Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1255/1973

Gjaldár 1972

Lög nr. 68/1971, 9. gr., 11. gr., 47. gr.  

Varasjóður - Ferðakostnaður - Viðurlög

Kærandi, hlutafélag með verulegan rekstur, færði til gjalda á framtali sínu ferðakostnað að upphæð kr. 565.481,00. Að undangenginni fyrirspurn lækkaði skattstjóri ferðakostnaðinn í kr. 225.000,00. Það kom fram í svari kæranda, að af heildarupphæðinni voru kr. 126.092,00 vegna skemmtiferðar forstjórans til Kanaríeyja í tilefni 30 ára afmælis fyrirtækisins og 30 ára starfsafmælis forstjórans.

Ríkisskattstjóri taldi, að kæranda bæri fullur frádráttur vegna framtalins ferðakostnaðar að frádregnum áðurgreindum kr. 126.092,-. Þar taldi hann vera um gjöf að ræða til forstjórans og bæri að skattleggja þá upphæð hjá fyrirtækinu svo sem um óheimila ráðstöfun varasjóðs væri að ræða með 20% álagi, sbr. B-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 7/1972 um breytingu á 9. gr. laga nr. 68/1971.

Ríkisskattanefnd féllst á sjónarmið kæranda og ríkisskattstjóra hvað snerti ferðakostnað að undanskilinni Kanaríeyjaferðinni. Segir svo um það atriði í úrskurði nefndarinnar:

„Hins vegar gildir eigi hið sama um kostnað vegna farar framkvæmdastjóra og konu hans til Kanaríeyja. Þeim útgjöldum sýnist varið í einkaþágu þeirra í tilefni af starfsafmæli. Þykir því um þau eiga að fara eftir sömu reglum og tækifærisgjafir. Ber því að synja um frádrátt á þeim. En með því að kærandi færði þau til gjalda á framtali sínu með öðrum ferðakostnaði án sérstakra athugasemda, þykir verða að reikna þau við skattlagningu með 15% álagi samkvæmt 47. gr. laga nr. 68/1971. En eins og atvikum máls þessa er háttað, telst ekki vera um að ræða svo óvenjulega eða óeðlilega gjöf af hendi kæranda, að ráðstöfunin brjóti í bága við B-lið 4. gr. laga nr. 7/1972. Verður því krafa um skattlagningu varasjóðs eigi tekin til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja