Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 543/1975

Gjaldár 1974

Lög nr. 68/1971, 11. gr., 47. gr.  

Offærður kostnaður, viðurlög

Kærðar voru þær breytingar skattstjóra að lækka gjaldfærðan ferðakostnað um kr. 57.656,-, svo og liðinn ýmsan kostnað um kr. 4.650,-, en þar var um að ræða blómagjafir til starfsfólks. Skattstjóri hafði tekið til greina kr. 40.000,- af hinum umdeilda ferðakostnaði.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

"Um 1

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi gefið starfsmanni sínum farmiða að fjárhæð kr. 97.656,- í tilefni af 30 ára starfsafmæli hans. Er hér um tækifærisgjöf að ræða. Ber því að synja um frádrátt á henni. En með því að kærandi færði hana til gjalda á framtali sínu með öðrum ferðakostnaði án sérstakra athugasemda, þykir verða að reikna hana við skattlagningu með 15% álagi samkvæmt 47. gr. laga nr. 68/1971. Með vísun til þessa hækkar gjaldstofn um kr. 54.600,-.

Um 2

Ekki er í ljós leitt, að hinn umdeildi frádráttur sé rekstrarútgjöld í þeirri merkingu, sem um getur í 11. gr. skattalaga. Ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð."

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja