Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 811/1974

Gjaldár 1973

Lög nr. 68/1971, 11. gr. A-liður  

Risna, auglýsingakostnaður

Málavextir voru þeir, að kærandi færði til gjalda kr. 939.980,70, sem var heildarkostnaður vegna hátíðahalda á 50 ára afmæli. Í umsögn ríkisskattstjóra sagði, að eðlilegt væri að líta svo á að kostnaðarliður þessi samanstandi af þrem meginþáttum, þ.e. óhjákvæmilegri risnu vegna reksturs, auglýsingagildi slíkra hátíðahalda og í þriðja lagi útgjöldum, sem væru óviðkomandi rekstri kæranda í skilningi 1. mgr. A-liðar 11. gr. laga nr. 68/1971.

Skattstjóri féllst á að heimila kr. 539.980,- til frádráttar tekjum. Kærandi taldi að öll hin tilfærða upphæð væri frádráttarbær og bent á veltuaukningu og annan árangur sem taldist eiga rót sína að rekja til afmælishófsins og sýningar á þróun iðnaðar í landinu.

Ríkisskattstjóri taldi, að með því að heimila til frádráttar á framtali kæranda kr. 539.980,- hefði skattstjóri metið frádráttarbæra risnu og jafnframt auglýsingagildi áðurnefnds afmælishófs og sýningar það ríflega, að kærandi mætti við una.

Ríkisskattanefnd taldi kæranda ekki hafa stutt kröfur sínar þeim rökum að úrskurði skattstjóra yrði hrundið. Var hinn kærði úrskurður staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja