Úrskurður yfirskattanefndar

  • Eignfærsla fasteignar
  • Húsnæðishlunnindi
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 238/2010

Gjaldár 2009

Lög nr. 90/2003, 95. gr., 96. gr., 99. gr.   Lög nr. 37/1993, 22. gr.  

Þær breytingar skattstjóra á skattframtali kærenda, að fella niður eignfærslu fasteignar og færa kæranda, A, til tekna skattskyld húsnæðishlunnindi vegna endurgjaldslausra afnota af sömu fasteign, voru ómerktar með því að skattstjóri gætti þess ekki að gefa kærendum kost á að leggja fram skýringar og gæta réttar síns að öðru leyti áður en skattframtalinu var breytt á hinn umdeilda veg.

I.

Með kæru, dags. 23. febrúar 2010, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði skattstjóra, dags. 26. nóvember 2009, vegna álagningar opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2009. Með úrskurði sínum færði skattstjóri kærendum til skattskyldra tekna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, húsnæðis­hlunnindi að fjárhæð 1.307.500 kr. vegna íbúðar að K, Reykjavík, en eignin var skráð eign X ehf. samkvæmt upplýsingum frá Fasteignaskrá Íslands. Af hálfu kærenda er þess krafist að úrskurði skattstjóra verði hrundið.

II.

Með bréfi, dags. 29. júlí 2009, tilkynnti skattstjóri kærendum um breytingar á skattframtali þeirra árið 2009 með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Annars vegar hefði fasteignin að K verið felld niður af framtölum aðila, sbr. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, en samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins hefði húsnæðið verið skráð á X ehf. sem hefði keypt það 31. janúar 2005. Hins vegar hefði skattstjóri fært kærendum til skattskyldra tekna húsnæðishlunnindi að fjárhæð 1.307.500 kr. sem væri 5% af fasteignamatsverði íbúðarinnar. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá hefði kærandi, A, verið skráður sem stjórnarmaður í X ehf., en fyrirtækið hefði verið eigandi að íbúðinni að K þar sem kærendur hefðu búið. Umræddra hlunninda hefði ekki verið getið meðal skattskyldra tekna á framtali kærenda en hlunnindi teldust til skattskyldra tekna sem launatekjur, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

Með bréfi, dags. 5. ágúst 2009, mótmæltu kærendur breytingum skattstjóra. Í bréfinu kom fram að skattstjóri hefði einhliða ákveðið að færa kæranda, A, til tekna húsnæðishlunnindi að fjárhæð 1.307.500 kr. þrátt fyrir að skýrt kæmi fram í framtölum síðustu ára að samningi um íbúðarhúsnæðið að K hefði verið rift daginn eftir að hann var gerður. Þá mótmæltu kærendur túlkun skattstjóra á 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sem vísað hefði verið til, og töldu skorta rök fyrir einhliða tekjufærslu skattstjóra á grundvelli ákvæðisins. Eins og ársreikningur X ehf. hefði borið með sér hefði engin starfsemi verið hjá félaginu frá því það var stofnað og hefði kærandi, A, aldrei þegið laun eða hlunnindi frá félaginu. Væri þess krafist að umrædd tekjufærsla yrði felld niður og álagning gjalda leiðrétt í samræmi við það. Með bréfinu fylgdi afrit af samkomulagi um riftun vegna húsnæðisins að K, afrit skattframtals X ehf. árið 2007 og afrit skattframtals kærenda árið 2006. Með bréfi, dags. 7. ágúst 2009, leituðu kærendur til skattstjóra, með ósk um breytingu á skattframtali árið 2009. Í bréfinu kom fram að breytingin varðaði fasteign en ekki var að öðru leyti gerð grein fyrir málavöxtum.

III.

Með kæruúrskurði, dags. 26. nóvember 2009, hafnaði skattstjóri kröfu kærenda varðandi húsnæðishlunnindi. Tók skattstjóri fram að samkvæmt upplýsingum Fasteignaskrár Íslands hefði íbúðin að K, Reykjavík, verið skráð eign X ehf. Hefði kaupdagur verið 31. janúar 2005 og afhendingardagur 1. febrúar 2005. Engar breytingar hefðu verið gerðar á þeirri skráningu hjá Fasteignaskrá Íslands þótt kærendur teldu að kaupunum hefði verið rift daginn eftir afhendingu. Engin skýring hefði heldur komið fram um ástæður þess að íbúðin væri skráð á X ehf. en ætti svo að vera eign kæranda, B. Tók skattstjóri fram að ekki væri fallist á annan eiganda en þann sem væri skráður eigandi samkvæmt Fasteignaskrá Íslands.

IV.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 23. febrúar 2010, er þess krafist að húsnæðishlunnindi að fjárhæð 1.307.500 kr. vegna íbúðar að K, Reykjavík, sem skattstjóri færði kærendum til tekna, verði felld niður. Í kærunni kemur fram að skattstjóri hafi fært kærendum framangreinda fjárhæð til tekna sem hlunnindi, en kærandi, A, hafi verið stjórnarmaður í X ehf. sem hafi keypt fasteignina þann 31. janúar 2005. Hins vegar hafi kaupsamningnum verið rift tveimur dögum síðar. X ehf. hafi verið stofnað vegna verkefna sem til stóð að inna af hendi erlendis sem ekki varð af og hafi félagið ekki stundað neina starfsemi frá stofnun þess. Félagið hafi ekki haft neinar tekjur eða gjöld, ætti engar eignir og skuldaði ekkert eins og skattframtöl og ársreikningar þess bæru með sér. Kærandi, B, hafi alltaf greitt öll gjöld af íbúðinni og í skattframtölum frá 2006 til síðasta framtals hafi kærendur alltaf gert grein fyrir því að eignin að K væri í raun í eigu hennar, enda hafi fyrrgreindum kaupsamningi um íbúðina verið rift. Kærendum hafi hins vegar láðst að þinglýsa riftun á sínum tíma, en þau hafi nú lagt riftunarskjalið inn til sýslumanns til þinglýsingar sem staðfesti að K hafi verið í eigu kæranda, B, utan tveggja daga árið 2005. Með kærunni fylgir meðal annars riftun eigendaskipta að íbúðarhúsnæðinu, dags. 2. febrúar 2005, afrit skattframtals X ehf. árið 2007 og kvittanir vegna gjalda og afborgana B af fasteigninni.

V.

Með bréfi, dags. 30. apríl 2010, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. maí 2010, var kæranda, A, sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

VI.

Eins og fram er komið færðu kærendur umrætt íbúðarhúsnæði að K í Reykjavík til eignar í skattframtali sínu árið 2009. Skattstjóri felldi þá eignfærslu niður með tilkynningu sinni, dags. 29. júlí 2009, jafnframt því að ákvarða kæranda, A, skattskyld húsnæðishlunnindi að fjárhæð 1.307.500 kr. vegna endurgjaldslausra nota húsnæðisins. Skattstjóri fór með breytingar þessar eftir 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Skattstjóri byggði á því að umrætt húsnæði væri skráð á X ehf. samkvæmt eigendaskráningu Fasteignaskrár Íslands. Í kjölfar kæru kærenda, dags. 5. ágúst 2009, kvað skattstjóri upp kæruúrskurð, dags. 26. nóvember 2009, þar sem hann ítrekaði rök sín og hélt fast við fyrri afstöðu varðandi þýðingu eigendaskráningar fasteignaskrár.

Samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003 getur skattstjóri, nú ríkisskattstjóri, leiðrétt fjárhæðir einstakra liða í framtali skattaðila ef þeir eru í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattyfirvalda, svo og einstaka liði framtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi, en gera skal skattaðila viðvart um slíkar breytingar. Tilvitnaða heimild skattstjóra, nú ríkisskattstjóra, ber að skýra með hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga um skyldu stjórnvalds til að sjá til að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, og 13. gr. sömu laga um rétt aðila stjórnsýslumáls til að tjá sig um efni þess áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.

Vegna forsendu skattstjóra skal tekið fram að eigendaskráning í fasteignaskrá getur ekki talist einhlítur grundvöllur að eignarheimildum yfir fasteignum. Að því athuguðu og að virtum framtalshætti kærenda, þar sem fasteignin var eignfærð, var óhjákvæmilegt að kærendum gæfist kostur á að koma að sjónarmiðum sínum, athugasemdum og skýringum og eftir atvikum gögnum, áður en skattstjóri tók ákvörðun sína varðandi eignarhald á umræddri fasteign. Samkvæmt því voru engin skilyrði til að fara með þá breytingu á skattframtali kærenda árið 2009 að fella niður umrædda eignfærslu eftir 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003. Bar skattstjóra því að fara eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. laganna hygðist hann hrófla við þessum þætti skattframtalsins. Af þessu leiðir og að engin skilyrði voru til að ákvarða hin umdeildu húsnæðishlunnindi á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, enda varð eðli málsins samkvæmt að skera úr um eignarhaldið á fasteigninni áður en það atriði gat komið til skoðunar, auk þess sem sjálfstætt tilefni var til að leita eftir afstöðu kærenda til ákvörðunar húsnæðishlunninda sérstaklega.

Þá er það við málsmeðferð skattstjóra að athuga að engin grein er gerð fyrir viðeigandi stjórnvaldsfyrirmælum (skattmatsreglum) varðandi húsnæðishlunnindi hvorki í tilkynningu skattstjóra, dags. 29. júlí 2009, né kæruúrskurði, dags. 26. nóvember 2009, sbr. reglur fjármálaráðherra um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2008, er birtar voru í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 4, 2. janúar 2008. Þá er lagaákvæða í engu getið í kæruúrskurði skattstjóra og með ófullnægjandi hætti í tilkynningu hans. Samkvæmt þessu voru ágallar á rökstuðningi skattstjóra bæði í tilkynningu hans og kæruúrskurði, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. og 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, og 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi stjórnvaldsákvörðun ekki verið rökstudd eða rökstuðningur hefur verið haldinn verulegum annmarka leiðir það almennt til þess að íþyngjandi ákvörðun verður talin ógildanleg, enda nást þá venjulega ekki þýðingarmikil markmið sem að er stefnt með rökstuðningi, svo sem að auðvelda málsaðilum að leggja mat á það hvort efni séu til að nýta frekari úrræði, t.d. kæru til æðra stjórnvalds. Þegar virtar eru þær réttarreglur, sem hér gátu haft þýðingu, verður að telja umræddan ágalla á rökstuðningi skattstjóra verulegan annmarka.

Með vísan til þeirra annmarka á meðferð skattstjóra á máli kærenda, sem hér hefur verið lýst, eru hinar kærðu breytingar skattstjóra á skattframtali kærenda árið 2009 ómerktar. Með úrskurði þessum er þá engin efnisafstaða tekin til ágreiningsefnisins.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hinar kærðu breytingar skattstjóra á skattframtali kærenda árið 2009 eru ómerktar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja