Úrskurður yfirskattanefndar

  • Teknategund
  • Húsaleigutekjur

Úrskurður nr. 690/1993

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 7. gr. C-liður 2. tölul., 30. gr. 2. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að á landbúnaðarskýrslu (RSK 4.07) sem fylgdi skattframtali 1990 færðu kærendur húsaleigutekjur að fjárhæð 120.000 kr. Með bréfi, dags. 15. apríl 1991, óskaði skattstjóri skýringa varðandi tekjuliðinn. Skattstjóri gat þess í bréfi sínu að greiðslu fyrir íbúðarhúsnæði bæri að tekjufæra í lið 8.1 á skattframtali. Í svarbréfi kæranda, dags. 27. apríl 1991, kom fram að um væri að ræða leigugreiðslu frá X fyrir íbúðarhús kæranda á jörðinni Y. Leigutími hafi verið júní, júlí og ágúst og heildarleiga 120.000 kr. Innifalið í leigufjárhæð hafi verið ljós og hiti. Skattstjóri boðaði kærendum með bréfi, dags. 17. desember 1991, að húsaleigutekjur 120.000 kr. yrðu felldar af landbúnaðarskýrslu og færðar í reit 72 á skattframtali. Með tilkynningu, dags. 7. febrúar 1992, framkvæmdi skattstjóri hina boðuðu breytingu, en ekki hefðu borist mótmæli af hálfu kærenda. Kærendur mótmæltu breytingu skattstjóra með kæru, dags. 6. mars 1992. Í bréfi dags., 14. mars 1992, gerðu kærendur nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum. Töldu þau breytingu skattstjóra órökstudda. Kom fram að þegar jörðin Y var keypt áttu kærendur eigið íbúðarhús á jörðinni Z og því hafi þau ekki nýtt íbúðarhúsið að Y til íbúðar. Húsið í Y hafi hins vegar frá upphafi verið nýtt við búreksturinn, m.a. hafi kærendur þar vinnuaðstöðu. Kærendum hafi boðist tækifæri til að leigja húsið í þrjá mánuði. Hafi þau talið rétt að færa tekjurnar sem ýmsar tekjur á landbúnaðarskýrslu, eins og aðrar tekjur af jörðinni. Kröfðust þeir þess að framtal yrði fært til fyrra horfs. Til vara fóru kærendur fram á að fá tækifæri til að gera grein fyrir kostnaði á móti umræddum tekjum. Kom fram að innifalið í leigunni var rafmagn og hiti, sem færður hefði verið til gjalda á landbúnaðarframtali, einnig fasteignagjöld, tryggingar og viðhald. Skattstjóri synjaði kröfu kærenda með kæruúrskurði, dags. 27. mars 1992. Voru forsendur skattstjóra þær að leigutekjur teldust til tekna sem skattskyldar væru skv. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 og færa bæri í lið 8.1 á skattframtali. Samkvæmt kærubréfi væri reksturskostnaður íbúðarhúsnæðisins gjaldfærður á landbúnaðarskýrslu. Engin frekari grein hefði verið gerð fyrir kostnaðinum.

Kærendur skutu kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 21. apríl 1992. Koma þar fram sömu sjónarmið og í kæru til skattstjóra. Þau telja ákvörðun skattstjóra órökstudda. Ekki sé ágreiningur um að færa skuli tekjurnar til tekna, aðeins um það hvar það skuli gera. Þá hafi skattstjóri ekki gefið kærendum kost á að skila sérstöku rekstraryfirliti vegna leiguteknanna. Í kæru segir ennfremur:

„Heimilt er að færa beinan kostnað við öflun tekna, til dæmis leigu húsnæðis, til frádráttar tekjunum skv. B-lið 30. gr. skattalaga. Við höfum kosið að færa tekjurnar á landbúnaðarframtal og gjöldin á móti vegna þess hvað rekstur fasteignanna, þ.á m. íbúðarhússins, og búsins í Y er nátengdur, eins og lýst hefur verið. Meðal annars getur verið erfitt í einstaka tilvikum að sundurgreina kostnað.“

Fara kærendur fram á að framtal verði fært í fyrra horf. Fallist ríkisskattanefnd ekki á aðalkröfu kærenda fara þau fram á að meðfylgjandi rekstraryfirlit verði lagt til grundvallar álagningu. Á rekstraryfirliti sem fylgir kærunni gera kærendur grein fyrir kostnaði vegna útleigu íbúðarhússins að upphæð 125.559 kr. Kemur fram að kostnaður þessi hafi verið færður á landbúnaðarskýrslu og því þurfi að leiðrétta viðkomandi liði á skýrslunni.

Með bréfi, dags. 28. júlí 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur og athugasemdir í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans sbr. 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum.

Jafnframt er fallist á þá kröfu kæranda að til frádráttar umræddum tekjum komi kostnaður sbr. rekstraryfirlit í kærubréfi, sbr. B-lið 30. gr. ofangreindra laga.“

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Kærendur búa að Z, en stunda búrekstur á jörðinni Y. Fram er komið að þau hafa ekki nýtt íbúðarhúsið í Y til íbúðar, en telja eignina notaða við búreksturinn, m.a. hafi þau vinnuaðstöðu þar. Í skattskilum sínum hafa kærendur hins vegar fært íbúðarhúsið til eignar í lið 10.1 í persónuframtali. Að því virtu verður ekki fallist á að tekjur þeirra af útleigu hússins tilheyri búrekstri þeirra. Er aðalkröfu kærenda því hafnað. Fallist er á varakröfu með 54.370 kr. sem er sá beini kostnaður sem kærendur hafa gert grein fyrir vegna öflunar umræddra tekna, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, en kostnaður við endurbætur eignarinnar fellur ekki hér undir. Lækkar gjaldahlið landbúnaðarskýrslu um sömu fjárhæð, en ekki þykir alveg liggja ljóst fyrir að annar kostnaður, sem gerð er grein fyrir í kæru til ríkisskattanefndar, hafi ekki fallið til vegna búrekstrar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Tekjur í reit 72 á framtali lækka í 65.630 kr. Yfirfæranlegt tap á landbúnaðarskýrslu verður 116.293 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja