Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattskyldar tekjur
  • Eigin vinna við byggingu íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 1078/1993

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul., 28. gr. 4. tölul.  

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kærenda 1992 fylgdi húsbyggingarskýrsla vegna einbýlishúss. Á skýrslunni var gerð grein fyrir eigin aukavinnu að verðmæti 313.500 kr. og annarri eigin vinnu og gjafavinnu að verðmæti 309.600 kr. Með bréfi, dags. 24. júlí 1992, tilkynnti skattstjóri kærendum, sbr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að fyrrgreind önnur eigin vinna og gjafavinna 309.600 kr. hefði verið færð til tekna í reit 77 á framtali kærenda. Vísaði hann einnig í leiðbeiningar á bakhlið skýrslueyðublaðsins.

Umboðsmaður kærenda mótmælti gerðri breytingu með kæru til skattstjóra, dags. 15. ágúst 1992. Kom fram í kærunni að kærendur hefðu ekki gert sér grein fyrir ákvæðum laga varðandi E-lið húsbyggingarskýrslu og væri framtalin „önnur eigin vinna og gjafavinna“ unnin utan vinnutíma af aðstandendum kærenda og ætti því að telja hana í lið D á skýrslunni. Væri hún því ekki skattskyld fyrr en við sölu ef svo kynni að fara.

Skattstjóri hafnaði kröfum kærenda með kæruúrskurði, dags. 18. nóvember 1992. Hefðu kærendur á húsbyggingarskýrslu gert skilmerkilega grein fyrir annars vegar eigin aukavinnu og hins vegar annarri eigin vinnu og gjafavinnu við húsbyggingu sína. Í lið D bæri að telja eigin aukavinnu húsbyggjanda, maka hans og barna en í lið E eigin vinnu sömu aðila í venjulegum vinnutíma sem og vinnu annarra, þ.m.t. skiptivinnu. Kærendur hefðu ekki gert þá grein fyrir hvað væri rangt við útfyllingu skýrslunnar að unnt væri að fallast á að umrædd vinna væri að öllu leyti skattfrjáls sem eigin aukavinna.

Umboðsmaður kærenda hefur skotið úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 8. desember 1992. Kveðst hann hafa skýrt það í kæru til skattstjóra að umrædd vinna hafi verið unnið af aðstandendum kærenda utan vinnutíma og hefði því átt að færa hana í lið D á húsbyggingarskýrslu samkvæmt leiðbeiningum ríkisskattstjóra. Kveðst umboðsmaðurinn ekki hafa fundið þeim leiðbeiningum stoð í lögum og telur úrskurð skattstjóra byggja á að umdeild fjárhæð hafi verið færð í rangan reit. Kveðst hann ekki hafa fundið ákvæði í lögum um að gjafavinna eins og hér um ræðir sé skattskyld nema við sölu innan fimm ára.

Með bréfi, dags. 4. júní 1993, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Samkvæmt ákvæðum 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, teljast hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs, til skattskyldra tekna séu þær eigi sérstaklega undanskildar í þeim lögum eða sérlögum. Í 4. tl. 28. gr. nefndra laga er tilgreint að eignaauki sem stafar af aukavinnu sem maður leggur fram utan venjulegs vinnutíma við byggingu íbúðarhúsnæðis til eigin afnota skuli ekki talin til tekna, sbr. þó 2. ml. töluliðsins. Ekki verður fallist á að umþrætt vinna aðstandenda kærenda verði felld undir nefnt undanþáguákvæði 4. tl. 28. gr. Með þessum athugasemdum ber að staðfesta úrskurð skattstjóra.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Úrskurður skattstjóra er staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja