Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 511/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 14/1965 — 2. gr. 3. mgr.   Lög nr. 62/1969   Lög nr. 42/1978   Reglugerð nr. 151/1986 — 11. gr.  

Launaskattur — Launaskattsskylda — Iðnaður — Innréttingasmíði — Trésmíði — Byggingarstarfsemi — Atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands — Hagstofa Íslands, atvinnuvegaflokkun — Fyrirtækjaskrá — RIS 1985.300 — Fordæmisgildi stjórnvaldsákvörðunar

Í launaframtali sínu árið 1988 gerði kærandi ráð fyrir því, að greidd laun í starfsemi hans 1.262.663 kr. væru undanþegin launaskatti. Kærandi stundaði trésmíði og var starfsemi hans samkvæmt málsgögnum flokkuð í 261 samkvæmt atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, þ.e. sem trésmiðja naglfastra hluta húsa.

Með bréfi, dags. 25. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að greidd laun samkvæmt launaframtali væru færð úr reit C í launaframtali sem laun undanþegin launaskatti í reit A sem gjaldskyld laun í gjaldstigi 3,5%, þar sem atvinnurekstur kæranda félli ekki undir 11. gr. reglugerðar nr. 151/1986, um launaskatt. Af hálfu kæranda var þessari breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 23. ágúst 1988, með skírskotun til 6. gr. laga nr. 3/1986, þar sem svo væri kveðið á um, að undanþegin skattskyldu væru vinnulaun og þóknanir fyrir störf hjá fyrirtækjum, sem flokkuðust undir fiskverkun og iðnað skv. atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands. Starfsemi kæranda væri skráð hjá Hagstofu Íslands undir atvinnuvegaflokk nr. 261 (smíði naglfastra fylgihluta húsa) og félli því undir nefnt undanþáguákvæði laga nr. 3/1986, um breyting á lögum nr. 14/1965, um launaskatt. Máli sínu til stuðnings vísaði kærandi til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 300/1985, þar sem fram kæmi í niðurlagi, að skráning starfseminnar í fyrirtækjaskrá skipti höfuðmáli í þessu sambandi. Krafðist kærandi þess, að launaframtal yrði fært til fyrra horfs og álagður launaskattur felldur niður. Með kæruúrskurði, dags. 30. desember 1988, synjaði skattstjóri kröfu kæranda með því að af framtalsgögnum hans yrði helst ráðið, að starfsemin félli undir atvinnugrein 491.

Með kæru, dags. 18. janúar 1989, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og gerir þá kröfu sem áður, að launaskattur vegna launa gjaldárið 1988 verði felldur niður með svofelldum rökum: „Starfsemi ofanritaðs, sem er trésmíðameistari, felst aðallega í smíði og uppsetningu naglfastra innréttinga og fylgihluta húsa, og fer smíðin fram þar sem innréttingarnar eru settar upp.“

Með bréfi, dags. 6. apríl 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands segir m.a. um atvinnugrein 261, ,, ...Smíði innréttinga í eldhús o.fl., sem framkvæmt er á verkstæði, en ekki á byggingarstað. ... Aths.: Innréttingasmíði á byggingarstað telst byggingarstarfsemi í flokki 4.“

Í kæru segir að starfsemi kæranda fari fram á byggingarstað (þar sem innréttingarnar eru settar upp). Starfsemi kæranda þykir, með hliðsjón af framangreindu, því ekki falla undir iðnað, þ.e. flokk 2 og 3 í atvinnuvegaflokkun Hagstofunnar. Er því ítrekuð krafan um staðfestingu á úrskurði skattstjóra.“

Samkvæmt málsgögnum er starfsemi kæranda skráð í flokk 261 í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands. Með vísan til þess, sem upplýst er af hálfu kæranda sjálfs um starfsemi þá, sem í málinu greinir, og þess, sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu, þykir kærandi eigi hafa sýnt fram á, að undanþága sú frá launaskattsskyldu, sem kveðið er á um í 1. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, sbr. 6. gr. laga nr. 3/1986, svo og 1. tl. 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 151/1986, um launaskatt, taki til starfsemi þeirrar, sem hann hefur með höndum. Þykir því verða að synja kröfu kæranda um niðurfellingu hins kærða skatts.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja