Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 391/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 100. gr.   1. mgr. — 106. gr. 1. mgr.   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I   Reglugerð nr. 76/1988 — 2. gr.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Húsnæðisbætur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðareign — Fyrsta íbúðarhúsnæði — Fyrri íbúðareign — Kæranleiki — Kæranleg skattákvörðun — Kæruúrskurður — Vaxtaafsláttur

Kæruefni eru sem hér segir:

1. Álag. Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1989 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989. Við hina áætluðu skattstofna bætti skattstjóri 25% álagi skv. heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda árið 1989, sem dagsett er 28. maí 1989, barst skattstjóra 13. júlí 1989 samkvæmt móttökuáritun hans. Þá fór kærandi þess á leit í kæru, dags. 1. september 1989, að álagi yrði ekki beitt vegna síðbúinna framtalsskila, þar sem skattframtalið hefði vegna mistaka lent hjá tilgreindri lögmannsstofu ásamt gögnum vegna erfðasölumáls, er stofan hefði haft með höndum. Þessi mistök hefðu ekki uppgötvast, fyrr en framtalsfrestur hefði verið liðinn og framtalið þá sent um hæl til skattstofunnar. Með kæruúrskurði, dags. 16. október 1989, féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989, að viðbættu 15% álagi á skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila samkvæmt heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, enda hefði ekki verið sýnt fram á, að þær aðstæður hefðu legið fyrir, er leiddu til þess að fella bæri niður álag skv. 3. mgr. nefndrar lagagreinar. Þá benti skattstjóri á, að skattframtal kæranda árið, 1987, ódags., hefði borist 24. ágúst 1987.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 2. nóvember 1989, fer kærandi fram á niðurfellingu þess álags (15%), sem skattstjóri bætti við skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila með vísan til áður framkominna skýringa á seinkun þeirri, er varð á skilunum.

2. Húsnæðisbætur. Málavextir eru þeir, að kærandi sótti um húsnæðisbætur með umsókn, dags. 17. ágúst 1989, vegna íbúðar að A. Í umsókninni kom fram, að kærandi hefði áður átt íbúðarhúsnæði á árunum 1978-1987. Skattstjóri tók umsóknina til meðferðar þann 18. október 1989 og synjaði henni á þeim forsendum, að kærandi hefði átt íbúð að B, lengur en 2 ár og teldist því sú íbúð, er umsóknin varðaði, ekki fyrsta íbúð kæranda í skilningi lagaákvæða um húsnæðisbætur.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 2. nóvember 1989, kemur fram sú skoðun kæranda, að umrædd íbúð að A sé sannarlega fyrsta íbúð hans sem einstaklings og hljóti hann að eiga rétt á vaxtaafslætti (eldra kerfi) eða húsnæðisbótum (staðgreiðslukerfi).

Með bréfi, dags. 29. mars 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að báðir hinir kærðu úrskurðir skattstjóra verði staðfestir með vísan til forsendna þeirra.

Um 1. tl. Eftir öllum atvikum og með hliðsjón af skýringum kæranda er hið kærða álag niður fellt.

Um 2. tl. Umsókn kæranda um húsnæðisbætur barst í kærufresti til skattstjóra. Rétt þykir að líta á synjun skattstjóra, dags. 18. október 1989, sem úrskurð, er kæranlegur sé til ríkisskattanefndar. Synjun skattstjóra um húsnæðisbætur til handa kæranda þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hennar. Rétt er að taka fram, að skv. framtalsgögnum og gildandi lagaákvæðum reiknast kæranda enginn vaxtaafsláttur gjaldárið 1989.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja