Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 387/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 73/1980 — 36. gr. 1. mgr. — 37. gr. 2. mgr.   Lög nr. 75/1981 — 13. gr. — 44. gr. 1. mgr. 1. ml. — 74. gr. 1. tl. 1. mgr. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. — 96. gr. 1. og 3. mgr.   Lög nr. 46/1987 — 4. gr. 4. mgr.  

Fasteign — Fasteignamatsverð — Fasteignamatsverð, áætlun — Áætlun skattstjóra á fasteignamatsverði — Fasteignamatsverð, vöntun — Eignarskattur — Eignarskattsverð — Eignarskattsstofn — Atvinnuhúsnæði — Söluhagnaður — Söluhagnaður fasteignar — Söluhagnaður fyrnanlegrar fasteignar — Fyrning — Fyrning, sérstök — Sérstök fyrning — Sérstök fyrning á móti skattskyldum söluhagnaði — Fyrnanleg eign — Frestun skattlagningar söluhagnaður — Söluhagnaður, frestun skattlagningar — Reiknað endurgjald — Reiknað endurgjald, takmörkun fjárhæðar — Rekstrartap — Rekstrartap myndað með reiknuðu endurgjaldi — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsgreinargerð — Aðstöðugjaldsstofn — Heildartekjur við ákvörðun aðstöðugjaldsstofns — Aðstöðugjaldsskylda — Atvinnurekstur — Skattlagningarstaður — Skattlagningarstaður aðstöðugjalds — Málsmeðferð áfátt — Andmælareglan — Kröfugerð kæranda

I.

Kæruefni eru sem hér segir:

1. Eignarskattsverð fasteignar. Málavextir eru þeir, að kærandi, X, keypti fasteignina Y, með kaupsamningi, dags. 29. desember 1987, og var kaupverð eignarinnar 17.500.000 kr. Fasteign þessi er atvinnuhúsnæði. Gerði hann grein fyrir kaupunum í sérstöku fylgiskjali með skattframtali sínu árið 1988 (RSK 3.02). Fram kom í athugasemdadálki þessa fylgiskjals að söluhagnaði samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 8. febrúar 1988, 12.119.212 kr. hefði verið frestað og væri fasteignin fyrnd sérstakri fyrningu á móti söluhagnaðinum. Í rekstrarreikningi, er fylgdi framtalinu, tekjufærði kærandi nefndan söluhagnað er nam framreiknaður 14.294.610 kr. Voru þetta einu tekjur samkvæmt rekstrarreikningi þessum. Til gjalda færði kærandi m.a. sérstaka fyrningu jafnháa söluhagnaðarfjárhæðinni og reiknað endurgjald 150.000 kr. Tap ársins nam 395.450 kr. Bókfært verð fasteignarinnar í efnahagsreikningi nam 3.205.390 kr. Skuldir umfram eignir námu 3.994.325 kr. er var fært í skuldahlið skattframtals árið 1988.

Með bréfi, dags. 25. ágúst 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að rekstrartap 395.450 kr. væri fellt niður vegna útstrikunar reiknaðs endurgjalds 150.000 kr. og lækkunar gjaldfærðrar sérstakrar fyrningar úr 14.294.610 kr. í 14.069.160 kr. eða um 245.450 kr., enda væri óheimilt að mynda tap með liðum þessum, sbr. 4. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, að því er fyrra atriðið snertir og lokamálsgrein 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, að því er varðar síðara atriðið. Ekki er ágreiningur um þetta í málinu. Þá tilkynnti skattstjóri kæranda, að nefnd fasteign væri talin til eignar á kaupverði 17.500.000 kr., sbr. 1. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hrein eign til skatts í reit 01 í framtali yrði því 10.300.285 kr. og skuldir umfram eignir féllu niður.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var síðastnefndri breytingu skattstjóra mótmælt með svofelldum rökum í kæru, dags. 24. ágúst 1988:

„Fasteignin Y er talin til eignar skv. 1. tl. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 75/1981. Þar sem fasteignamatsverð eignarinnar liggur ekki fyrir þá er „eignin talin til eignar á stofnverði, sbr. 2. mgr. 10. gr., að frádregnum fengnum fyrningum og að teknu tilliti til verðbreytinga skv. 26. gr.“. Eftir ofangreindar breytingar skattstjóra skv. 1. og 2. lið þá er eignin talin fram á kr. 3.450.840 og frá því er dregin skuld í Verslunarbanka Íslands kr. 7.199.715. Eigið fé skv. efnahagsreikningi verður því neikvætt um kr. 3.748.875 sem dregst frá sameiginlegum eignarskattsstofni X og A og ætti hann að vera kr. 8.155.502 eftir þessar breytingar.“

Með kæruúrskurði, dags. 6. janúar 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda, þ.e.a.s. að telja fasteignina til skatts á stofnverði að frádregnum fengnum fyrningum. Skattstjóri gat þess í kæruúrskurðinum, að áætlað fasteignamatsverð sambærilegra eigna væri 13.5 - 14.5 millj. króna samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúa og Fasteignamati ríkisins. Lóðarmatið lægi og fyrir og væri það 1.537.000 kr. Breyttist því áætlun skattstjóra í 15.037.000 kr. Að frádregnum skuldum 7.199.715 kr. lækkaði hrein eign í reit 01 í skattframtali í 7.837.285 kr.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 12. janúar 1989, krefst kærandi þess, að hið áætlaða fasteignamatsverð skattstjóra verði lækkað, enda sé það alltof hátt, a.m.k. 2.5 - 3.5 millj. krónum of hátt. Ætti heildarfasteignamatsverð því að vera ca. 11.500.000 kr., þ.e. bæði húss og lóðar.

2. Aðstöðugjaldsstofn. Samkvæmt greinargerð um aðstöðugjaldsstofn, er fylgdi skattframtali kæranda árið 1988, nam aðstöðugjaldsstofn 14.294.610 kr. vegna reksturs umræddrar fasteignar. Álagt aðstöðugjald á þessa starfsemi nam því 185.820 kr. Í kæru til skattstjóra, dags. 24. ágúst 1988, krafðist umboðsmaður kæranda leiðréttingar á aðstöðugjaldsstofni, enda væri augljós villa í aðstöðugjaldsgreinargerð. Láðst hefði að draga söluhagnað 14.294.610 kr. frá í A-hluta greinargerðarinnar, en hann væri ekki aðstöðugjaldsskyldur. Heildartekjur væru því 0 kr. og aðstöðugjaldsstofn í dálki 21 væri því einnig 0 kr. Í kæruúrskurði, dags. 6. janúar 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Skírskotaði skattstjóri til þess, að í 2. mgr. 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, kæmi skýrt fram, að aðeins sá hluti rekstrarkostnaðar, sem væri umfram heildartekjur, væri undanþeginn aðstöðugjaldi og yrði söluhagnaður tvímælalaust að teljast til heildartekna atvinnurekstrar.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 12. janúar 1989, gerir kærandi svofelldar kröfur varðandi þetta kæruatriði:

„Um lið 2 hefur framteljandi það að segja að söluhagnað verði ekki tvímælalaust að telja til heildartekna atvinnurekstrar og kærir því úrskurð skattstjóra. Til vara kærir framteljandi til ríkisskattanefndar álagningu aðstöðugjalda á sig árið 1988 og óskar eftir að aðstöðugjaldsstofni verði skipt þannig að hann hafi verið með margþætta starfsemi. Í fyrsta lagi verði lagt á hann aðstöðugjald í Keflavík vegna útgerðar en söluhagnaðinum hafði verið frestað frá fyrri árum og hafði verið tilkomin vegna sölu á bát sem hann átti og rak útfrá Keflavík. Heildartekjur vegna þessarar starfsemi eru kr. 14.294.610 og heildarkostnaður eru sérstakar fyrningar að sömu upphæð. Aðstöðugjaldsstofn í Keflavík í gjaldstig 0.33% verði kr. 14.294.610. Í öðru lagi rekur framteljandi starfsemi sína sem er rekstur fasteigna. Heildartekjur þeirrar starfsemi er kr. 0 en kostnaður 245.450. Aðstöðugjaldsstofn verði því kr. 0.“

II.

Með bréfi, dags. 6. apríl 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

III.

Um 1. tl. Á það er fallist með skattstjóra að umrædda eign beri að telja til eignar á áætluðu fasteignamatsverði sambærilegra eigna, sbr. 2. ml. 1. mgr. 1. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og er út af fyrir sig eigi lengur ágreiningur um það í málinu, sbr. kæruna til ríkisskattanefndar. Hins vegar telur kærandi áætlun skattstjóra of háa, en skattstjóra ber að áætla fasteignamatsverð í þessu sambandi með hliðsjón af gildandi ákvæðum um fasteignamat, sbr. 3. ml. 1. mgr. 1. tl. nefndrar lagagreinar. Skattstjóri breytti hinum umdeilda eignarlið með bréfi sínu, dags. 25. júlí 1988, og miðaði þá eignarverðið til skatts við kaupverð. Við þessa breytingu fór skattstjóri eftir 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eigi var rétt af skattstjóra að viðhafa þá málsmeðferð. Bar honum að fara með breytinguna eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. nefndra laga og gefa kæranda kost á að gæta hagsmuna sinna og koma að athugasemdum sínum, skýringum og eftir atvikum gögnum, áður en breytingin var ákveðin. Þá er til þess að líta, að það er fyrst í hinum kærða úrskurði, að skattstjóri áætlar fasteignamatsverð eignarinnar með þar greindum rökstuðningi og að undangenginni öflun upplýsinga. Þrátt fyrir þessa ágalla á málsmeðferð skattstjóra þykir eftir atvikum og með tilliti til kröfugerðar kæranda eigi efni til þess að hnekkja breytingu skattstjóra með öllu. Hins vegar þykir af málsmeðferð skattstjóra leiða, að áætlunarfjárhæð eignarinnar til skatts lækki í það, sem kærandi krefst, þ.e. 11.500.000 kr.

Um 2. tl. Kærandi hafði engan atvinnurekstur í Keflavík með höndum rekstrarárið 1987, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Með vísan til þess og 2. mgr. 37. gr. sömu laga er kröfum kæranda, bæði aðal- og varakröfu, hafnað og úrskurður skattstjóra staðfestur um þetta kæruatriði.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja