Úrskurður yfirskattanefndar

  • Verðbætur á mismun álagningar og staðgreiðslu
  • Kæranleg skattákvörðun

Úrskurður nr. 1177/1993

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 121. gr.  

I.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 19. nóvember 1991, er þess krafist að niður verði felldar verðbætur 8.856 kr. á ógreiddan tekjuskatt samkvæmt álagningarseðli 1991. Í kæru til skattstjóra, dags. 26. ágúst 1991, sem vísað er til í kæru til ríkisskattanefndar, er krafan rökstudd þannig:

„Með lögum nr. 36/1991, frá 2. apríl 1991 var hámark tillags í fjárfestingarsjóð lækkað úr 15% í 10%. Umbjóðandi minn lauk framtalsgerð áður en þessi breyting kom til og greiddi fjárhæð sem nægja átti til lúkningar væntanlegri álagningu tekjuskatts og útsvars af öðrum tekjum en launatekjum, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 45/1987 með síðari breytingum, sbr. einnig 3. mgr. 121. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum.

Í áður tilvitnaðri lagagrein laga nr. 45/1987 er mönnum sem njóta annarra tekna en launatekna gert kleift að greiða fyrir 31. janúar næstan á eftir staðgreiðsluári fjárhæð er nægi til lúkningar væntanlegri álagningu tekjuskatts og útsvars og komast þannig hjá greiðslu verðbóta á tekjuskatt og útsvar.

Umbjóðandi minn gerði einmitt þetta í samræmi við ákvæði laganna og vildi með því móti sleppa við álagningu verðbóta á tekjuskatt og útsvar. Eftir að umbjóðandi minn lauk sinni framtalsgerð og hafði greitt staðgreiðslu opinberra gjalda af rekstrarhagnaði breytti hið háa Alþingi lögum um tekju- og eignarskatt, m.a. þannig að hámark tillags í fjárfestingarsjóð var lækkað um 5%, en lengdi ekki þann frest er menn hafa í 38. gr. laga nr. 45/1987 m.s.b.

Á álagningarseðli 1991 er umbjóðandi minn því talinn skulda tekjuskatt að fjárhæð kr. 119.038 og verðbætur kr. 8.856, en er ekki skuldlaus af tekjuskatti eins og umbjóðandi minn ætlaði að vera og tilgangur hans var með því að greiða staðgreiðslu opinberra gjalda vegna 38. gr., sbr. RSK 5.22.

Þessu vill umbjóðandi minn ekki una og óskar því eftir að verðbætur kr. 8.856 verði niðurfelldar, þar sem hann hafði greitt að fullu fjárhæð er nægði til lúkningar væntanlegri álagningu tekjuskatts og útsvars, miðað við þau lög er þá voru í gildi, til þess að fá ekki lagðar á verðbætur.“

Með kæruúrskurði, dags. 21. október 1991, vísaði skattstjóri kæru til hans frá með þeim rökstuðningi að ákvörðun verðbóta á vangreidda staðgreiðslu samkvæmt 121. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sætti ekki kæru til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 3. desember 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verður staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Umræddar verðbætur voru ákvarðaðar af skattstjóra, sbr. 121. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og fær það ekki staðist, sem felst í kæruúrskurði skattstjóra, að ekki sé unnt að koma að leiðréttingu þeirra með kæru til skattstjóra. Ekki er lagaheimild til niðurfellingar verðbóta vegna þeirra ástæðna sem greinir í kæru til skattstjóra og ekki er fjárhæð verðbótanna mótmælt tölulega. Er kröfu kæranda því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja