Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 548/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður — 91. gr. 1. mgr. — 100. gr. 1. og 5. mgr.  

Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtabætur — Fylgigögn skattframtals — Greinargerð um vaxtagjöld — Öflun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, öflun — Yfirtaka lána — Íbúðarsala — Verðbætur — Verðbætur, uppsafnaðar og áfallnar á íbúðarlán við sölu — Áfallnar verðbætur — Verðbætur, áfallnar — Íbúðarlán, yfirtekin af kaupanda íbúðar — Nauðungaruppboð — Fyrri skattframkvæmd — Framkvæmdarvenja — Eignarhald íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, eignarhald — Vaxtabætur, niðurfelling vegna sölu — Gildistaka skattalega — Lögskýring — Samræmisskýring — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Kærufrestur — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Vítaleysisástæður

I.

Málavextir eru þeir, að kærendur seldu íbúð að X á árinu 1989, sbr. greinargerð um sölu þessa (RSK 3.02), er fylgdi skattframtali þeirra árið 1990. Skattframtalinu fylgdi greinargerð um vaxtagjöld af lánum til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota (RSK 3.09). Skv. greinargerðinni námu vaxtagjöld 1.306.989 kr. Verulegur hluti tilfærðra vaxtagjalda voru áfallnar, uppsafnaðar verðbætur á lán, sem kaupandi fyrrnefndrar íbúðar yfirtók við kaupin. Fyrir álagningu gjaldárið 1990 tilkynnti skattstjóri kærendum, að fyrrnefnd vaxtagjöld vegna húsnæðisöflunar hefðu verið færð úr reit 87 í framtali í reit 88, þar sem kærendur hefðu ekki átt neitt íbúðarhúsnæði í árslok 1989. Vísaði skattstjóri til 6. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þar sem svo væri mælt fyrir, að vaxtabætur væru bundnar við eignarhald rétthafa á íbúðarhúsnæði og seldi rétthafi það húsnæði, sem veitti vaxtabótarétt án þess að hefja byggingu eða festa kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota á sama ári, féllu bótagreiðslur til hans niður frá og með næsta ári á eftir söluári.

Ekki sættu kærendur sig við synjun skattstjóra og mótmæltu henni í kæru, dags. 10. ágúst 1990. Töldu kærendur sig eiga rétt á vaxtabótum, þar sem þau hefðu selt íbúð á árinu 1989 en ekki verið búin að festa kaup á annarri fyrir lok þess árs. Með kæruúrskurði, dags. 8. október 1990, synjaði skattstjóri kröfu kærenda með vísan til 6. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Tók skattstjóri fram, að kærendur hefðu selt íbúðarhúsnæði sitt á árinu 1989 án þess að kaupa annað eða hefja byggingu annars á sama ári og féllu því vaxtabætur niður frá og með 1990.

II.

Af hálfu kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 23. nóvember 1990. Kærendur gera þá grein fyrir síðbúinni kæru, að úrskurður skattstjóra hafi ekki borist þeim, fyrr en að útrunnum kærufresti til ríkisskattanefndar, þar sem þau hafi verið flutt frá þeim stað, er úrskurðurinn hafi verið sendur á. Í efnissök gera kærendur grein fyrir því að íbúð þeirra hafi verið seld á nauðungaruppboði í október 1989. Í desember sama ár hafi þau sótt um íbúð hjá verkamannabústöðum á X og fengið úthlutun í apríl 1990. Fara þau fram á vaxtabætur gjaldárið 1990.

III.

Með bréfi, dags. 15. apríl 1991, gerði ríkisskattstjóri svofelldar efniskröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda ef ekki yrði fallist á aðalkröfu hans um frávísun vegna síðbúinnar kæru:

„Í 5. og 6. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eru ákvæði um að réttur til vaxtabóta sé bundinn við eignarhald á fasteign en einnig er tekið fram að selji maður íbúðarhúsnæði það sem vaxtabætur tengjast, án þess að hefja byggingu eða festa kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota á því sama ári, skuli þær vaxtagreiðslur sem tengjast lánum vegna hins selda íbúðarhúsnæðis á söluárinu vera gildar vaxtagreiðslur til útreiknings vaxtabóta við næstu álagningu eftir söluár. Einnig teljast til vaxtagjalda áfallnar uppsafnaðar verðbætur af lánum sem kaupandi yfirtekur við sölu íbúðar sbr. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 112/1990.

Samkvæmt framansögðu þykir mega fallast á kröfu kærenda um rétt til vaxtabóta vegna ársins 1989.“

IV.

Með hliðsjón af skýringum kærenda þykir mega taka kæruna til efnismeðferðar þrátt fyrir það að hún sé fram komin að kærufresti liðnum. Í máli þessu reynir á það, hvernig skýra beri 6. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ákvæði þetta hljóðar svo: „Vaxtabætur skulu bundnar við eignarhald rétthafa á íbúðarhúsnæði. Selji rétthafi það húsnæði sem veitti rétt til vaxtabóta, án þess að hefja byggingu eða festa kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota á sama ári, falla bótagreiðslur til hans niður frá og með næsta ári á eftir söluári“. Samkvæmt þessu mælir þessi málsgr. C-liðs 69. gr. laganna fyrir um lok vaxtabótaréttar. Rétt þykir að taka hér upp 5. mgr. C-liðs lagagreinar þessarar, er kveður á um upphaf réttarins. Hljóðar hún svo: „Réttur til vaxtabóta stofnast á því ári þegar íbúðarhúsnæði til eigin nota er keypt eða bygging þess hefst“. Frásögn ríkisskattstjóra í kröfugerð sinni í máli þessu af framangreindum lagaákvæðum er röng um þýðingarmikil atriði. Grundvöllur til útreiknings vaxtabóta eru vaxtagjöld vegna öflunar íbúðarhúsnæðis svo sem þau eru mörkuð í 3. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Óumdeilt er, að kærendur hafi borið vaxtagjöld þau, sem í máli þessu greinir á árinu 1989 og er ekki ágreiningur um það, að þau vaxtagjöld uppfylli skilyrði nefndrar 3. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, enda tók niðurlagsákvæði málsgreinar þessarar ekki til tilviks kærenda, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 112, 27. desember 1990, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Álitaefnið í máli þessu er hins vegar það, hvort þau atvik, að kærendur misstu íbúð sína á nauðungaruppboði í októbermánuði 1989 og hófu ekki byggingu eða festu kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota á því sama ári leiði til þess, að réttur þeirra til vaxtabóta hafi fallið niður gjaldárið 1990 að öllu leyti. Tiltæk lögskýringargögn veita ekki upplýsingar um, hvernig skýra beri að þessu leyti ákvæði 6. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 79/1989, um breyting á þeim lögum. Þegar litið er til eðlilegs samræmis milli ákvæða um upphaf og lok réttar til vaxtabóta, sbr. 5. og 6. mgr. C-liðs nefndrar lagagreinar, framkvæmdar varðandi ákvörðun vaxtagjalda til frádráttar í sambærilegum tilfellum skv. eldri reglum og þess að slíkar vaxtagjaldareglur eru grundvöllur ákvörðunar fjárhæðar vaxtabóta, þykja ákvæði 6. mgr. C-liðs nefndrar 69. gr. ekki girða fyrir það, að þau viðhorf, sem koma fram í kröfugerð ríkisskattstjóra um þetta atriði séu tæk sem lögskýringasjónarmið. Þá þykir bera að líta til þess að kærendur öfluðu sér íbúðarhúsnæðis í apríl 1990 og höfðu gert gangskör að því í desember 1989. Þykir því rétt að fallast á kröfu kærenda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja