Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 35/1975

Gjaldár 1973

Lög nr. 68/1971, 5. gr. E-liður, 6. gr.  

Skattskylda veiðifélags

Kærandi krafðist, að álagður tekjuskattur og aðstöðugjald gjaldárið 1973 yrði fellt niður þar sem félagið sem slíkt væri ekki atvinnurekandi.

Af hálfu ríkisskattstjóra var gerð svofelld krafa:

"Að kærunni verði vísað frá í ríkisskattanefnd þar sem ekkert formlegt framtal hefur borist heldur einungis reikningar félagsins. Telja verður að kærandi sé skattskyldur skv. 5. gr. laga nr. 68/1971. Eigi verður séð að undanþáguákvæði frá skattskyldu sem fram koma í 6. gr. áðurnefndra laga nái til starfsemi kæranda. Skv. 35. gr. laga nr. 68/1971 ber öllum skattskyldum aðilum að skila framtali. Hefur kærandi því ekki uppfyllt formskilyrði þess að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Gefi ríkisskattanefnd hins vegar kæranda kost á að koma að framtali óskast það sent ríkisskattstjóra til umsagnar ásamt tilheyrandi fylgiskjölum."

Ríkisskattanefnd úrskurðaði:

"Kærandi er veiðifélag, sem starfar skv. lögum nr. 76/1970. Samkvæmt gögnum málsins hafði félagið sjálft ekki skattgjaldstekjur á árinu 1972 og eftirstöðvar í vörslu þess er ógreiddur arður til eigenda veiðiréttar. Er krafa kæranda um niðurfellingu tekjuskatts tekin til greina. Aðstöðugjald lækkar í kr. 3.900,- og viðlagagjald í kr. 2.100,- með hliðsjón af reikningsyfirliti, sem fylgdi kæru til ríkisskattanefndar."

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja