Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 617/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 116. gr.   Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1989, liður 2.2.1.  

Skattskyldar tekjur — Hlunnindi — Hlunnindamat ríkisskattstjóra — Fatnaðarhlunnindi — Einkennisföt — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra — Lögreglustjóri — Lögmætisreglan

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem er bæjarfógeti, fékk greidda fatapeninga 15.643 kr. á árinu 1989 samkvæmt launauppgjöf Ríkisbókhalds. Ekki færði kærandi þessa fatapeninga sér til tekna í skattframtali sínu árið 1990. Hinn 26. júlí 1990 tilkynnti skattstjóri kæranda, að umræddir fatapeningar hefðu verið færðir honum til skattskyldra tekna. Þessari breytingu mótmælti kærandi í kæru, dags. 2. ágúst 1990, og gat þess, að hann hefði ekki fengið neina fatapeninga heldur væri hér um að ræða greiðslu á svonefndum hátíðarbúningi lögreglustjóra, er aðeins væri notaður við sérstök tilefni og fengist einungis afhentur gegn framvísun frá Dómsmálaráðuneyti. Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 26. október 1990, og synjaði henni á þeim forsendum, að um skattskyldar tekjur væri að ræða skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og leiðbeiningar ríkisskattstjóra um útfyllingu skattframtals árið 1990.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 19. nóvember 1990. Kröfugerð kæranda er svohljóðandi:

„Gerð er krafa um að nefndir fatapeningar, sem reyndar eru ekki afhentir sem slíkir, heldur er hér um úthlutun hátíðarbúnings lögreglustjóra að ræða sbr. meðfylgjandi ljósrit, verði ekki taldir til tekna hjá undirrituðum. Viðkomandi búning er einungis heimilað að nota við mjög sérstök tækifæri, sem reyndar hefur ekki reynt á enn hjá undirrituðum, og því allsendis útilokað að telja viðkomandi fatnað til tekna. Hann fylgir embættinu og er því greiddur af því.

Skattstjóri vísar sérstaklega til 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 þar sem fram komi að fatnaður sé talinn með skattskyldum tekjum. Rétt þykir því í þessu sambandi að vísa til 4. tl. 30. gr. sömu laga þar sem heimilaður er frádráttur af fatnaði sem ekki er talinn manni til hagsbóta með hliðsjón af atvikum að mati ríkisskattstjóra. Er þetta augljóslega gert til að hér megi fara fram nokkurt mat og sanngirni megi ríkja. Ef beita á einhvern tíma nefndri heimild hlýtur það að vera í tilvikum sem hér hefur verið lýst.“

Með bréfi, dags. 31. janúar 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærandi vefengir, að einkennisföt þau, er honum voru látin í té vegna embættisstarfa hans geti talist honum til skattskyldra tekna sem hlunnindi samkvæmt 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hlunnindi af þessum toga hefur ríkisskattstjóri metið til tekna samkvæmt 116. gr. laga nr. 75/1981, sbr. tölulið 2.2.1. í skattmati embættisins framtalsárið 1990, dags. 5. janúar 1990, er birtist í 8. tbl. Lögbirtingablaðs 1990, útgefnu 19. janúar þ.á. Í skattmati þessu eru einkennisföt karla metin á 11.990 kr. Ekki var hin umdeilda ákvörðun skattstjóra í samræmi við þessi stjórnsýslufyrirmæli. Að því virtu og þegar litið er til þess, sem upplýst er í málinu um einkennisfatnað þann, sem um ræðir og notkun hans er fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja