Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Innskattur, öflun bifreiðar
  • Kæruheimild

Úrskurður nr. 181/1993

Virðisaukaskattur 1991

Lög nr. 50/1988, 16. gr. 1. og 2. mgr., 33. gr. 1. mgr., 29. gr. (brl. nr. 119/1989, 12. gr.)   Reglugerð nr. 81/1991, 9. gr. 1. mgr.  

I.

Kærð er höfnun skattstjóra á innskatti að fjárhæð 325.082 kr. á virðisaukaskatts­skýrslu kæranda vegna uppgjörstímabilsins júlí-desember 1991.

Kærandi er skráður á virðisaukaskattsskrá vegna búreksturs með skráningarnúmerið ... Með skattframtali hans 1991, sem fyrir liggur í málinu, fylgdi landbúnaðarskýrsla þar sem gerð var grein fyrir 359.425 kr. bústofnseign í árslok 1990 og tekjum á árinu 1990 vegna starfseminnar 448.573 kr. Gjöld alls námu 621.305 kr. Ekki reiknaði kærandi sér endurgjald vegna starfseminnar. Samkvæmt landbúnaðarskýrslu með skattframtali 1992 voru tekjur 496.227 kr. og gjöld 616.511 kr. Ekki reiknaði kærandi sér endurgjald vegna þessa árs. Launatekjur kæranda á skattframtali 1991 voru 1.536.070 kr. og á skattframtali 1992 1.655.390 kr.

Samkvæmt gögnum málsins fór umboðsmaður kæranda þess á leit við skattstjóra með bréfi, dags. 5. nóvember 1991, að honum yrði heimilað aukauppgjör virðisaukaskatts, sbr. 1. mgr. 33. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Gerði hann þá grein fyrir erindinu að kærandi hafi keypt pallbifreið til nota við búrekstur sinn. Með bréfinu fylgdi ljósrit reiknings vegna kaupa kæranda á Toyota bifreið af gerðinni ..., þar sem fram kom virðisaukaskattur að fjárhæð 325.082 kr. Með bréfi, dags. 8. nóvember 1991, óskaði skattstjóri eftir því við kæranda að hann gerði grein fyrir því hvernig öflun og notkun bifreiðarinnar tengdist virðisaukaskattsskyldri starfsemi hans. Svaraði kærandi fyrirspurninni með bréfi, dags. 12. nóvember 1991, á þann veg að bifreiðin væri ætluð til nota við aðdrætti og aðra flutninga sem búrekstri hans fylgi. Jafnframt ætti hann fólksbifreið af tegundinni ... Hinn 20. nóvember 1991 synjaði skattstjóri erindi kæranda á þeim forsendum að þegar litið væri til aðstæðna við búrekstur kæranda og með sérstakri skírskotun til annarrar tekjuöflunar hans og lítils umfangs búrekstursins þætti ekki hafa verið gert líklegt að bifreiðin verði eingöngu notuð vegna sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt.

Á virðisaukaskattsskýrslu fyrir tímabilið júlí-desember 1991, sem árituð er móttekin af skattstjóra 28. febrúar 1992, var tilfærður útskattur 93.499 kr. og innskattur 352.719 kr. Með bréfi, dags. 3. mars 1992, krafði skattstjóri kæranda um ljósrit af þeim gögnum sem lægju til grundvallar fyrrgreindum innskatti. Í svari sínu, dags. 9. mars 1992, vísaði kærandi til gagna sem fyrir lægju hjá skattstjóra vegna umsóknar hans frá því í nóvember 1991 um aukauppgjör á virðisaukaskatti. Hinn 17. mars 1992 tilkynnti skattstjóri kæranda að með tilliti til „aðstæðna við búrekstur yðar og með sérstakri skírskotun til lítils umfangs rekstursins“ væri ekki fallist á innskatt vegna umræddra bifreiðakaupa. Yrði innskattur á skýrslunni 27.637 kr. Með kæru, dags. 24. mars 1992, mótmælti kærandi ákvörðun skattstjóra á þeim forsendum að hann hefði leitað upplýsinga hjá skattstjóra áður en hann festi kaup á bifreiðinni og hefðu þá engin vandkvæði verið talin á innskattsfrádrætti vegna bifreiðarinnar. Með kæruúrskurði, dags. 30. mars 1992, kvað skattstjóri ákvörðun sína standa óbreytta.

II.

Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 9. apríl 1992. Kveður hann umrædda bifreið eingöngu notaða við búrekstur sinn, þótt hann sé ekki umfangsmikill, enda eigi hann fólksbifreið sem hann noti til einkaþarfa. Krefst hann þess að heimilaður verði innskattsfrádráttur vegna kaupa á bifreiðinni.

Með bréfi, dags. 2. október 1992, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjanda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra. Í kröfugerð ríkisskattstjóra segir:

„Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. reglug. nr. 81/1991, um innskatt, er óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af öflun eða leigu vöru- og sendibifreiða með leyfðri heildarþyngd 3.500 kg eða minna nema þær séu eingöngu notaðar vegna sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Kaupverð umræddrar bifreiðar án virðisaukaskatts er meira en þreföld árleg virðisaukaskattsskyld velta kæranda, án virðisaukaskatts, miðað við veltu kæranda á árunum 1990 og 1991. Með bréfi skattstjóra, dags. 8. nóv. 1991, er óskað upplýsinga frá kæranda hvernig öflun og notkun bifreiðarinnar sé háttað auk þess að gera grein fyrir eignarhaldi kæranda á öðrum bifreiðum. Í bréfi kæranda, dags. 12. nóv. 1991, kemur fram að tilgangur með kaupum bifreiðarinnar sé að nota hana við aðdrætti og aðra flutninga sem búrekstrinum fylgja. Auk þess eigi kærandi A bifreið. Með hliðsjón af kaupverði bifreiðarinnar í hlutfalli við umfang rekstrar og af fyrri notum bifreiða kæranda við búrekstur (á landbúnaðarskýrslu vegna ársins 1990 og 10 fyrstu mánuði ársins 1991 er 15% af rekstrarkostnaði tiltekinnar bifreiðar kæranda færður á búrekstur) verður að telja að bifreiðin hafi ekki eingöngu verið keypt til notkunar við skattskylda starfsemi kæranda.“

III.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, telst til innskatts á hverju uppgjörstímabili virðisaukaskattur af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar er fjármálaráðherra heimilað að setja reglur um að til innskatts megi telja ákveðinn hluta af virðisaukaskatti innkaupa sem ekki varða eingöngu sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Reglur um það efni er að finna í reglugerð nr. 81/1991, um innskatt. Samkvæmt þeim er að meginstefnu til heimilt að telja til innskatts hluta virðisaukaskatts af innkaupum af þessu tagi. Þó er í 9. gr. reglugerðarinnar sú undantekning gerð að því er varðar ökutæki af tilteknu tagi að óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna öflunar eða leigu þeirra nema þau séu eingöngu notuð vegna sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu, sbr. upphafsmálslið greinarinnar. Er óumdeilt að bifreið kæranda fellur að því er gerð og búnað varðar undir ákvæði þessarar greinar. Kærandi heldur því fram að umrædd bifreið hans sé eingöngu notuð við búrekstur hans og sé þannig framangreindu skilyrði um notkun bifreiðarinnar fullnægt. Skattstjóri og ríkisskattstjóri hafa hins vegar teflt því fram að ólíklegt sé, að teknu tilliti til lítils umfangs reksturs kæranda og annarra aðstæðna hans, að skilyrði upphafsmálsliðar 9. gr. reglugerðar nr. 81/1991 sé uppfyllt í tilviki hans.

Að virtu eðli og umfangi reksturs kæranda verður að telja ósennilegt að ekki sé um meiri eða minni einkanot að ræða af bifreið þeirri sem í málinu greinir. Hefur kærandi ekki leitt neitt það fram í málinu sem gerir aðra niðurstöðu líklega. Er kröfu hans því synjað.

Það er að athuga við málsmeðferð skattstjóra að í bréfi hans, dags. 20. nóvember 1991, er hann synjaði kæranda um aukauppgjör virðisaukaskatts, var ekki getið um kærurétt til skattstjóra, en rétt þykir að líta svo á að ákvörðun skattstjóra af þessu tagi sé kæranleg eftir reglum 29. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, sbr. og lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja