Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 728/1973

Gjaldár 1972

Lög nr. 68/1971, 3. gr.  

Sambýlisfólk

Kærandi gerði kröfu til að hann og sambýliskona hans væru skattlögð sem hjón.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Hvorki í lögum um tekjuskatt og eignarskatt nr. 68/1971 né í lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 8/1972 er að finna heimild til samsköttunar einstaklinga, þegar undan eru skilin ákvæði 3. og 4. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt og 22. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga um samsköttun hjóna annars vegar og barna og foreldra hins vegar. Með því að hér er um undantekningarreglur að ræða, þykir bresta heimild til að skýra þær það rúmt, að þær taki til einstaklinga, sem búa saman í óvígðri sambúð. Með þessari athugasemd ber að staðfesta úrskurð skattstjóra.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja