Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1132/1973

Gjaldár 1972

Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður  

Söluhagnaður - Afturvirkni laga

Málavextir eru þeir, að atvinnubílstjóri nokkur seldi bifreið sína, sem hann hafði átt í meira en þrjú ár, með hagnaði. Nam hagnaðurinn kr. 170.766,00 og var helmingurinn, kr. 85.383,00, færður kæranda til tekna sem skattskyldur söluhagnaður. Kærandi krafðist niðurfellingar á þessari teknaviðbót með vísan til þess, að þegar salan fór fram, í janúar 1971, hefði verið í gildi ákvæði um skattfrelsi „söluhagnaðar“ af sölu lausafjármuna eftir þriggja ára eignarhaldstíma.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Er sala sú, sem hér ræðir um fór fram, voru í gildi ákvæði 1. mgr. E-liðs 7. gr. laga nr. 90/1965 þess efnis, að hagnaður af sölu lausafjár væri skattfrjáls hefði seljandi átt hina seldu eign í þrjú ár, enda kæmu ekki til þær sérstöku ástæður, sem þar greinir, og hér skipta ekki máli.

Með 4. gr. laga nr. 30 frá 14. apríl 1971 var reglu þessari breytt á þá lund, að sölugróði af fyrnanlegu lausafé taldist skattskyldur að fullu, ef skattþegn hafði átt hina seldu eign skemur en 2 ár, en að hálfu hefði hann átt hana tvö ár, en skemur en fjögur ár. Jafnframt var svo fyrir mælt, í 2. mgr. 30. gr., að lögin skyldu þegar öðlast gildi og koma til framkvæmda við álagningu skatta til ríkissjóðs fyrir skattárið 1971.

Að framangreindu er ljóst, að úrlausnarefnið er, hvort skattleggja beri söluhagnaðinn eftir ákvæðum laga nr. 30/1971.

Í máli þessu er á það að líta, að söluhagnaðurinn er sprottinn af einstakri ráðstöfun kæranda, sem er þannig háttað að ætla má, að skattareglur þær, sem giltu á þeim tíma, er salan fór fram, hafi verið forsenda fyrir ákvörðun hans um söluna. Ennfremur ber að hafa í huga, að afturvirkar, íþyngjandi ráðstafanir af því tagi, sem hér um ræðir, snerta aðeins mjög lítinn hluta gjaldenda. Þegar þetta er virt, þykir fyrir hendi brýn þörf að vernda hagsmuni gjaldandans í tilvikum sem þessu, enda eigi talið, að sú niðurstaða sé andstæð rétti löggjafarvalds og stjórnvalda til að beita íþyngjandi afturvirkum fyrirmælum almennt. Ber því að taka kröfu kæranda til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja