Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Reiknað endurgjald
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 131/2001

Gjaldár 1999

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul. 2. mgr., 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 59. gr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr.  

Breytingar skattstjóra á síðbúnu skattframtali kæranda árið 1999, sem lutu að niðurfellingu og lækkun tiltekinna gjaldaliða í rekstrarreikningi vegna sjálfstæðrar starfsemi kæranda við söng og ákvörðun reiknaðs endurgjalds vegna vinnu kæranda við starfsemina, voru felldar úr gildi þar sem skattstjóri var ekki talinn hafa séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hann tók hinar umdeildu ákvarðanir.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests gjaldárið 1999 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda það ár, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda árið 1999 barst ríkisskattstjóra með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 26. október 1999, þar sem þess var óskað að framtalið yrði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar. Framtalinu fylgdi rekstrarreikningur vegna sjálfstæðrar starfsemi kæranda við söng. Með bréfi, dags. 2. nóvember 1999, fól ríkisskattstjóri skattstjóra afgreiðslu á erindi kæranda, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981. Með úrskurði, dags. 30. maí 2000, féllst skattstjóri á að leggja skattframtal kæranda til grundvallar álagningu opinberra gjalda hennar gjaldárið 1999, þó að gerðum tilteknum breytingum á framtalinu. Meðal breytinga skattstjóra var að fella niður gjaldfærðan kostnað í rekstrarreikningi vegna búninga 60.985 kr., farða og förðunar 95.821 kr. og veitinga 88.495 kr. Kvaðst skattstjóri ekki fallast á að um frádráttarbæran rekstrarkostnað samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri að ræða heldur persónulegan kostnað kæranda. Þá lækkaði skattstjóri gjaldaliðinn „póstur og sími“ í rekstrarreikningi kæranda um 78.776 kr., þ.e. úr 88.776 kr. í áætlaða fjárhæð 10.000 kr. Vísaði skattstjóri til þess að með hliðsjón af eðli og umfangi rekstrar kæranda þætti umræddur kostnaður hæfilega áætlaður með fyrrgreindri fjárhæð. Af þessum breytingum skattstjóra leiddi að hagnaður varð af rekstri kæranda 231.582 kr. sem skattstjóri færði sem reiknað endurgjald kæranda í reit 24 í framtalinu, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, sem skattstjóri vísaði til. Varðandi ákvörðun á fjárhæð reiknaðs endurgjalds skírskotaði skattstjóri ennfremur til 59. gr. laga nr. 75/1981, viðmiðunarreglna ríkisskattstjóra og fyrrgreindra breytinga á gjaldahlið rekstrarreiknings. Tók skattstjóri fram að ákvörðun reiknaðs endurgjalds hefði í för með sér álagningu tryggingagjalds samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald. Loks færði skattstjóri hreina eign samkvæmt efnahagsreikningi 325.103 kr. í reit 01 í skattframtali kæranda.

Með kæru, dags. 30. ágúst 2000, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 21. september 2000, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að í ársreikningi með skattframtali kæranda árið 1999 hafi verið blandað saman annars vegar sjálfstæðri starfsemi kæranda sem söngkonu og hins vegar starfsemi leikhóps um uppsetningu á leikverki á árinu 1998. Ráðinn hafi verið sérstakur framkvæmda- og fjármálastjóri vegna þess verkefnis en hann hafi ekki enn skilað uppgjöri vegna þess þrátt fyrir áskoranir kæranda og annarra þátttakenda þar að lútandi. Kærandi hafi ekki fengið greiðslur vegna þátttöku sinnar í flutningi verksins né endurgreiðslu á útlögðum kostnaði hennar af þeim sökum sem tilgreindur sé í rekstrarreikningi með skattframtali kæranda. Vísar kærandi í því sambandi til gjaldaliðanna „pappír og prentun“ 11.285 kr., „búningar“ 60.985 kr., „póstur og sími“ 88.776 kr., „akstur“ 28.680 kr., „farði og förðun“ 95.821 kr., „skráning“ 5.000 kr. og „veitingar“ 88.495 kr., samtals að fjárhæð 383.829 kr., og kveður umræddan kostnað að mestu leyti til kominn vegna umrædds verkefnis. Segir svo í kæru kæranda:

„II. a) Með tilvísun til framanritaðs er óskað eftir því að afturkalla og ógilda umræddan innsendan ársreikning 1998 ásamt fskj. RSK 1.5, RSK 2.01 og RSK 4.05, og að felldar verði niður eftirfarandi breytingar sem skattstjóri gerði á framtali skv. úrskurði dags. 30. maí sl.: Skv. lið 2. Gjaldaliðirnir búningar, farði og förðun og veitingar. Skv. lið 3. Gjaldaliðurinn póstur og sími. Skv. lið 4. Reiknað endurgjald við eigin atvinnurekstur. Skv. lið 5. Hrein eign í atvinnurekstri.

b) Óskað er eftir því að mér verði heimilað að leggja fram í staðinn sem fskj. með skattframtali mínu, meðf. rekstrarreikning ársins 1998, vegna sjálfstæðrar starfsemi sem söngkona, og að þar skráð reiknuð laun kr. 38.025 verði færð í reit 24 á skattframtali.

III. Beðið er um að yfirskattanefnd endurákvarði opinber gjöld 1999 á grundvelli framlagðra gagna.“

Með bréfi, dags. 13. október 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Ríkisskattstjóri krefst þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

II.

Þær breytingar skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1999, sem kærandi gerir athugasemdir við í kæru til yfirskattanefndar, lutu að lækkun gjaldaliðarins „póstur og sími“ í rekstrarreikningi með skattframtalinu um áætlaða fjárhæð 78.776 kr. og niðurfellingu gjaldfærðs kostnaðar vegna förðunar, búninga og veitinga, alls að fjárhæð 245.301 kr. Þá lutu breytingar skattstjóra að ákvörðun reiknaðs endurgjalds kæranda vegna ætlaðrar vinnu hennar við starfsemi sína auk þess sem skattstjóri færði hreina eign samkvæmt efnahagsreikningi 325.103 kr. í reit 01 í skattframtali kæranda. Öðrum breytingum skattstjóra á skattframtalinu, sem lutu að tekjufærslu húsaleigubóta og álagsbeitingu vegna síðbúinna skila á skattframtalinu, sbr. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, unir kærandi eftir því sem fram kemur í kæru hennar til yfirskattanefndar.

Sú skylda hvílir á stjórnvöldum að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt því og eins og sakarefnið var vaxið var óhjákvæmilegt að skattstjóri aflaði viðhorfa og skýringa kæranda á gjaldfærðum kostnaði í rekstrarreikningi að fjárhæð 324.077 kr. áður en hann ákvað að vefengja og fella að hluta niður með öllu umræddan kostnað, enda verður ekki talið að þeir gjaldaliðir sem um ræðir hafi legið þannig fyrir skattstjóra að hann hafi getað dregið þá ályktun með óyggjandi hætti að um ófrádráttarbær útgjöld væri að ræða, sbr. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með úrskurði sínum tók skattstjóri sér jafnframt fyrir hendur að ákvarða kæranda reiknað endurgjald vegna vinnu hennar við sjálfstæða starfsemi. Samkvæmt 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 ber skattaðilanum sjálfum að meta fjárhæð reiknaðs endurgjalds vegna vinnu sinnar við eigin atvinnurekstur. Samkvæmt þessu er ljóst að áður en skattstjóri ákvarðaði fjárhæð reiknaðs endurgjalds kæranda varð ekki hjá því komist að afla upplýsinga um vinnuframlag kæranda og önnur atriði, sem máli skiptu, og þá sérstaklega frá kæranda sjálfri.

Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að skattstjóri hafi séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hann tók hinar umdeildu ákvarðanir sínar varðandi gjaldfærðan kostnað og reiknað endurgjald, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að ómerkja umræddar ákvarðanir skattstjóra. Af því leiðir að stofn til tryggingagjalds umrætt gjaldár fellur jafnframt niður.

Að öðru leyti lýtur kæra kæranda að leiðréttingum á rekstrarreikningi sem skattstjóri hefur ekki tekið afstöðu til. Fylgir kærunni endurgerður rekstrarreikningur sem kærandi fer fram á að verði lagður til grundvallar álagningu opinberra gjalda hennar gjaldárið 1999. Með hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er þessi þáttur kærunnar sendur skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Ákvarðanir skattstjóra varðandi gjaldfærðan kostnað í rekstrarreikningi, reiknað endurgjald og stofn til tryggingagjalds eru ómerktar. Að öðru leyti er kærunni vísað til skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja