Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 593/1976

Gjaldár 1975

Lög nr. 68/1971, 25. gr. B-liður  

Skattlagning sambýlisfólks

Málavextir voru þeir, að karl og kona, sem höfðu átt barn saman og héldu saman heimili voru skattlögð skv. 25. gr. laga nr. 68/1971 eins og henni var breytt með 9. gr. laga nr. 11/197 5, en sá hluti lagagreinarinnar sem skiptir máli er þannig:

„Karli og konu, sem búa saman í óvígðri sambúð og átt hafa barn saman, er heimilt, að skriflegri beiðni beggja, að fara þess á leit við skattstjóra að hann sameini skattgjaldstekjur þeirra og skattgjaldseign til skattgjalds á nafni karlmannsins, enda séu þau þá bæði háð ákvæðum 2. og 3.málsl. 1. mgr. og 4. mgr. 3.gr. um ábyrgð skattgreiðslu. Tekjuskattur reiknast þá samkvæmt 2. tl. A-liðar þessarar greinar og persónuafsláttur samkvæmt 2. tl. þessa stafliðar. Nú búa foreldrar barns saman í óvígðri sambúð og skal þá hvorugt þeirra teljast einstætt foreldri skv. þessum staflið eða skv. 16. gr. laganna þótt þau framfæri á heimilinu barn sem þau hafa ekki átt saman. Sé um að ræða barn, sem ekki er fullra 16 ára í byrjun þess almanaksárs, þegar skattur er lagður á og fallist hefur verið á sérsköttun þess samkvæmt heimild í 4. málsl. 4. mgr. og með farið um sérsköttun þess samkvæmt síðasta málsl. þeirrar lagagreinar, skal þó aldrei koma til greiðslu samkvæmt 2. mgr. þessa stafliðar hærri fjárhæð en 18.000 kr.“

Þannig stóð á, að sambýliskona mannsins átti börn frá fyrra hjónabandi, sem ekki voru orðin fullra 16 ára við lok skattárs og því ekki sjálfstæðir skattþegnar. Hún hafði fengið með þeim meðlag (óendurkræfan barnalífeyri) en skattyfirvöld túlkuðu ofangreinda lagagrein svo, að börn sambýliskonu skyldu, þegar sambýlisfólk hefði átt börn saman, færast á framtal karlmannsins, bæði hvað snerti barnabætur og meðlög. Það skal tekið fram, að kærendur höfðu ekki borið fram neina ósk um samsköttun.

Kærandi, ofangreindur sambýlismaður, kærði hækkun á teknahlið framtals, sem stafaði af því að honum hafði verið fært til tekna helmingur meðlags, sem konan hafði fengið með fyrri hjónabandsbörnum sínum. Færir hann meðal annars kröfu sinni til stuðnings, að hann eigi enga kröfu til þess að fá helming þess „óendurkræfa barnalífeyris“, sem sambýliskona hans fái til framfærslu börnum sínum af fyrra hjónabandi, greiddan úr hendi hennar. Þar sem hann hafi ekki tekið við þessu fé, og eigi engan rétt til þess þá telji hann fráleitt að greiða af því tekjuskatt. Væri þar um eignaupptöku að ræða, sem væri andstæð stjórnarskránni.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Sambýliskona kæranda er sjálfstæður skattþegn. Ber því að taka kröfu kæranda til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja