Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 443/1973

Gjaldár 1971

Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður  

Söluhagnaður íbúðarhúsnæðis

Málsatvik voru þau, að kærandi hóf byggingu á tvílyftu íbúðarhúsi í Hafnarfirði á árinu 1966. Þann 14. ágúst 1969 seldi hann efri hæð húseignarinnar, og þann 14. sept. sama ár neðri hæðina. Þann 7. ágúst sama ár keypti kærandi hús í smíðum í Garðahreppi, og er það enn í smiðum í árslok 1970. Hagnaður af sölu íbúðarhússins í Hafnarfirði nam kr. 383.812,00 og gerðu skattstjórinn í Reykjanesumdæmi og framtalsnefnd Hafnarfjarðar kæranda að greiða tekjuskatt og tekjuútsvar af þessum söluhagnaði. Taldi skattstjóri og framtalsnefnd að viðskipti þessi væru gerð í atvinnuskyni. Þessu vildi kærandi ekki una og krafðist þess, að tekjuskattur og tekjuútsvar af söluhagnaðinum verði fellt niður.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Ekki er leitt í ljós, að kærandi hafi byggt húseignina í atvinnurekstrarskyni eða til að selja eignina aftur með hagnaði. Ekki voru liðin 3 ár frá því, að framangreind eign var seld, þegar söluhagnaðurinn var skatt- og útsvarslagður. Með vísan til 2. mgr. E-liðar 7. gr. laga nr. 90/1965 um tekjuskatt og eignarskatt verður að telja, að óheimilt hafi verið að leggja tekjuskatt og tekjuútsvar á söluhagnaðinn að svo stöddu.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja