýtur að gjaldfærslu allrar fjárhæðarinnar og kemur þá til álita, hvort heimilt sé að gjaldfæra umrædda fjárhæð 23.133 kr. á öðrum grundvelli. Telja verður, að kæranda sé gjaldfærsla heimil samkvæmt ákvæðum 41. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með vísan til framangreinds er fallist á gjaldfærslu að fullu á 173.447 kr. samkvæmt framlögðum kvittunum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja