Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattlagning sambýlisfólks
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 219/2016

Gjaldár 2007 og 2008

Lög nr. 90/2003, 96. gr. 4. mgr.   Lög nr. 37/1993, 11. gr., 13. gr.  

Ríkisskattstjóri endurákvarðaði opinber gjöld M til hækkunar og leiddi sú ákvörðun til niðurfellingar vaxtabóta og millifærðs skattafsláttar A, fyrrverandi sambýliskonu M. Fram kom í úrskurði yfirskattanefndar að við aðstæður sem þessar og þegar breyting yrði á áður álögðum gjöldum manns vegna hækkunar á tekjuskattsstofni fyrrverandi maka hans eða öðrum breytingum á skattskilum síðarnefnds skattaðila bæri að gefa hinum fyrrnefnda aðila kost á að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Var talið að slíkur misbrestur hefði verið á leiðbeiningum ríkisskattstjóra um heimild A til að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar að lögmæltur andmælaréttur A hefði verið fyrir borð borinn. Var endurákvörðun ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum A því felld úr gildi.

Ár 2016, miðvikudaginn 19. október, er tekið fyrir mál nr. 31/2016; kæra A, dags. 28. janúar 2016, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2007 og 2008. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 28. janúar 2016, sbr. greinargerð, dags. 29. febrúar 2016, lýtur að úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 29. október 2016, um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2007 og 2008. Með úrskurði þessum felldi ríkisskattstjóri niður áður ákvarðaðar vaxtabætur kæranda gjaldárið 2007 að fjárhæð 13.482 kr. Einnig felldi ríkisskattstjóri niður millifærðan skattafslátt frá maka gjaldárið 2007 að fjárhæð 348.343 kr. og gjaldárið 2008 að fjárhæð 385.800 kr. Við þær breytingar hækkaði tekjuskattur kæranda úr 19.827 kr. í 368.170 kr. eða um 348.343 kr. gjaldárið 2007 og úr 948.164 kr. í 1.333.964 kr. eða um 385.800 kr. gjaldárið 2008. Breytingar þessar voru gerðar í kjölfar bréfs ríkisskattstjóra, dags. 19. ágúst 2015, og leiddu af endurákvörðun opinberra gjalda fyrrverandi sambýlismanns kæranda, M, gjaldárin 2007 og 2008 með úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 29. október 2015, sem fór fram í kjölfar rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum M tekjuárin 2006 og 2007.

Af hálfu kæranda er gerð sú krafa að breytingar á áður ákvörðuðum opinberum gjöldum hennar samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra verði felldar niður.

II.

Helstu málavextir eru þeir að kærandi og sambýlismaður hennar, M, stóðu skil á sameiginlegum skattframtölum gjaldárin 2007 og 2008, og voru skattlögð eftir þeim reglum sem gilda um skattlagningu hjóna, sbr. heimild þá sem er að finna í 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Samkvæmt því sem fram kemur í þjóðskrá var sambúðinni slitið í júlí 2012. Á vegum skattrannsóknarstjóra ríkisins fór fram rannsókn á skattskilum fyrrverandi sambýlismanns kæranda, M, vegna tekjuáranna 2006 og 2007, sbr. skýrslu skattrannsóknarstjóra um rannsóknina, dags. 27. febrúar 2015. Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál M sent ríkisskattstjóra til meðferðar með bréfi, dags. 3. mars 2015, sbr. 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003. Á grundvelli skattrannsóknarinnar boðaði ríkisskattstjóri M með bréfi, dags. 19. ágúst 2015, endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda hans gjaldárin 2007 og 2008, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, vegna fyrirhugaðra tekjufærslna í skattframtölum hans umrædd ár vegna meintra vantalinna launatekna árin 2006 og 2007. Boðuðum breytingum á skattskilum M mun hafa verið hrundið í framkvæmd með úrskurði um endurákvörðun, dags. 29. október 2015.

Með bréfi til kæranda, dags. 19. ágúst 2015, boðaði ríkisskattstjóri henni með vísan til 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 96. gr. sömu laga, endurákvörðun opinberra gjalda hennar gjaldárin 2007 og 2008. Kom fram í bréfinu að fyrirhugaðar breytingar á opinberum gjöldum kæranda leiddu beint af breytingum sem ríkisskattstjóri hygðist gera á skattframtölum fyrrverandi sambýlismanns hennar á grundvelli skýrslu skattrannsóknarstjóra. Hefði fyrrverandi maka kæranda verið send sú skýrsla með boðunarbréfi ríkiskattstjóra, dags. 19. ágúst 2015. Þá gerði ríkisskattstjóri nánari grein fyrir hinum boðuðu breytingum sem vörðuðu niðurfellingu vaxtabóta gjaldárið 2007, sbr. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, og niðurfellingu millifærðs skattafsláttar frá maka gjaldárin 2007 og 2009, sbr. 2. mgr. 67. gr. laga nr. 90/2003, um þær fjárhæðir sem tilgreindar eru í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, sbr. I. kafla hér að framan. Kom fram að þessar breytingar yrðu gerðar „á opinberum gjöldum yðar gjaldárið 2011, vegna tekjuársins 2010“ ef fyrirhugaðar breytingar á skattframtali M kæmu til framkvæmda með þeim hætti sem honum hefði verið boðað. Í niðurlagi bréfsins sagði: „Svo sem að framan greinir er hér um að ræða breytingar sem leiða af endurákvörðun á gjöldum fyrrv. maka yðar M. Andmælaréttur hans vegna boðunarbréfs, dags. í dag, er til 10. september 2015.“

Ríkisskattstjóri hratt hinum boðuðu breytingum í framkvæmd með úrskurði um endurákvörðun, dags. 29. október 2015. Var þar tekið fram að um væri að ræða breytingar sem leiddu beint af breytingum sem gerðar hefðu verið á skattframtölum fyrrverandi sambýlismanns kæranda með úrskurði í máli hans. Gerð er grein fyrir breytingum á álögðum opinberum gjöldum kæranda gjaldárin 2007 og 2008 í I. kafla hér að framan, þ.e. niðurfelling vaxtabóta gjaldárið 2007 og niðurfelling millifærðs persónuafsláttar frá maka bæði gjaldárin. Í úrskurði ríkisskattstjóra var vakin athygli á ákvæðum 116. gr. laga nr. 90/2003 varðandi ábyrgð hjóna og samskattaðs sambúðarfólks á skattgreiðslum. Í niðurlagi úrskurðarins var svofelld leiðbeining um kæruheimild: „Úrskurður í máli M er kæranlegur til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, í þrjá mánuði frá póstlagningardegi hans. Kæra skal vera skrifleg og henni fylgja gögn og rökstuðningur er sýni hvaða atriði úrskurðarins eru kærð. Frumrit eða afrit úrskurðarins skal fylgja kærunni.“

Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 3. desember 2015, mótmælti kærandi breytingum ríkisskattstjóra og krafðist þess að þær yrðu felldar niður. Kom fram að ríkisskattstjóri hefði ekki tilgreint tímafrest til viðbragða í bréfi sínu, dags. 19. ágúst 2015, og ennfremur hefði ríkisskattstjóri ekki veitt kæranda upplýsingar um málið eða málavexti að öðru leyti áður en tilkynning hefði borist um hækkun opinberra gjalda. Því hefði verið brotið á andmælarétti kæranda. Ennfremur var í bréfi kæranda vikið að tímamörkum til endurákvörðunar opinberra gjalda, sem almennt væru sex ár, en ekkert kæmi fram um það af hálfu ríkisskattstjóra hvers vegna sá frestur gilti ekki gagnvart kæranda. Þá mótmælti kærandi því að ekkert kæmi fram um kæruheimild hennar, hvorki til ríkisskattstjóra né til yfirskattanefndar, í úrskurði ríkisskattstjóra.

Ríkisskattstjóri svaraði kæranda með tölvupósti 14. desember 2015, og ítrekaði að um væri að ræða breytingar sem leiddu beint af breytingum sem gerðar hefðu verið á skattframtölum og opinberum gjöldum fyrrverandi sambýlismanns hennar, M, en kærandi og M hefðu verið í óvígðri sambúð frá ... október 1999 til ... júlí 2012. Þá hefðu þau talið fram sameiginlega til skatts og verið samsköttuð umrædd ár. Ríkisskattstjóri rakti ákvæði 62. gr. laga nr. 90/2003 og 67. gr. sömu laga um ráðstöfun persónuafsláttar á milli hjóna og sambúðarfólks. Fyrrverandi sambýlismaður kæranda hefði ekki gefið upp neinar tekjur á skattframtölum árin 2007 og 2008, og því hefði allur ónotaður persónuafsláttur hans gengið upp á móti opinberum gjöldum kæranda við álagningu viðkomandi ár. Rannsókn skattrannsóknarstjóra hefði leitt í ljós að fyrrverandi sambýlismaður kæranda hefði verið við veiðar við strendur Máritaníu og Marokko og fengið greiðslur fyrir þau störf sem ekki hefðu verið gefnar upp í skattframtölum hans. Með endurákvörðun sinni, dags. 29. október 2015, í máli fyrrverandi sambýlismanns kæranda, hefði ríkisskattstjóri fært umræddar tekjur til tekna í skattframtölum hans og endurákvarðað opinber gjöld til samræmis. Við þessa breytingu nýttist persónuafsláttur hans á móti tekjum hans og það ylli því að sá persónuafsláttur sem kærandi hefði fengið millifærðan frá maka gengi til baka og gengi því ekki lengur upp á móti þeim tekjuskatti sem henni hefði borið að standa skil á vegna tekna þessi ár. Sama ætti við um ákvarðaðar vaxtabætur. Þá vísaði ríkisskattstjóri til 116. gr. laga nr. 90/2003 um gagnkvæma ábyrgð hjóna og sambúðarfólks á skattgreiðslum. Vegna athugasemda kæranda um tímamörk endurákvörðunar rakti ríkisskattstjóri ákvæði 3. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003, en þar kæmi fram að heimild til endurákvörðunar reiknaðist frá byrjun þess árs þegar rannsókn við embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins hæfist. Í máli fyrrverandi sambýlismanns kæranda hefði rannsókn hafist hinn 20. desember 2012. Vegna athugasemda um andmælarétt tók ríkisskattstjóri fram að sakarefnið hefði ekki varðað kæranda með öðrum hætti en leiddi af lagareglum um skattlagningu hjóna og sambúðarfólks. Því hefði ríkisskattstjóra ekki borið að veita kæranda sem maka sérstakan andmælarétt í tilefni af fyrirhugaðri endurákvörðun ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum hans. Að lokum tók ríkisskattstjóri fram að ítrekað væri að í tilviki kæranda væri „um afleiddar breytingar vegna breytinga á skattskilum og opinberum gjöldum maka að ræða og þeim er ekki unnt að hnekkja nema breytingar verði gerðar á breytingum hans. Þú hefur þó sama kærurétt og hann og getur kært úrskurð ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar innan þriggja mánaða frá dagsetningu hans, eða til 29. janúar 2015 (sic)“.

Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 30. desember 2015, mótmælti kærandi enn breytingum embættisins á opinberum gjöldum hennar. Kvaðst kærandi telja að sú breyting sem gerð hefði verið á tekjuskatti hennar og tilkynnt hefði verið um með bréfi, dags. 29. október 2015, félli undir breytingu samkvæmt 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og hefði því borið að tilkynna kæranda um hana og veita andmælafrest. Ekki væri að finna í lögum um tekjuskatt umfjöllun um kærurétt í málum sem þessum. Því væri gerð krafa um að litið yrði á bréf kæranda, dags. 3. desember 2015, sem kæru sem fengi afgreiðslu hjá ríkisskattstjóra sem væri kæranleg til yfirskattanefndar.

Ríkisskattstjóri svaraði bréfi kæranda með tölvupósti 21. janúar 2016 og áréttaði áður fram komna afstöðu sína. Vegna umfjöllunar kæranda um andmælarétt hennar tók ríkisskattstjóri fram að ekki hefði verið skylt að veita kæranda sérstakan andmælarétt í tilefni af fyrirhugaðri endurákvörðun ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum fyrrverandi maka, svo sem yfirskattanefnd hefði staðfest m.a. með úrskurði nr. 19/2002. Allt að einu hefði ríkisskattstjóri veitt kæranda andmælarétt. Þá áréttaði ríkisskattstjóri að kærandi gæti kært úrskurð ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar innan þriggja mánaða kærufrests.

Með bréfum, dags. 21. og 26. janúar 2016, gerði kærandi enn athugasemdir við svör og skýringar ríkisskattstjóra. Af hálfu ríkisskattstjóra var þessum athugasemdum kæranda svarað með tölvupóstum 21. og 28. janúar 2016, þar sem ríkisskattstjóri ítrekaði sjónarmið sín.

III.

Með kæru, dags. 28. janúar 2016, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 29. október 2015, til yfirskattanefndar. Með bréfi, dags. 29. febrúar 2016, hefur kærandi gert nánari grein fyrir kæruatriðum. Er þess krafist af hálfu kæranda að breytingar á áður álögðum opinberum gjöldum hennar samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra verði felldar úr gildi.

Til stuðnings kröfu sinni tiltekur kærandi að henni hafi ekki verið veittur andmælaréttur eða frestur til andmæla tilgreindur samkvæmt bréfi ríkisskattstjóra, dags. 19. ágúst 2015, þar sem boðuð sé breyting opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2011 á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum M, fyrrverandi sambýlismanns kæranda. Hins vegar hafi ríkisskattstjóri í bréfi sínu getið um andmælarétt M. Af þessum sökum hafi kærandi ekki svarað bréfi ríkisskattstjóra, enda hafi sú staða verið uppi að árið 2010, sem ríkisskattstjóri hafi nefnt, hafi sambúð þeirra M verið lokið þó skráning þess hafi ekki átt sér stað fyrr en á árinu 2012.

Einnig vísar kærandi til þess að henni hafi ekki borist upplýsingar eða tilkynning frá ríkisskattstjóra um að rannsókn stæði yfir á skattframtali hennar, en að mati kæranda sé það forsenda þess að afturvirk breyting geti tekið til svo langs tíma sem raun beri vitni. Kynna þurfi skattaðila breytingar með ákveðnum hætti, sbr. 97. gr. laga nr. 90/2003, en opinberum gjöldum kæranda hafi verið breytt átta og níu ár aftur í tímann án nokkurra tilkynninga. Meðal annars af þessari ástæðu hafi endurákvörðunin ekki lagastoð og beri því að fella hana niður.

Ennfremur hafi ríkisskattstjóra borið að upplýsa kæranda sérstaklega um upphaf rannsóknar í máli fyrrum sambýlismanns kæranda þar sem ríkisskattstjóra hafi mátt vera ljóst að samsköttun hafi þá verið lokið. Þá hafi ríkisskattstjóri takmarkað aðgang kæranda að gögnum málsins og hafi hún því ekki haft forsendur til að gera málefnalegar athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar. Einu efnislegu upplýsingarnar hafi borist kæranda með tölvupóstum ríkisskattstjóra 19. ágúst og 29. október 2015 sem hafi þó aðeins að litlu leyti varðað málsatvik. Vegna tilvísunar ríkisskattstjóra til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 19/2002 tekur kærandi fram að ekki verði séð að sá úrskurður hafi fordæmisgildi í málinu þar sem breytingar í því máli hafi verið gerðar innan þeirra tímamarka sem 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 kveði á um.

IV.

Með bréfi, dags. 18. apríl 2016, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna. Í umsögninni er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 20. apríl 2014, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og henni gefinn kostur á að tjá sig af því tilefni og að leggja fram frekari gögn í málinu, ef hún teldi ástæðu til. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Mál þetta varðar endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2007 og 2008 samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 29. október 2015. Hér að framan, sbr. I. kafla, er gerð grein fyrir þeim breytingum á opinberum gjöldum kæranda gjaldárin 2007 og 2008 sem gerðar voru með greindum úrskurði um endurákvörðun. Þar var í fyrsta lagi um að ræða niðurfellingu áður ákvarðaðra vaxtabóta kæranda gjaldárið 2007. Í öðru lagi var millifærður skattafsláttur frá maka kæranda gjaldárin 2007 og 2008 felldur niður með tilheyrandi hækkun tekjuskatts kæranda. Tildrög breytinga þessara voru þau að í framhaldi af rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum fyrrverandi sambýlismanns kæranda, M, tekjuárin 2006 og 2007, sem beindist einkum að tekjum sem hann var talinn hafa aflað með vinnu við sjómennsku erlendis, sbr. skýrslu skattrannsóknarstjóra, dags. 27. febrúar 2015, fór fram endurákvörðun opinberra gjalda M gjaldárin 2007 og 2008 af hálfu ríkisskattstjóra, sbr. úrskurð, dags. 29. október 2015, í kjölfar boðunarbréfs, dags. 19. ágúst 2015. Með endurákvörðuninni færði ríkisskattstjóri, á grundvelli rannsóknarinnar, fyrrverandi sambýlismanni kæranda til tekna vanframtaldar tekjur umrædd tekjuár.

Áður en ríkisskattstjóri kvað upp hinn kærða úrskurð um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda, dags. 29. október 2015, ritaði hann kæranda bréf, dags. 19. ágúst 2015, svo sem rakið er í kafla II að framan. Eins og þar kemur fram kom fram í bréfinu að fyrirhugað væri með vísan til 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 96. gr. sömu laga, að endurákvarða opinber gjöld hennar gjaldárin 2007 og 2008. Texti í meginmáli bréfsins var þó misvísandi að þessu leyti þar sem ráða mátti af honum að áformuð væri breyting á opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 2011. Telja verður að hér hafi verið um misritun að ræða sem út af fyrir sig getur ekki hafa villt um fyrir kæranda eða tálmað henni á annan hátt að gæta réttar síns. Í bréfi ríkisskattstjóra kom fram að fyrirhugaðar breytingar á opinberum gjöldum kæranda leiddu beint af breytingum sem ríkisskattstjóri hygðist gera á skattframtölum fyrrverandi sambýlismanns hennar á grundvelli skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 27. febrúar 2015. Þá gerði ríkisskattstjóri nánari grein fyrir hinum boðuðu breytingum sem vörðuðu niðurfellingu vaxtabóta gjaldárið 2007 og niðurfellingu millifærðs skattafsláttar frá maka gjaldárin 2007 og 2008. Í bréfinu kom fram sá fyrirvari af hálfu ríkisskattstjóra að þessar breytingar yrðu gerðar ef fyrirhugaðar breytingar á skattframtali sambýlismanns kæranda kæmu til framkvæmda með þeim hætti sem honum hefði verið boðað. Í niðurlagi bréfsins voru svofelldar leiðbeiningar um andmælarétt málsaðila: „Svo sem að framan greinir er hér um að ræða breytingar sem leiða af endurákvörðun á gjöldum fyrrv. maka yðar M. Andmælaréttur hans vegna boðunarbréfs, dags. í dag, er til 10. september 2015.“

Í 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 22. gr. laga nr. 136/2009, er kveðið svo á að sé gerð breyting á framtali eða sköttum eftir álagningu eða fari fram ný skattákvörðun, sbr. 1. og 2. mgr. greinarinnar, skuli ríkisskattstjóri gera skattaðila eða þeim sem framtalsskyldan hvílir á viðvart um fyrirhugaðar breytingar og af hvaða ástæðum þær eru gerðar og senda tilkynningu um það skriflega. Skal ríkisskattstjóri veita skattaðila a.m.k. 15 daga frest, frá póstlagningu tilkynningar um fyrirhugaðar breytingar, til að tjá sig um efni máls og leggja fram viðbótargögn áður en úrskurður er kveðinn upp. Ríkisskattstjóri skal innan tveggja mánaða að jafnaði kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðun álagningar og senda hann í ábyrgðarbréfi, almennri póstsendingu eða rafrænt til skattaðila eða þess sem framtalsskyldan hvílir á, sbr. 5. mgr. 96. gr. laganna.

Fram er komið að kærandi og M voru í sambúð á árunum 2006 og 2007 og skiluðu þau sameiginlegum skattframtölum árin 2007 og 2008. Óvígðri sambúð þeirra var slitið ... júlí 2012 samkvæmt því sem fært var í þjóðskrá ... ágúst sama ár. Í úrskurðaframkvæmd hefur verið talið að við aðstæður sem þessar og þegar breyting verður á áður álögðum gjöldum manns vegna hækkunar á tekjuskattsstofni fyrrverandi maka hans eða öðrum breytingum á skattskilum síðarnefnds skattaðila beri að gefa hinum fyrrnefnda aðila kost á að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar, sbr. fyrrgreint ákvæði 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Má um þetta vísa til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 536/1998 sem m.a. er birtur á vef yfirskattanefndar. Vegna umfjöllunar ríkisskattstjóra um úrskurð yfirskattanefndar nr. 19/2002 í þessu sambandi skal tekið fram að atvik í því máli voru með öðrum hætti, enda var þar um að ræða breytingar ríkisskattstjóra á vaxtabótum og barnabótaauka hjóna sem samvistum voru þegar breytingar voru boðaðar þeim maka sem skattákvörðun laut að.

Fallast verður á það með kæranda að athugasemd í niðurlagi bréfs ríkisskattstjóra, dags. 19. ágúst 2015, verður ekki skilin sem áskorun til kæranda um að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar á álögðum opinberum gjöldum hennar innan tilgreinds frests, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, en kærandi kveðst ekki hafa litið svo á að um slíkt væri að ræða. Liggur og fyrir að kærandi gerði engar athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar þótt í ljós hafi komið að úrskurði ríkisskattstjóra gengnum að hún hafði ýmsar mótbárur fram að færa. Þótt kæranda hafi naumast getað dulist hvað í vændum var, þegar litið er í heild til bréfs ríkisskattstjóra, hvað sem leið misritun og fyrirvara í bréfi þessu, verður allt að einu að telja að slíkur misbrestur hafi verið á leiðbeiningum ríkisskattstjóra um heimild kæranda til að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar að lögmæltur andmælaréttur kæranda hafi verið fyrir borð borinn, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og að málið hafi þannig ekki verið upplýst nægilega áður en ríkisskattstjóri tók hina kærðu ákvörðun, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að þessu athuguðu þykir bera að fella hina kærðu endurákvörðun á opinberum gjöldum kæranda úr gildi.

Það athugist að kæruleiðbeiningar í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 29. október 2015, voru ófullnægjandi og fóru í bága við rótgróna framkvæmd, sbr. m.a. fyrrgreindan úrskurð yfirskattanefndar nr. 536/1998.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Endurákvörðun ríkisskattstjóra 29. október 2015 á opinberum gjöldum kæranda er felld úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja