Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 635/1992

Gjaldár 1991

Lög 75/1981 — 7. gr. C-liður 2. tl. 1. mgr. — 69. gr. C-liður — 100. gr. 5. mgr.  

Útleiga — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Húsaleigutekjur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtabætur — Öflun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, öflun — Íbúðarhúsnæði, eigin notkun — Eigin notkun íbúðarhúsnæðis — Eigin notkun — Notkun húsnæðis — Kröfugerð ríkisskattstjóra

Málavextir eru þeir, að í skattframtali kæranda árið 1991 voru eingöngu taldar fram tekjur af fasteignum 571.850 kr. Greindi umboðsmaður kæranda, sem undirritaði skattframtalið fyrir hans hönd, frá því í athugasemdadálki framtalsins, að kærandi dveldist erlendis hjá dóttur sinni. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1991 felldi skattstjóri niður, með vísan til 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vaxtagjöld til útreiknings vaxtabóta í reit 87 í skattframtali kæranda á þeim forsendum, að vaxtagjöldin væru ekki af skuldum til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota og féllu því ekki undir ákvæði C-liðs 69. gr. sömu laga um vaxtabætur.

Umboðsmaður kæranda kærði breytingar skattstjóra með bréfi, dags. 25. ágúst 1991. Í kærubréfinu kom fram, að kærandi hefði keypt íbúðina árið 1985 og notað hana óslitið til íbúðar til ársins 1990, en það ár hefði hann verið í launalausu fríi frá kennslustörfum m.a. af heilsufarsástæðum og þá dvalið erlendis hjá dóttur sinni utan tveggja mánaða um sumarið en þá hefði hann dvalið í íbúð sinni. Með kærubréfinu fylgdu vottorð frá skólastjóra viðkomandi skóla og læknisvottorð til staðfestingar skýringum kæranda.

Með bréfi, dags. 8. október 1991, krafði skattstjóri kæranda m.a. um gögn til staðfestingar útleigu íbúðarhúsnæðisins á árinu 1990 og til staðfestingar því, að kærandi hafi búið í íbúðinni í tvo mánuði á árinu. Af hálfu umboðsmanns kæranda var bréfi skattstjóra svarað með bréfi, dags. 14. október 1991. Kom þar m.a. fram að kærandi dveldist erlendis og ekki hefði verið unnt af þeim sökum að hafa upp á húsaleigusamningum vegna leigutekna ársins 1990.

Með kæruúrskurði, dags. 18. október 1991, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum, sem þegar hafa komið fram auk þess sem sýnt þætti, að kærandi hafi verið búsettur erlendis allt árið 1990 og ekki nýtt húsnæði sitt til annars en útleigu.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 15. nóvember 1991. Gerir kærandi þá kröfu, að tilfærð vaxtagjöld í skattframtali verði látin standa óbreytt en til vara að vaxtabætur reiknist hlutfallslega eftir búsetu eiganda í íbúðinni árið 1990, þ.e. í þrjá mánuði. Segir m.a. eftirfarandi í kærubréfinu:

„Ég vil enn og aftur mótmæla þeirri þröngu túlkun skattstjóra á lokamálslið 1. tl. 3. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, sem fram kemur í úrskurðinum. Lagaákvæðið er að mínum dómi fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að menn geti fengið vaxtabætur fyrir fleiri en eina íbúð í einu. Það getur ekki hafa verið vilji löggjafans að menn geti misst vaxtabætur vegna tímabundinna breytinga á búsetu ef íbúðin er á sannanlegan hátt keypt eða byggð með það fyrir augum að eigandi búi í henni.

Ég vil til viðbótar fyrri rökstuðningi í málinu taka fram að umbjóðandi bjó í íbúð sinni næstum þrjá mánuði á árinu 1990 en ekki tvo eins og áður hefur komið fram. Því til staðfestingar fylgja hér með ljósrit af húsaleigusamningum vegna ársins 1990 svo og staðfesting frá Flugleiðum á bókun kæranda til og frá landinu á árinu 1990.“

Með bréfi, dags. 14. janúar 1992, fellst ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda á varakröfu kæranda með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum.

Að virtum gögnum máls þessa og skýringum kæranda þykir rétt að fallast á varakröfu kæranda en aðalkröfu hans er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja