Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður íbúðarhúsnæðis
  • Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið

Úrskurður nr. 96/2009

Gjaldár 2007

Lög nr. 90/2003, 17. gr. 2. mgr. (brl. nr. 164/2008, 2. gr.)  

Ríkisskattstjóri færði kærendum til tekna söluhagnað vegna sölu íbúðarhúsnæðis á árinu 2006 á þeim grundvelli að lagaheimild skorti til að verða við beiðni kærenda um að færa greindan söluhagnað til lækkunar á stofnverði fasteignar sem þau hefðu keypt í Svíþjóð á sama ári. Í úrskurði yfirskattanefnd kom fram að með lögum nr. 164/2008 hefði heimild aðila til að færa söluhagnað af íbúðarhúsnæði til lækkunar á stofnverði slíks húsnæðis verið breytt með þeim hætti að hún tæki jafnt til íbúðarhúsnæðis sem skattaðili aflaði sér hér á landi og í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Talið var laganýmælið tæki bæði til söluhagnaðar sem myndast hefði á árinu 2008 og söluhagnaðar frá árunum 2006 eða 2007 sem frestað hafði verið að skattleggja. Að þessu athuguðu var fallist á kröfu kærenda.

I.

Málavextir eru þeir að kærendur fluttu til Svíþjóðar í maí 2006. Skattframtali þeirra árið 2007 fylgdi greinargerð um kaup og sölu eigna (RSK 3.02) vegna sölu íbúðar að K-götu á árinu 2006. Var gerð grein fyrir útreikningi söluhagnaðar 7.152.022 kr. vegna íbúðarinnar og fóru kærendur fram á að söluhagnaður færðist til lækkunar á stofnverði íbúðarhúsnæðis sem þau hefðu keypt í Svíþjóð fyrir 2.875.000 sænskar krónur „samkvæmt Evrópudómi C-104/06 Commission / Sveden“ svo sem þar sagði. Með bréfi, dags. 26. júlí 2007, tilkynnti skattstjóri um þá breytingu á skattframtali kæranda að söluhagnaður að fjárhæð 7.152.022 kr. væri færður í reit 522 í framtalinu, enda skorti lagaheimild til að verða við beiðni kærenda um að færa greindan söluhagnað til lækkunar á stofnverði fasteignar sem þau hefðu fest kaup á í Svíþjóð. Var skattframtalið lagt þannig breytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2007.

Af hálfu kærenda var breytingu skattstjóra mótmælt með kæru til skattstjóra sem virðist hafa borist skattstjóra 30. ágúst 2007. Tekið var fram í kærunni að breytingu skattstjóra væri ekki unað, enda væri svipað mál í gangi í Hæstarétti. Þá kom fram að frekari rökstuðningur fyrir kærunni yrði sendur innan tíðar. Með kæruúrskurði, dags. 13. nóvember 2007, vísaði skattstjóri kærunni frá á þeim grundvelli að boðaður rökstuðningur í framhaldi af bráðabirgðakæru hefði ekki borist.

II.

Með kæru, dags. 9. janúar 2008, hafa kærendur skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 13. nóvember 2007, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis á árinu 2006 verði færður til lækkunar á stofnverði íbúðarhúsnæðis sem kærendur hafi keypt í Svíþjóð á sama ári. Er rakið í kærunni að kærendur hafi flutt til Íslands í nóvember 2004 eftir um 10 ára búsetu í Svíþjóð og í framhaldi af því keypt íbúð að K-götu að hluta með peningum sem komið hafi úr sölu eignar þeirra í Svíþjóð. Í ársbyrjun 2006 hafi kærendur ákveðið að selja íbúðina og flytja aftur út og hafi þau keypt íbúð í Svíþjóð fyrir 2.835.000 sænskar krónur. Til stuðnings kröfu kærenda er í kærunni vísað til dóms Evrópudómstólsins „C-104/06 Commission / Sveden“.

III.

Með bréfi, dags. 7. mars 2008, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þar sem kærendur hafa lagt fram ný gögn og rökstuðning í máli þessu og með hliðsjón af þeim lagarökum er búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er þess krafist að kærunni verði vísað til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.“

IV.

Eins og fram er komið fluttu kærendur til Svíþjóðar árið 2006 og seldu á sama ári íbúðarhúsnæði sitt að K-götu. Íbúðina keyptu kærendur á árinu 2004 og er óumdeilt að hagnaður af sölu húsnæðisins sé skattskyldur í hendi kærenda á grundvelli 8. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 1. mgr. 17. gr. sömu laga, enda var eignarhaldstími kærenda skemmri en tiltekið er í ákvæði þessu. Þá er óumdeilt að fjárhæð söluhagnaðar hafi numið 7.152.022 kr., sbr. útreikning söluhagnaðarins á eyðublaði um kaup og sölu eigna (RSK 3.02) sem fylgdi skattframtali kærenda árið 2007. Kærendur keyptu íbúðarhúsnæði í Svíþjóð, sbr. afrit kaupsamnings, dags. 13. apríl 2006, sem fyrir liggur í málinu ..., og er þess krafist í kæru til yfirskattanefndar að söluhagnaður vegna sölu íbúðarhúsnæðisins að K-götu verði færður til lækkunar á stofnverði þeirrar íbúðar í Svíþjóð sem keypt var, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en beiðni þessa efnis, sem kom fram í skattframtali kærenda árið 2007, synjaði skattstjóri á þeim forendum að lagaheimild skorti fyrir greindri meðferð söluhagnaðarins.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003 telst hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis að fullu til skattskyldra tekna á söluári hafi maður átt hið selda húsnæði skemur en tvö ár, en hafi hann átt hið selda í tvö ár eða lengur telst söluhagnaðurinn ekki til skattskyldra tekna, sbr. nánari skilyrði sem sett eru í málsgrein þessari. Í 2. mgr. 17. gr. laganna, svo sem ákvæðið var orðað við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2007, er mælt svo fyrir að maður geti farið fram á frestun söluhagnaðar um tvenn áramót frá söludegi. Kaupi hann annað íbúðarhúsnæði eða hefji byggingu íbúðarhúsnæðis í stað þess selda innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar. Nemi stofnverð hinnar nýju eignar lægri fjárhæð en söluhagnaðinum innan þessara tímamarka telst mismunurinn til skattskyldra tekna á kaupári hinnar nýju eignar. Ef eignarinnar er ekki aflað innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist. Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laganna telst hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis mismunur á söluverði og stofnverði að frádregnum áður fengnum söluhagnaði, sbr. 2. mgr. greinarinnar og 4. mgr. 12. gr.

Með lögum nr. 164, 23. desember 2008 var gerð sú breyting á fyrrgreindu ákvæði 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003 að heimild til að færa söluhagnað af íbúðarhúsnæði til lækkunar á stofnverði slíks húsnæðis, sem skattaðili aflar sér innan tilskilinna tímamarka, tekur jafnt til íbúðarhúsnæðis sem skattaðili aflar sér „hér á landi eða í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum“, sbr. b-lið 2. gr. laga nr. 164/2008. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 164/2008 kemur fram að þessi breyting sé lögð til í kjölfar athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) varðandi þá túlkun á ákvæðum tekjuskattslaga um söluhagnað af íbúðarhúsnæði sem byggt hafi verið á í skattframkvæmd. Umrætt ákvæði laga nr. 164/2008 öðlaðist þegar gildi og kemur til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2009, sbr. 8. gr. laga nr. 164/2008. Ekki kemur annað fram en að þetta laganýmæli taki bæði til söluhagnaðar sem myndast á árinu 2008 og söluhagnaðar frá árunum 2006 eða 2007 sem frestað hefur verið að skattleggja samkvæmt heimild í greindu ákvæði 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003 en ráðstafað er til lækkunar á stofnverði íbúðarhúsnæðis á árunum 2008 eða 2009. Miðað við þetta tekur heimild samkvæmt ákvæðinu til að færa söluhagnað til lækkunar á stofnverði íbúðarhúsnæðis í þargreindum ríkjum m.a. til söluhagnaðar sem myndast hefur á árinu 2006, svo sem var í tilviki kærenda. Að þessu athuguðu er fallist á kröfu kærenda, enda þykir ráðstöfun kærenda á söluhagnaði sínum á því sama ári ekki skipta sköpum í þessu sambandi þegar litið er til þess sem fyrir liggur samkvæmt lögskýringargögnum um ástæður fyrir greindri lagabreytingu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kærenda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja