Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattskyldar tekjur
  • Söluhagnaður lausafjár

Úrskurður nr. 72/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 15. gr. 2. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að í greinargerð um eignabreytingar í skattframtali sínu árið 1990 greindu kærendur frá því að þeir hefðu selt Y sf. þrjá hesta á 290.000 kr. og X hf. ungnaut á 48.810 kr. Með bréfi, dags. 7. maí 1990, boðaði skattstjóri kærendum m.a. að hann hygðist færa þeim til tekna vantaldar afurðatekjur frá X hf. að fjárhæð 50.502 kr. og söluhagnað vegna seldra hesta að fjárhæð 290.000 kr. Af hálfu umboðsmanns kærenda var hinum boðuðu breytingum mótmælt í bréfi, dags. 6. júní 1990. Segir m.a. eftirfarandi í bréfinu:

„A [kærandi] bjó í útjaðri D í tæplega 3 ár. Hann hafði þar hestamennsku að áhugamáli og ekki kom til álita að þar væri um atvinnurekstur að ræða. Í samræmi við það hélt hann ekki saman kostnaði sem til féll og því síður fyllti hann út landbúnaðarskýrslu.

Í sambandi við flutning A norður til E á s.l. ári sá hann ekki ástæðu til að flytja þessa hesta með sér milli landsfjórðunga og losaði sig því við þá.

Þeir sem eitthvað þekkja til hestamennsku vita að hana stunda menn almennt sér til ánægju en ekki sem tekjuöflun, nema síður sé.

Til hliðar við hestamennskuna ól A svo kálf, sem hann ætlaði til einkaneyslu en af sömu ástæðu og hvað varðar sölu hestanna seldi hann bola, þ.e. vegna flutnings norður.“

Með bréfi, dags. 26. júlí 1990, tilkynnti skattstjóri kærendum eftirfarandi breytingar í skattframtali þeirra 1990:

„Fært til tekna kr. 150.000 v/afurðatekna og seldra hesta en engin grein hefur verið gerð fyrir kostnaði og ekki hefur verið getið áður um hestaeign né nautgripaeign á framtali og hefur því kostnaðurinn verið áætlaður kr. 190.502.“

Af hálfu umboðsmanns kærenda var breytingum skattstjóra mótmælt í kæru til skattstjóra, dags. 28. ágúst 1990. Segir í kærunni að kærandi, A, hafi alltaf gert grein fyrir hestaeign sinni í skattframtölum þar til í skattframtali 1989. Honum hefði verið talin trú um að slíkt væri ástæðulaust við framtalsgerð það ár. Til staðfestingar mótmælum sínum vísaði umboðsmaðurinn til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um hagnað af sölu lausafjár sem ekki sé notað í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi og teljist ekki til tekna. Sala á umræddum gripum hafi komið til vegna búferlaflutninga á milli landsfjórðunga og geti ekki á nokkurn hátt talist skattskyld.

Með kæruúrskurði, dags. 12. október 1990, synjaði skattstjóri kröfu kærenda. Segir í kæruúrskurðinum að fullyrðingar kærenda um framtalda gripaeign í fyrri skattframtölum séu rangar. Hvorki væri getið um hrossa- né nautaeign í skattframtali þeirra 1988 fremur en í skattframtali 1989.

II.

Af hálfu umboðsmanns kærenda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 9. nóvember 1990. Vísar umboðsmaðurinn til framkominna skýringa í fyrri bréfum sínum til skattstjóra. Segir ennfremur í kærunni að vegna misminnis kæranda, A, hafi ekki verið farið alveg rétt með hvernig eignfærsla hesta hefði verið í fyrri framtölum. Í því sambandi vísaði hann til nánari skýringa sem komið hefðu fram af kærenda hálfu í bréfi, dags. sama dag, til skattstjóra vegna annarra atriða sem ekki eru til umfjöllunar í kæru þeirra til ríkisskattanefndar. Síðan segir svo í kærubréfinu:

„Svo sem fram kemur í tilgreindum bréfum okkar og kærum hefur A um langt árabil stundað hestamennsku í frístundum sínum og lengst af verið nátengdur hvers konar landbúnaði á margan hátt. Þó svo að hann og B hafi nú á þessu ári fest kaup [á bænum Z] þá hefur hann fram til þessa aldrei litið svo á að um atvinnurekstur hafi verið að ræða. Enda hefur það aldrei flögrað að honum að halda saman kostnaði í þessu sambandi og þykir það súrt í brotið ef skattleggja á tekjur sem nú falla til eftir öll þessi ár. Fyrir utan ánægjuna hefur A aldrei orðið var við annað en gjaldahlið þessarar „starfsemi“. Það gefur auga leið að hefði hann haldið saman útlögðum kostnaði vegna 6 hesta í t.d. 8 - 10 ár og reiknað hann upp eftir verðbreytingarstuðli mundi hann enn standa uppi með „rekstrartap“ þrátt fyrir meintar „tekjur“ árið 1989.

Þó svo að eignfærsla hesta hafi fallið niður á framtölum '88 og '89 og kálfs '89 getur það varla haft þau úrslitaáhrif að skattstjóra sé stætt á því að skattleggja tómstundagaman A loks er hann fær að sjá eitthvað annað en kostnað í því sambandi (6 hestar voru eignfærðir á framtölum '85, '86 og '87) - Nánar vísast til bréfs okkar í dag og leiðréttra skattframtala 1988, 1989 og 1990.

Með vísun til 2. mgr. 15. gr. skattalaga er það krafa þeirra A og B að tekið verði fullt tillit til fram kominna og leiðréttra skattframtala og úrskurður skattstjóra ómerktur með öllu.“

Með bréfi, dags. 30. september 1991, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

III.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Skattstjóri hefur skattlagt kærendur annars vegar vegna hagnaðar af sölu þriggja hrossa og hins vegar vegna afurðatekna af einum bolakálfi. Skattstjóri hefur að álitum að því er virðist leyft kostnaðarfjárhæð til frádráttar við ákvörðun söluhagnaðar og afurðatekna til skatts. Af hálfu kærenda er krafist niðurfellingar á tekjuviðbót skattstjóra með vísan til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Að virtum öllum málavöxtum er fallist á kröfu kærenda að því er tekur til ætlaðs söluhagnaðar af hrossum, enda verður að telja að kærendum hafi tekist að gera líklegt að salan hafi ekki farið fram í hagnaðarskyni.

Skattstjóri hefur byggt á því að kærendur hafi haft afurðatekjur að fjárhæð 50.502 kr. frá X hf. vegna ungnauts. Í skattframtali er tekjufjárhæðin talin 48.810 kr. Ekki eru skýringar á þessum mismun og ekki hafa kærendur andmælt þeirri fjárhæð sem skattstjóri byggði á. Kærendur hafa ekki gert viðhlítandi grein fyrir kostnaði á móti tekjum þessum, enda kemur fram af þeirra hálfu að slíkum kostnaði hafi ekki verið haldið saman. Þrátt fyrir það þykir eins og atvikum er háttað mega byggja á því að kærendur hafi haft nokkurn kostnað vegna umrædds bolakálfs. Eru hreinar tekjur af þessari sölu áætlaðar 25.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Tekjuviðbót vegna ungnauts- og hrossasölu er lækkuð úr 150.000 kr. í 25.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja