Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 346/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 63. gr. — 64. gr. 1. mgr. — 68. gr. A-liður og B-liður   Reglugerð nr. 245/1963 — 93. gr.   Reglugerð nr. 79/1988 — 8. gr. — 12. gr. — 13. gr. 2. tl.  

Sköttun hjóna — Hjón — Skilnaður — Skilnaður að borði og sæng — Hjónaskilnaður — Persónuafsláttur — Millifærður persónuafsláttur frá maka — Persónuafsláttur, millifærður frá maka — Óráðstafaður persónuafsláttur maka — Sjómannaafsláttur — Sjómaður — Sjómannsstörf — Sjómennskudagar — Dagar við sjómannsstörf — Farmskip — Lögskráning — Lögskráningardagar — Orlof — Orlofsdagar — Álagningarmeðferð skattstjóra — Leiðrétting — Leiðrétting skattframtals — Leiðréttingarskylda skattstjóra — Kæra, tilefnislaus — Tilefnislaus kæra — Frávísun — Frávísun vegna tilefnislausrar kæru

Kæruefnin, sem varða frádrátt óráðstafaðs persónuafsláttar maka og sjómannaafslátt, eru sem hér segir:

1. Frádráttur persónuafsláttar maka.

Í skattframtali sínu árið 1989 greindi kærandi frá því, að hann hefði skilið við konu sína, A, að borði og sæng í nóvember 1988. Við frumálagningu var persónuafsláttur hans ákvarðaður 186.629 kr. Ekki var tekið tillit til frádráttar hluta (80%) af óráðstöfuðum persónuafslætti maka, sbr. A-lið 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Í kæru, dags. 22. ágúst 1989, fór kærandi, fram á frádrátt persónuafsláttar eiginkonu sinnar fyrir þá 11 mánuði ársins 1988, sem þau hefðu verið gift. Kærunni fylgdi beiðni eiginkonunnar, dags. 21. ágúst 1989, um samsköttun fram til skilnaðardags 25. nóvember 1988. Með kæruúrskurði, dags. 12. september 1989, ákvarðaði skattstjóri kæranda millifærðan persónuafslátt frá maka svo sem hér segir: „Fyrir liggur skriflegt samþykki beggja varðandi samsköttun 1/1 - 30/11. Sú afgreiðsla virðist ekki vera yður í óhag, að millifærður persónuafsláttur frá A til yðar verði 80% af 11/12 hlutum þ.e. kr. 98.050.“

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 11. október 1989, krefst kærandi leiðréttingar á fjárhæð millifærðs persónuafsláttar frá maka, þar sem hann telur úrskurðaða fjárhæð ranga.

2. Sjómannaafsláttur.

Kærandi starfaði við sjómennsku á m/s B. Skv. launauppgjöf útgerðarinnar voru sjómennskudagar í janúar til júní 1988 180 og júlí til desember 1988 135. Þennan dagafjölda færði kærandi í reiti 9.2 og 9.3 í skattframtali sínu árið 1989. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 var kæranda ekki ákvarðaður neinn sjómannaafsláttur, sbr. B-lið 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðar breytingum. Með bréfi, dags. 22. ágúst 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda um leiðréttingu álagningar vegna ákvörðunar sjómannaafsláttar kæranda til handa að fjárhæð 133.380 kr. þ.e. í samræmi við fyrirliggjandi dagafjölda. Með kæru, dags. 25. október 1989, krafðist kærandi endurskoðunar á fjárhæð sjómannaafsláttarins á þeim forsendum, að hann væri í fullu starfi hjá B sf. og þægi ekki laun annars staðar. Taldi hann sig eiga rétt á fullum sjómannaafslætti, sbr. 2. tl. 13. gr. reglugerðar nr. 79/1988, um persónuafslátt og sjómannaafslátt. Þann 1. desember 1989 hækkaði skattstjóri sjómannaafslátt kæranda í 155.952 kr.

Í kæru, dags. 11. október 1989, hefur kærandi krafist fulls sjómannaafsláttar, þ.e. vegna skráðra daga, frídaga og orlofs, enda sé hann sjómaður á farmskipi í fullu starfi, sbr. 2. tl. 13. gr. reglugerðar nr. 79/1988, um persónuafslátt og sjómannaafslátt.

Með bréfi, dags. 12. janúar 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Ekki verður annað ráðið en að álagning á kæranda sé rétt og lögum samkvæmt. Er kæran til ríkisskattanefndar því tilefnislaus og er krafist frávísunar af þeim sökum.“

Um 1. tl. Skv. skattframtali og álagningargögnum A gjaldárið 1989, sem liggja fyrir í málinu er fjárhæð millifærðs, óráðstafaðs persónuafsláttar hennar til kæranda rétt ákvörðuð. Er kæruatriði þessu því vísað frá.

Um 2. tl. Þann 1. desember 1989 ákvarðaði skattstjóri kæranda sjómannaafslátt vegna alls ársins 1988 155.952 kr. (366 daga). Er kæran því tilefnislaus að því er þetta kæruatriði varðar og því vísað frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja