Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 973/1974

Gjaldár 1973

Lög nr. 68/1971, 15. gr.  

Fyrningar - Frávísun

Kærandi hafði með höndum rekstur skóverslunar og nokkra sölu á ullarvörum til útflutnings. Nam heildarsala verslunarinnar að frádregnum söluskatti á skattárinu 1972 kr. 24.188.386,00, en sala á ullarvörum kr. 609.522,00. Kaupgreiðslur verslunarinnar námu kr. 1.386.206,00.

Í ársbyrjun 1972 átti kærandi tvær fólksbifreiðar. Voru þær eignfærðar á efnahagsreikningi skóverslunar hans. Önnur bifreiðin var af gerðinni Hillman Hunter, fólksbifreið árgerð 1970, en hin Mercory Comet, fólksbifreið árgerð 1965. Þann 18.5.1979 seldi kærandi síðarnefndu bifreiðina. Á sama ári keypti kærandi notaða fólksbifreið frá Þýskalandi af gerðinni Ford Taunus árgerð 1971.

Í gögnum málsins kom fram, að skóverslun kæranda er starfrækt í Reykjavík, en sjálfur býr hann í Garðahreppi. Kærandi kvaðst sjálfur annast bankaviðskipti og margs konar erindisrekstur fyrir verslun

sína, enda hefði hann ekki starfsmenn við þau störf. Þar sem hann sé fatlaður og raunar hvort sem væri, taldi kærandi sig ekki geta rekið þessi erindi á skynsamlegan og hagkvæman hátt nema hafa afnot af bifreið. Þá bendir kærandi á, að talsverður kostnaður sé vegna útflutnings á prjónavöru, sem kona sín sjái um. Nauðsynlegt sé að sækja prjónavörur til prjónakvennanna, sem búi víðsvegar um Reykjavík, svo og að flytja vöruna út á flugvöll.

Tilfærð rekstrargjöld bifreiða kæranda á rekstrarreikningi verslunar hans námu á árinu 1972 kr. 194.937,50. Auk þess aðkeyptur akstur kr. 33.382,00. Voru þar gjaldfærðar fyrningar af bifreiðum samtals að fjárhæð kr. 205.540,00.

Þessi upphæð greinist þannig:

15% almenn fyrning skv. C-lið 15. gr. skattalaga kr. 69.200,-
Afskrifaðar eftirstöðvar endurmatshækkunar
bifreiðar þeirrar, sem kærandi seldi á árinu 1972 - 35.200,-
6% sérstök fyrning skv. 1. mgr. D-liðar 15. gr. . - 38.940,-
Afskrifaður helmingur söluágóða af hinni seldu
bifreið ................................. - 44.900,-
Kr. 188.240,-
Fyrning skv. verðhækkunarstuðli 25% af
kr. 69.200,- ............................. . 17.300,-
Kr. 205.540,-

Skattstjóri taldi hluta af gjaldfærðum rekstrargjöldum og fyrningum vegna bifreiða kæranda stafa af einkaafnotum hans af þeim. Mat skattstjóri einkaafnotin á kr. 70.000,- og hækkaði framtaldar nettótekjur um þá fjárhæð.

Svo sem áður segir seldi kærandi þann 18.5.1972 bifreiðina fyrir kr. 205.000,-. Bifreið þessa hafði kærandi keypt fyrir kr. 220.000,-. Þetta kaupverð hafði kærandi afskrifað á eignarhaldstímanum, sem var 3 ár og 10 mánuðir um kr. 120.050,-. Nam því bókfært verð hennar pr. 18.5.1972 kr. 99.950,-.

Taldi kærandi í framtali sínu að söluhagnaðurinn
væri.......................................... kr. 105.050,-

og fengnar fyrningar umfram lágmarksfyrningu - 15.250,-
1971 og 1972 .................................

Nam því söluágóðinn .......................... kr. 89.800,-

Samkvæmt þessu taldi kærandi á framtali sínu hinn skattskylda hluta söluhagnaðarins vera:

Fengnar fyrningar umfram lágmarksfyrningu .. kr. 15.250,-
Helming ágóða (sbr. eignarhaldstímann) .... - 44.900,-
Skattskyldur hluti alls .................. kr. 60.150,-

Kærandi hafði endurmetið bifreið þá, er hér um ræðir. Nam hækkun vegna endurmatsins kr. 44.000,-. Afskrifaði kærandi þessa endurmatshækkun um kr. 8.800,- á árinu 1971 og um kr. 35.200,- 1972.

Skattstjóri leit svo á, að telja bæri fyrningu endurmatshækkunar skattskylda sem fyrningu umfram lágmarksfyrningu. Hækkaði skattstjóri því hinn skattskylda hluta söluhagnaðarins um kr. 44.0O0,-, þ.e. úr kr. 60.150,- í kr. 104.150,-.

Umboðsmaður kæranda gerði fyrir hans hönd eftirfarandi kröfur:

1. Að útreikningur sinn á skattskyldum hluta söluhagnaðar af bifreið verði tekinn til greina athugasemdalaust.

2. Að mat á einkanotum kæranda af bifreið verði lækkað.

Af hálfu ríkisskattstjóra var gerð svofelld krafa:

"Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur að öðru leyti en því, að fallist er á að ágóði vegna sölu bifreiðar sé reiknaður kr. 27.300,- og skattskyldar fyrningar séu reiknaðar kr. 15.250,-."

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

"Eins og fyrr greinir eru bifreiðir þær, sem málið er sprottið af, allar fólksbifreiðir. Þegar á hinn bóginn er litið til atvinnurekstrar kæranda og almennt á þörf slíks rekstrar fyrir fólksbifreiðir, verður að ætla, að þær séu að verulegu leyti notaðar til einkaþarfa kæranda. Þykir því eigi vera um að ræða fyrnanlegar eignir eftir A-lið 15. gr. skattalaga. Hagnaðurinn af sölu bifreiðarinnar var heldur eigi skattskyldur, sbr. 2. mgr. E-liðar 7. gr. sömu laga. Skattstjóri hefir þegar veitt kæranda það ríflegan frádrátt vegna bifreiðakostnaðar, að engin efni eru til að auka þar við, og lækka tekjuskatt og útsvar af þeim sökum. Svo sem atvikum málsins er háttað þykir bera að vísa kæru hans frá."

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja