Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Áætlun

Úrskurður nr. 615/1993

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul., 31. gr. 1. tölul.  

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 26. mars 1991, krafði skattstjóri kæranda, sem rekur umboðs- og heildverslun, skýringa og gagna vegna gjaldfærðs kostnaðar í rekstrarreikningi hans fyrir árið 1989. Umboðsmaður kæranda gerði grein fyrir hinum umspurðu atriðum í bréfi, dags. 3. apríl 1991. Bréfinu fylgdi einnig greinargerð kæranda sjálfs. Skattstjóri boðaði kæranda breytingar á tilteknum gjaldaliðum með bréfi, dags. 15. ágúst 1991. Að fengnu svarbréfi umboðsmanns, dags. 20. ágúst 1991, tilkynnti skattstjóri kæranda um lækkun tilgreindra kostnaðarliða í rekstrarreikningi hans 1989. Leiddi breyting skattstjóra til þess að rekstrarhagnaður hækkaði úr 361.197 kr. í 1.002.260 kr. Umboðsmaður kæranda mótmælti breytingum skattstjóra í kæru, dags. 5. nóvember 1991. Í kæruúrskurði, dags. 20. desember 1991, féllst skattstjóri á breytingu á einum kostnaðarlið og leiddi það til þess að rekstrarhagnaður varð alls 994.365 kr., en synjaði að öðru leyti kröfum kæranda.

Umboðsmaður kæranda skaut kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 16. janúar 1992. Varðandi rökstuðning og kæruatriði var vísað til bréfs, dags. 5. nóvember 1991.

Kæruefni þessa máls eru eftirfarandi:

1. Sími, telefaxtæki, farsími og burðargjöld. Í rekstrarreikningi gjaldfærði kærandi 415.028 kr. undir þessum gjaldalið, þar á meðal kostnað vegna heimasíma 22.187 kr. Fram er komið af kæranda hálfu að ýmis símtöl þurfi að inna af hendi utan skrifstofutíma, auk þess sem tímamismunur milli Íslands og helstu viðskiptalanda geri notkun heimasíma í þágu reksturs óhjákvæmilegan. Skattstjóri féllst á gjaldfærslu helmings kostnaðar vegna umframskrefa, en taldi að þar sem kærandi hefði fullan aðgang að síma á vinnustað og í bifreið, þá teldist kostnaður vegna heimasíma umfram það í eigin þágu. Í kæru til skattstjóra, dags. 5. nóvember 1991, er mótmælt niðurfellingu kostnaðar vegna heimasíma og lögð fram ljósrit reikninga vegna viðkomandi síma.

2. Ferðakostnaður erlendis. Í rekstrarreikningi gjaldfærði kærandi 754.194 kr. undir þessum gjaldalið. Kærandi lagði fram ferðakostnaðarreikninga og gerði grein fyrir því að um væri að ræða fimm ferðir erlendis. Fram er komið að í þessum gjaldalið fólst m.a. kostnaður vegna ferðar M, verslunar- og innkaupastjóra X hf., sem fór með kæranda í eina af ferðunum. Nam kostnaður vegna M 66.444 kr. auk dagpeninga. Hefur kærandi upplýst að X hf. sé stærsti söluaðili á umboðsvörum kæranda. Í ferðinni hafi verið farið á vörusýningar þar sem kynntar hafi verið helstu nýjungar. Því hafi hér verið um eðlilegan rekstrarkostnað að ræða. Skattstjóri féllst á gjaldfærslu samkvæmt reikningum vegna fargjalda, notkunar bílaleigubíla og hótelkostnaðar kæranda og M. Hins vegar féllst skattstjóri ekki á gjaldfærslu reiknaðra dagpeninga vegna kæranda og fyrrnefnds M, auk tilgreinds kostnaðar sem ekki er ágreiningur um. Voru forsendur skattstjóra þær að einungis sé heimilt að gjaldfæra dagpeninga vegna launþega. Allur kostnaður vegna sjálfstæðs atvinnurekstrar sem færður sé til frádráttar í rekstrarreikningi, þar með talinn ferðakostnaður hverskonar, skuli studdur gildum og áreiðanlegum bókhaldsgögnum. Kærandi hafi ekki hagað gjaldfærslum sínum á þann hátt heldur fært útreiknaða dagpeninga samkvæmt leiðbeiningum ríkisskattstjóra sem kostnað vegna utanlandsferða sinna árið 1989. Synjun skattstjóra á gjaldfærslu dagpeninga vegna M byggðist á því að hann hefði ekki verið starfsmaður kæranda. Í kæru til skattstjóra, dags. 5. nóvember 1991, segir um þennan kærulið:

„Reglur ríkisskattstjóra um dagpeninga á ferðalögum erlendis eru almennt notaðar bæði í opinberum rekstri og einkarekstri, jafnt vegna launþega, sem yfirmanna og sjálfstæðra atvinnurekenda, enda eru þær til mikillar einföldunar við uppgjör á þessum kostnaði. Að fella niður dagpeninga í þessu tilfelli á þeirri forsendu að hér sé ekki um launþega að ræða heldur sjálfstæðan atvinnurekanda er alveg út í hött, enda segir það sig sjálft að ferðalögum erlendis fylgir uppihaldskostnaður og ferðakostnaður á viðkomandi stað, hvort sem um launþega eða sjálfstæðan atvinnurekanda er að ræða, enda er það viðurkennt að hér sé um viðskiptaferðir að ræða.

Jafnframt mótmælum við harðlega að þessi kostnaður sé ekki studdur gildum og áreiðanlegum bókhaldsgögnum, þar sem greiðsla dagpeninganna var rækilega sundurliðuð á sérstökum ferðakostnaðareyðublöðum með sama hætti og almennt á sér stað hjá opinberum aðilum og einkafyrirtækjum. Það skal einnig upplýst að það tíðkast ekki hjá þessum aðilum að starfsmenn skili til þeirra reikningum yfir hótel eða fæðiskostnað þegar þeir fá greidda dagpeninga vegna ferðalaga erlendis. Í bókhaldi opinberra aðila eða einkafyrirtækja er því ekki að finna önnur bókhaldsgögn en þau sem umbjóðandi okkar notar í sínu bókhaldi.

Frádráttarbærar dagpeningagreiðslur nema kr. 277.062 vegna kæranda, sbr. yfirlit um dagpeningagreiðslur RSK 3.11, og kr. 87.609 vegna M eða samtals kr. 364.671.“

Í bréfi, dags. 14. maí 1993, hefur ríkisskattstjóri gert þær kröfur fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Um 1. tl. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að honum beri frádráttur vegna meiri kostnaðar samkvæmt þessum gjaldalið en skattstjóri hefur þegar fallist á.

Um 2. tl. Greiðslur þær sem um er deilt eru vegna kæranda sjálfs og M. Ákvæði 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um dagpeninga taka til ferða launþega á vegum vinnuveitanda en um frádrátt frá tekjum í atvinnurekstri fer eftir ákvæðum 31. gr. tilvitnaðra laga. Með þessum athugasemdum er úrskurður skattstjóra staðfestur um þetta kæruatriði að því er varðar frádrátt umræddra greiðslna vegna kæranda sjálfs frá rekstrartekjum hans. Á því þykir mega byggja í málinu, svo sem skattstjóri hefur fallist á, að M hafi farið tilgreinda ferð á vegum kæranda og í þágu atvinnurekstrar hans. Ekki er vefengt að kærandi hafi borið kostnað vegna ferðar M umfram það sem skattstjóri hefur þegar fallist á. Eftir atvikum þykir því mega fallast á gjaldfærslu hinnar umþrættu fjárhæðar 87.009 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á hækkun gjaldfærslu ferðakostnaðar að fjárhæð 87.009 kr. Kröfum kæranda varðandi önnur atriði er synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja