Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 757/1973

Gjaldár 1970

Lög nr. 68/1971, 7. gr. D-liður  

Spariskírteini, vextir

Við álagningu tekjuskatts og útsvars 1970 ákvarðaði skattstjóri kæranda skattskyldar vaxtatekjur af bankainnstæðu og spariskírteinum ríkissjóðs kr. 32.379,00. Kærandi mótmælti skattlagningu vaxta af spariskírteinum og kvaðst enga vexti hafa af þeim fengið enda ekki fram taldir.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir, að skv. upplýsingum frá Seðlabanka Íslands hafi á árunum 1965 - 1970 verið seld verðtryggð spariskírteini með 6% meðaltalsvöxtum á ári fyrir allan lánstímann, en vextir af bréfunum fyrstu 4 árin námu 5% á ári. Vextirnir skyldu greiðast eftir á og í einu lagi við innlausn.

Í lögum um spariskírteini eru ákvæði þess efnis að þau, svo og vextir af þeim, séu skattfrjáls á sama hátt og sparifé í innlánsstofnunum. 21. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 90/1965 undanþáði bankainnstæðu og vexti af þeim skattskyldu að ákveðnu marki sem þar greindi. Ríkisskattanefnd reiknaði síðan skattskyldan hluta vaxtanna þannig:

„Heildarskuldir kæranda 31.12.1969 skv. framtali hans voru kr. 662.570,54, en framtaldar bankainnstæður og spariskírteini kr. 896.600,00. Af framanrituðum eignum kr. 896.600,00 verða því kr. 462.570,00 eða 51,6% eignarskattskyldar og vextir af sömu upphæð verða tekjuskatts- og útsvarsskyldir. Framtaldir vextir af sparifé eru kr. 9.600,00 og reiknaðir vextir af spariskírteinum kr. 39.000,00 eða samtals kr. 48.600,00. Skattskyldur hluti er 51,6% eða kr. 25.077,00. Skattskyldar vaxtatekjur lækka því úr kr. 32.379,00 í kr. 25.077,00 eða um kr. 7.302,00.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja