Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 546/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 15. gr. — 19. gr.  

Bifreiðaviðskipti — Bifreiðainnflutningur — Lausafé — Söluhagnaður — Söluhagnaður lausafjár — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Skattfrelsi — Skattfrelsi söluhagnaðar — Skattfrelsi söluhagnaðar lausafjár — Sönnun — Sönnunarbyrði — Gróðaskyn — Sölukostnaður — Verðbreytingarstuðull — Söluhagnaður, útreikningur — Útreikningur söluhagnaðar — Söluhagnaður, skattfrjáls — Söluverð — Sölulaun — Beinn kostnaður við sölu eigna

Málavextir eru þeir, að í greinargerð um eignabreytingar í skattframtali sínu árið 1988 greindi kærandi frá því, að hann hefði flutt inn frá Vestur-Þýskalandi bifreið af tegundinni Toyota Supra, árg. 1984, og hefði kaupverð numið 585.000 kr. Þessa sömu bifreið hefði hann selt X, fyrir 830.000 kr. Af þeim sama X hefði hann keypt bifreið af tegundinni Toyota Corolla, árg. 1987, fyrir 690.000 kr. Þá hefði hann flutt inn frá Bandaríkjunum Wagoneer bifreið, árg. 1987 fyrir 767.400 kr.

Með bréfi, dags. 2. júní 1988, krafði skattstjóri kæranda skýringa á því, hvers vegna hann teldi ekki til tekna hagnað vegna sölu þeirrar bifreiðar, sem hann hefði flutt inn frá Vestur–Þýskalandi á árinu 1987 og selt á sama ári og á hverju hann byggði það, ef hann teldi söluhagnaðinn falla undir 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ekki barst svar við þessu fyrirspurnarbréfi. Með bréfi, dags. 25. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að söluhagnaður vegna nefndrar bifreiðar 245.000 kr. hefði verið færður honum til tekna í reit 76 í skattframtali 1988.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessari tekjufærslu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 25. ágúst 1988, og þess getið, að kærandi hefði flutt umrædda bifreið inn í desember 1986 en ekki leyst hana til sín fyrr en í ársbyrjun 1987. Hann hefði þá ekki haft nein áform um að selja bifreiðina innan skamms. Hins vegar hefði hann talið, að bifreiðin hentaði sér ekki eftir að hann hóf að nota hana og því ákveðið að selja hana. Hefði hann selt hana Toyota-umboðinu og greitt 16.600 kr. í sölulaun. Bifreiðin hefði upphaflega ekki verið keypt með það í huga að selja hana. Kærandi liti því svo á, að söluhagnaður væri ekki skattskyldur, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með kæruúrskurði, dags. 6. janúar 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda, en féllst á frádrátt sölulauna 16.600 kr. þannig að fjárhæð skattskylds söluhagnaðar ákvarðaðist 228.400 kr. Úrskurðurinn er svohljóðandi:

„Í tíð eldri laga um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. fyrir gildistöku laga nr. 40/1978 (nú lög 75/1981), var hagnaður af sölu einkabifreiða skattskyldur ef eignarhaldstími náði ekki ákveðnum árafjölda. Með 15. gr. laga nr. 40/1978 var þessum reglum breytt þannig að allur söluhagnaður bifreiða varð skattskyldur án tillits til eignarhaldstíma en framreikna skyldi kaupverð með verðbreytingarstuðli samkv. 26. gr. laganna. Áður en þau lög komu til framkvæmda var 15. greininni breytt með 9. gr. laga nr. 7/1980 í það horf sem hún er nú í lögum nr. 75/1981.

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 7/1980 stendur orðrétt um þessa lagabreytingu:

„Samkvæmt 15. gr. laganna er söluhagnaður af sölu lausafjár, sem eigi er heimilt að fyrna, ávallt skattskyldur án tillits til eignarhaldstíma. Þar sem söluhagnaðurinn telst mismunur á söluverði og kaupverði, upphækkuðu eftir byggingarvísitölu, er hins vegar ljóst að sjaldnast verður um söluhagnað að ræða við sölu á eignum sem hafa tiltölulega skamman endingartíma. Afleiðingin af því að hafa þessa reglu almenna yrði því sú að á almenning og skattyfirvöld yrði lögð allveruleg vinna, t.d. við uppgjör og yfirferð vegna sölu einkabíla, án þess að um skattskyldan söluhagnað væri að ræða nema í undantekningartilvikum. Slík skriffinnska, án verulegs tilgangs, er að sjálfsögðu óæskileg. Er því lagt til að söluhagnaður manna af lausafé sem ekki er notað í atvinnurekstri sé skattfrjáls nema sala þessara eigna falli undir atvinnurekstur skattaðila eða eignanna hafi verið aflað til að selja þær aftur með hagnaði. Er sönnunarbyrðin látin hvíla á gjaldanda, enda hætt við að reynt verði að misnota þessa hagræðingareglu.

Ljóst er að skattyfirvöld geta ekki gert mjög strangar kröfur til þessarar sönnunar, en atriði sem hafa mundu veruleg áhrif á sönnunarmatið væri t.d. fjöldi þeirra lausafjármuna (t.d. bíla) sem viðkomandi gjaldandi hefði selt á viðkomandi skattári og hinum næstu á undan, aðstæður við kaup og sölu þessara lausafjármuna, þau not sem gjaldandi hefur haft af hlutnum á eignarhaldstíma o.s.frv.“

Það er meginregla í skattalöggjöfinni að hagnaður framtalsskyldra eigna er skattskyldur. Undantekningu þar frá er að finna í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Hana ber því að skýra þröngt samkvæmt lögskýringarreglum. Ljóst er af greinargerðinni að undantekningin helgast eigi af efnislegri sérstöðu þessa hagnaðar heldur byggir hún á vissum hagkvæmnissjónarmiðum. Þetta atriði er mikilvægt við skýringu lagagreinarinnar. Þá kemur berum orðum fram að sönnunarbyrðin hvílir á þeim sem selur.

Þar sem þér hafið eigi gert sennilegt að bifreiðaviðskipti yðar falli undir 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981 verður að telja þau skattskyld samkvæmt 1. mgr. þeirrar lagagreinar og nemur skattskyldur hagnaður kr. 228.400 þegar sölulaun hafa verið dregin frá.“

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 1. febrúar 1989, og þess krafist aðallega, að söluhagnaður 228.400 kr. verði felldur undan skattlagningu og álögð opinber gjöld gjaldárið 1988 verði reiknuð að nýju til samræmis við það. Til vara er þess krafist, að kaupverð bifreiðarinnar 1986 585.000 kr. verði framreiknað með verðbreytingarstuðli 1,1795 og nýtt stofnverð hennar verði 690.000 kr. Af hálfu kæranda eru raktar þær skýringar á viðskiptum með umrædda bifreið, sem fram komu í kæru til skattstjóra. Þá getur kærandi þess, að hann hafi ekki átt bifreið í fjölda ára og þar af leiðandi enga bifreið selt um árabil. Áform hafi ekki verið um að selja bifreiðina upphaflega. Hins vegar hefði eiginkona kærandi orðið fyrir slysi haustið 1986 og verið frá vinnu í heilt ár. Hún hefði síðan átt í erfiðleikum við bifreiðar, þ.e. að komast inn og út úr þeim. Umrædd bifreið hefði hentað sérlega illa, þar sem hún hefði verið mjög lág. Hefði því verið ákveðið að selja bifreiðina og kaupa aðra, sem betur hentaði.

Með bréfi, dags. 30. maí 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að virtum atvikum öllum og með hliðsjón af framkomnum skýringum er fallist á kröfu kæranda.“

Að virtum skýringum kæranda, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu, þykir mega byggja á því, að hagnaður kæranda vegna sölu margnefndrar bifreiðar teljist honum eigi til skattskyldra tekna, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er aðalkrafa kæranda í máli þessu því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja